28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsögum. (Pjetur Jónsson) :

Jeg verð fyrir fram a:ð biðja afsökunar á því, að framsaga mín verður hvorki sköruleg nje merkileg. Jeg hefi undanfarið haft of mikið að gjöra, til þess að geta fylgt málunum eins vel og skyldi. Það hafa líka komið fram svo margar brtt., að það þyrfti skarpan ræðumann til að gjöra skýra grein fyrir þeim öllum.

Áður en jeg minnist á sjálft frumv., ætla jeg að benda háttv. deildarmönnum á það, að vanalega eru afgreidd frá Alþingi fleiri lög, sem hafa fjárútgjöld í för með sjer, heldur en fjárlögin ein, ekki einungis fjáraukalög, heldur og ýms önnur lög. Jeg skal benda á, að það eru þegar samþykt hjer í þinginu ýms slík lög, og auk þess eru enn í smíðum fleiri lög, sem hafa aukin útgjöld í för með sjer.

Jeg skal nú leyfa mjer að nefna nokkur af þessum lögum. Það er þá fyrst landhelgissjóðslögin; þau hækka tillagið úr landssjóði um 15000 kr. Svo eru lögum vjélstjóraskóla í Reykjavík; kostnaðurinn samkvæmt þeim er 1800 kr. Þá er breyting á lögum um stýrimannaskólann með 1000 kr. aukinn kostnað. Sjúkrasamlagslögin með 1400 kr. árlegan kostnað. Auk þess eru þegar samþykt önnur lög, sem hafa samtals að líkindum nál. 5000 kr. útgjöld árlega í för með sjer. Þau lög með aukin útgjöld, sem þegar eru samþykt, hafa því 24,200 kr. árleg útgjöld í för með sjer, eða 48,400 kr. á fjárhagstímabilinu. Nefndin hefir ráðið til, að fella burt úr fjárlagafrumv. þann lið, er snertir Landhelgissjóðinn, 5000 kr. á ári, vegna þess, að þau lög, sem þetta styðst við, ganga úr gildi fyrir nýjum lögum.

Þá vil jeg drepa lauslega á þau lög með aukin útgjöld, sem enn eru óútkljáð í þinginu. Breyting á lögum um Vestmannaeyjahöfn hefir 28 þús. kr. útborgun í för með sjer. Svo eru það lög um fasteignamat, en að svo stöddu er ekki hægt að segja, hversu mikill kostnaður stafar af þeim. Sama er að segja um túnmælingalögin, og enn eru dýralæknalögin, sem sjálfsagt hafa í för með sjer auknar byrðar fyrir landssjóð. Loks má nefna þingsályktunartillögu um lífsábyrgðarfjelag, sem mun kosta 5000 krónur, ef efri deild samþykkir hana líka. Alt þetta hefir kostnað í för með sjer, og hefi jeg bent á þetta til þess að menn athuguðu það við atkvæðagreiðsluna um fjárlögin, að það er á fleira að líta heldur en tekjuhallann í fjárlagafrumv., eins og það lítur nú út. Því að fyrir utan allar þær ráðstafanir, sem stjórninni hafa verið faldar á hendur út af Norðurálfuófriðnum, er sennilegt, að vörukaup landssjóðs hljóti að geta haft mikinn kostnað í för með sjer, auk þess sem þau halda föstu fje landssjóðs.

Jeg skal nú ekki dvelja lengur við þetta, en snúa mjer að sjálfu frumv. Á því hafa orðið óvenjulega miklar breytingar við meðferð Ed. Lækkanirnar, sem Ed. hefir gjört á fjárveitingum frumv., nema 172 þús. kr. Þar af er vegafje 117 þús. kr. og til búnaðarþarfa 39 þús. kr. Það eru stærstu liðirnir, eða samtals 156 þús. kr. af þessum 172 þús. kr. lækkun. En úr þessu hefir ekki orðið sjerlega mikill sparnaður, því að hækkanirnar nema 130 þús. kr. Það eru því að eina 42 þús. kr., sem sparast hafa við meðferð Ed.

