28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Eggerz:

Fyrir hönd strandferðanefndarinnar og eftir samkomulagi við skrifara nefndarinnar ætla jeg að minnast lítils háttar á tillögur hennar.

Áður en jeg fer frekar út í þetta mál, get jeg ekki stilt mig um að minnast lítillega á gang málsins. Á þinginu 1913 kom símskeyti frá Sameinaða fjelaginu, þess efnis, að fjelagið sæi sjer ekki fært að taka að sjer strandferðirnar, sem það hafði gjört tilboð um, ef styrkur væri veittur hinu íslenska Eimskipafjelagi. Þetta símskeyti gjörði menn fastari og eindregnari í þeirri skoðun, að nauðsynlegt væri, að landið rjeði sjálft yfir samgöngum sínum. Á því þingi var því horfið frá Sameinaða fjelaginu, en aftur samþykt að taka tilboði, sem þáverandi ráðherra Hannes Hafstein hafði útvegað frá Björgynjarfjelaginu, og því fjelagi veittar 30 þús. kr., en auk þess voru veittar 30 þús. — kr., til að bæta upp ferðir Björgynjarfjelagsins og um þá upphæð gjörður samningur við Thor E. Tulinius, sem gilti 1914 og 1915 og gildir til aprílloka 1916. Það var þegar búist við því á þinginu 1913, að þessar ferðir Björgynjarfjelagsins og Tuliníusar yrðu ófullnægjandi, enda hefir sú orðið raunin á. Þingið 1914 sá, að svo búið mátti ekki standa, og hóf því undirbúning og að nokkru leyti samning við Eimskipafjelagið íslenska. Þar var gjört ráð fyrir því, að fjelagið legði fram tvö ný skip, og samþykt var áætlun, sem bætti mjög strandferðirnar kring um landið. Frá Eimskipafjelagsins hálfu voru þau skilyrði sett, að landsjóður yki 100 þús. kr. við hlutafje sitt, sem sett hafði verið 400 þús. kr. á þingi 1913. Það var einnig tekið fram sem skilyrði af hálfu fjelagsins, að ef Norðurálfuófriðurinn legði stein í götu fjelagsins, væri það ekki bundið við samninginn. Nú hefir einmitt sú raun á orðið, að vegna stríðsins hefir reynst alveg ókleift að smíða þau tvö ný skip, sem ráð var fyrir gjört 1914 og í bráðabirgðasamningnum. Samkvæmt fengnum upplýsingum mundi hvort skipið nú kosta 330 þús. kr., í stað 260 þús. kr., sem ráðgjört var. Það er því fullkomlega forsvaranlegt, eins og á stendur, að fjelagið hefir ekki látið smíða skipin. Þá er nú svo komið, að skip Eimskipafjelagsins eru ekki tilbúin. Tulinius vill ekki heldur endurnýja samningana; þar á móti hefir hann boðist til að selja landssjóði strandferðaskip sitt hjer fyrir 72 þús. kr. Nefndin athugaði það boð, og komst brátt að þeirri niðurstöðu, að ekki væri takandi í mál að kaupa skipið. Þá er Björgynjarfjelagið eftir, en það hefir enga menn hjer, sem hægt sje að semja við. Nú er það kunnugt, að samkvæmt vilja þings og þjóðar á árunum 1913 og 1914, var áherslan lögð á það, að Eimskipafjelagið tæki að sjer strandferðirnar á einhvern hátt. Þess vegna leitaði nefndin samninga við Eimskipafjelagið, og geta menn kynt sjer alla málavöxtu í nefndarálitinu, svo að ekki er þörf að rekja frekar gang málsins.

Jeg skal taka það fram, að samkvæmt tilboðinu er í ráði, að Eimskipafjelagið fái 75 þús. kr. árlegan Styrk, til að taka að sjer strandferðirnar, en hins vegar eru ekki sömu kröfur gjörðar til skipakostsins, sem var á þinginu 1914, enda yrði fjelagið nú að reka strandferðirnar með leigðum skipum, og er mjög óvíst um, hvers konar skip fjelagið kann að fá. Þó er gjört ráð fyrir því, að skipin verði ekki ljelegri en Austri og Vestri, en samt er ekki unt að segja um það með vissu, þótt nefndin búist við, að skipin verði ófullkomnari en til var ætlast 1914.

Enn er eitt atriði, sem mjög bar á góma milli nefndarinnar og stjórnar Eimskipafjelagsins, sem sje það, að vegna ófriðarins mundi skipaleiga hækka og kol verða dýrari en ella, enda er svo nú, og væri þá óhugsandi fyrir fjelagið að reka strandferðirnar hallalaust. Og stjórn Eimskipafjelagsins lagði áherslu á, að fjelagið treystist ekki til þess að taka á sig þá áhættu, sem af atriðinu stafaði, hvorki gagnvart hluthöfum nje þjóðinni sjálfri; vildi ekki tefla í hættu fyrirtæki, sem þjóðin hefir fylgt með svo hlýjum huga. Nefndin taldi þessar ástæður rjettmætar. Grundvöllurinn undir samningnum 1914 var sá, að skipaleiga og kol yrðu með venjulegu verði. Þess vegna felst nefndin fyllilega á það, að landssjóður beri þann halla, sem af þessu hlýst.