Jeg sagði áðan, að frumvarpið hefði orðið fyrir óvenju miklum breytingum í efri deild. Auðvitað hefir efri deild rjett til þess, að gjöra breytingar. En á hitt er að líta, að samkv. stjórnarskránni sjálfri hefir Nd. mest frumkvæði í fjármálunum, því þar er fjárlagafrumv. stjórnarinnar fyrst lagt fram, og fær sína höfuðrannsókn. Til nefndarinnar í Nd. eru send öll erindi viðvíkjandi fjármálum, og þar af leiðandi hefir það jafnan verið svo, að fjárlaganefndartillögurnar í Nd. hafa verið áhrifamestar, og áhrif Nd. yfirleitt eðlilega miklu meiri heldur en Ed. Þetta hygg jeg líka að eigi svo að vera, því að vald og áhrif Ed. í þessu efni á aðallega að vera að draga úr. Það hefir einlægt verið skoðað sem hlutverk Ed. að »kontrollera« eða draga úr því, sem kynni að vera öfgakent hjá Nd. En mjer finst breytingar Ed. að þessu sinni ekki beint fara í þá stefnu. Samvinnan milli nefndanna í Ed. og Nd. hefir þó verið meiri nú en undanfarið, því að efri deilar nefndin hefir frá upphafi fylgst miklu betur með störfum neðri deildar nefndarinnar heldur en nokkru sinni áður. Jeg gjörði mjer því vonir um, að það yrði til þess, að breytingarnar yrðu minni. En raunin hefir orðið alt önnur.

Brtt. fjárlaganefndarinnar eru hjer á tveimur þingskjölum, 851 og 863. Það er hætt við að menn hafi ekki virt þær nákvæmlega fyrir sjer, þegar alt hefir gengið svo hratt, þar sem brtt. voru ekki prentaðar fyr en í gærkvöldi og útbýtt í morgun. Þó vona jeg að menn hafi kynt sjer nefndarálitið, því að það er mjög stutt. Ef brtt. nefndarinnar verða samþyktar, hefir það í för með sjer 23 þús. kr. sparnað. Það er leiðinlegt, að þurfa að telja þessar brtt. allar upp, en jeg verð þó að minnast á þær lauslega.

Við 4. gr. vill nefndin setja inn sömu athugasemd og var hjer í deildinni áður, um uppgjöf á hluta af eftirstöðvum símaláns til Búðahrepps, 1500 kr. Jeg get ekki skilið, að þetta sje neitt kappamál fyrir Ed., en nefndin í Nd. er þessu mjög meðmælt. Jeg hefi ekki annað um það að segja heldur en það, sem sagt hefir verið við fyrri umræður fjárlaganna hjer í deildinni.

Þá er athugasemd við 5. gr., um heimild fyrir prestinn á Breiðabólstað til að verja árgjaldi brauðsins til jarðabóta á jörðinni. Þessu hefir verið breytt í Ed. þannig, að hann sje skyldur að gjöra 8 dagsláttur í túni. Þetta þótti okkur ofhart aðgöngu, hvort heldur borið er saman við endurgjaldsrjett leiguliða, samkvæmt gildandi lögum, eða litið á það frá sanngirninnar sjónarmiði. Aftur á móti höfum við viljað reyna að koma til móts við fjárlaganefnd efri deildar og hafa skilyrðið 6 dagsláttur, í stað 5, er áður var í athugasemdinni.

Það er gjörð grein fyrir í nefndarálitinu, um tilfærslu og breyting á skrifstofufje póstmeistara, og fært þar í einn lið, sem efri deild færði undir tvo. Nefndin álítur að vísu þessa skilgreining á milli verkalauna aðstoðarmanna og reglulegs skrifstofukostnaðar ekki ranga, en sýnist rjettara, að stjórnin gjöri hana, þegar hún leggur næst fjárlagafrumv. fyrir þingið. Nefndin hefir ekki heldur getað fallist á að hækka skrifstofukostnaðinn svo mikið, sem Ed. vill vera láta. Nefndin leggur því til, að lækka hann um 1000 krónur hvort árið.