Með leyfi hæstv. forseta vildi jeg lesa upp eina grein úr áliti strandferðanefndarinnar:

Eftir nokkrar bollaleggingar milli Eimskipafjel.stjórnarinnar og nefndarinnar, varð það því að samkomulagi, að til strandferðanna yrði áætluð nokkuð lægri upphæð en gert er ráð fyrir í fylgiskjali I. C, en í þess stað bættur upp halli sá, er verða kynni á rekstri ferðanna vegna ófriðarins, og að fjelagið taki að sjer ferðirnar, með þeim skilyrðum, að það fái 75 þús. kr. styrk til strandferðanna hvort árið. En ef tekjuhalli verður á útgjörð strandferðaskipanna, vegna aukavátryggingar, og þess, að skipaleiga og annað verður í hærra verði en vanalega, af orsökum stríðsins, bætir landasjóður fjelaginu hallann«.

Þar sem hjer er talað um aukavátryggingu, þá má ekki skilja það svo, að búist sje við að hún hækki vegna stríðsins, en Eimskipafjelagið bjóst við, að ef það gæti trygt skip sín sjálft, þá yrði vátryggingin lægri.

Að því er snertir ferðaáætlun skipanna, skal jeg geta þess, að áætlun nr. 2 er lögð til grundvallar fyrir henni. Þó er þar gjörð ein breyting til sparnaðar, og hún er sú, að seinustu ferðinni er slept og jafnframt er sú breyting gjörð, að síðasta ferðin er farin rúmri viku síðar en ætlast er til í áætluninni. Sú breyting er gjörð með sjerstöku tilliti til þess, að ætlast er til að skipin taki kjöt í síðustu ferðinni. Og þá eru einnig gjörðar nokkrar aðrar óverulegar breytingar, og skal jeg ekki minnast á þær. Aftur á móti hefir nefndin ekki sjeð sjer fært að fella burtu fyrstu ferðina, eins og beðið var um. Jeg gjöri ráð fyrir því, að hafi menn kynt sjer áætlunina, þá sjái þeir, að ferðirnar verða með þessu móti betri en nokkurn tíma áður. Jeg fæ ekki betur sjeð, en að ráðist hafi vel fram úr strandferðamálum vorum. Auðvitað verður afleiðingin sú, að af því við fáum betri ferðir, verður líka aukinn kostnaður við ferðirnar. En á þessum lið útgjaldanna má síst spara.

Jeg sje ekki ástæðu til að tala meira um strandferðirnar og verð að láta mjer nægja að vísa í nefndarálitið. En áður en jeg sest niður vil jeg leyfa mjer að minnast á tillögu frá háttvirtum minni hl. nefndarinnar, þar sem lagt er til að styrkurinn til millilandaferða Eimskipafjelagsins sje færður niður úr 40 þús. kr., hvort árið í 35 þús. kr. fyrra árið og 25 þús. kr. síðara árið. Meiri hluti strandferðanefndarinnar leggur ríka áherslu á, að 40 þús. kr. styrkveitingin verði látin halda sjer. Auk þess gjörði framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins það beint að skilyrði fyrir því, að fjelagið tæki að sjer strandferðirnar, að þessi styrkur yrði óbreyttur. Jeg lít svo á, að ef þessi styrkur yrði færður niður, þá riði það í bág við skýlaust loforð þingsins, um að standa fast bak við Eimskipafjelagið, og yrði Eimskipafjelagið að láta undan í samkepninni við útlendu fjelögin, þá væri það illa farið. En sjái keppinautarnir, að Alþingi standi á bak við fjelagið, þá vita þeir fyrir fram, að ekki er til neins að ætla sjer að koma Eimskipafjelaginu á knje, og þá er jeg viss um að fjelagið sigra alla keppinautana. Jeg vil því eindregið leggja til að breytingartill. verði feld.

Þá á jeg sjálfur eina viðaukatillögu við fjárlögin, á þgskj. 592. Hún er um það, að styrkinn til skálda og listamanna skuli veita eftir tillögum þriggja manna nefndar. Jeg gat þess við 2. umræðu fjárlaganna, að jeg greiddi styrkveitingunni atkvæði með því skilyrði, að samþykt yrði tillaga um að stjórnin skyldi veita styrkinn eftir tillögum nefndar, en jeg var þá ekki ráðinn í, hvernig nefndin skyldi verða skipuð. Nú legg jeg til að nefndin sje skipuð þannig, að einn nefndarmaðurinn sje kjörinn af háskólaráðinu, annar af stjórn Bókmentafjelagsins, og þriðji af Stúdentafjelaginu í Reykjavík. Mjer skilst að það sje óheppileg stefna, sem tekin verður upp, ef alt er í þessu efni lagt á vald stjórnarinnar. Þótt stjórnin vildi fara vel með valdið, þá yrði hún samt áreiðanlega fyrir hnútum og brigslum út af því, hvernig hún úthlutaði fjenu. Auk þess er ekki hægt að búast við, að stjórnin hafi nokkurt vit á að meta skáldskap og fagrar listir. Hitt virðist mjer einsætt, að rjett sje að kjósa nefnd manna, sem vit hafi á að meta slíkt, og láta úthluta. styrknum eftir tillögum hennar.

Ef þessi breytingartillaga mín fellur, þá vildi jeg fremur að þingið úthlutaði styrknum, eins og áður, en að alt yrði lagt á vald stjórnarinnar.