Þá hefir nefndin ekki getað fallist á með háttv. efri deild, að stjórninni sje heimilað að fresta vegagjörðum á flutningabrautum og þjóðvegum. Í nefndarálitinu var gjörð grein fyrir því, að efst af öllu megi draga af fje því, sem ætlað er til vegagjörða, þegar hart er í ári, þar sem það veiti mikla atvinnu. Það væri að brjála atvinnu í landinu, ef gjörðir væru bláþræðir í vegagjörðun um. Það yrði að fækka mjög því fólki, sem stundar árlega vegavinnu.. En svo ef vinna ætti upp síðar það, sem dregist hefir á langinn, yrði að fjölga þeim mun meira mönnum í vegavinnu og kippa þeim frá öðrum atvinnuvegum. Það hefir sýnt sig, að ekki hefir veitt af 300 þús. kr. fjárveitingu til landssjóðsvega á hverju fjárhagstímabili, til þess að koma í framkvæmd á 20 árum því, er vegalögin frá 1907 ákveða af vegalagningum. Þeir, sem eftir vegalagningum bíða, hafa treyst á þetta, og það eru mikil vonbrigði, ef biðin yrði lengri, einkum þeim, sem lengst sitja á hakanum.

Nú er í fjárlagafrumvarpinu ekki veitt nema 270 þús. kr. alls til vegamála, og þar af fara yfir 60 þús. kr. til sýsluvega. Með öðrum orðum: Til landssjóðsvega er ekki ætlað, með launum landsverkfræðings og aðstoðarmanna hans, nema liðug 200 þús. kr. Úr þessari lækkun vill nefndin draga með því, að taka aftur upp í fjárlögin Grímsnesbraut, hækka sýsluvegi, þó eigi eins mikið og samþykt var að veita, og í þriðja lagi að taka upp fjárveitingu til Gljúfurárvegarins í Norðurárdal. Enn fremur leggur nefndin það til, að í stað athugasemdar um heimild til að fresta framkvæmdum á Húnvetningabraut, sje sett heimild til stjórnarinnar, að fresta meira eða minna eftir atvikum brúargjörðum. Gjörir nefndin þetta samkvæmt brjefi, er henni barst frá landserkfræðingi Jóni Þorlákssyni. Í því brjefi, sem er prentað sem fylgiskjal með nefndarálitinu, lætur hann þess getið, að heppilegt muni verða að fresta brúargjörðum sökum verðhækkunar á útlendu efni, er til slíkra mannvirkja fara.

Háttv. Ed. hefir hækkað fjárveitingu til símastöðvar í Vestmannaeyjum um 600 kr. Nefndin hefir ekki komið fram með brtt. um að fella þessa hækkun burtu, en hún fer fram á að athugasemdin sje feld burtu. Þingið hefir sem sje ekki fallist á að veita nándar nærri alt það fje, er landssímastjóri hefir farið fram á til reksturskostnaðar, og lítið fram yfir það, er stóð í stjórnarfrumvarpinu. Fyrir því finst nefndinni óviðkunnanlegt af fjárveitingarvaldinu, að láta þessari hækkun fylgja ráðstöfun, sem ekki á sjer stað í neinum sams konar lið í símakostnaðinum, þar sem annarstaðar gæti verið alveg eins brýn nauðsyn á aukinni fjárveitingu.

Þá vill nefndin fella burtu viðaukatillögu um þokulúður á Dalatanga. Nefndin hefir viljað spara fjárveitingar til vita, vegna þess, að efni er nú dýrt, er til þeirra þarf, og hefir því síður getað fallist á, að veitt væri meira í því skyni en gjört var í stjórnarfrumv.

Þá kem jeg að 14. gr. B. I. a. Nefndin vill halda fast við það, er Nd. samþykti um persónulega launahækkun handa Sigurði docent Sivertsen. Hlenni virðast ástæður háttv. Ed. á móti þessu ekki hafa við rök að styðjast, sem sje, að þá sje sama ástæða fyrir hendi, ef þessi launahækkun er veitt, að hækka laun annara dócenta við Háskólann. En þetta er ekki rjett, því að það er vitanlegt, að hinir dócentarnir eiga miklu hægara að vinna sjer inn fje fyrir utan embættisstarf sitt. Nefndin heldur því eindregið fram, að laun Sigurðar Sivertsen verði hækkuð.

Nefndin hefir ekki heldur getað fallist á B.-lið I. b. 1. í 14. gr., 2800 kr. til kenslu í líffærafræði og sóttkveikjufræði. Frumvarp um þetta var felt hjer áður í Nd., og það hefir því sjálfsagt ekki verið ætlun þingsins, að stofna þessa stöðu að þessu sinni.

Þá er það B. I. b. 5. í sömu grein, 1000 kr. styrkur til dr. Alexanders Jóhannessonar, til að halda fyrirlestra í þýskum fræðum. Nefndinni fanst hjer vísir til nýs dócentsembættis í Háskólanum, og hjelt heppilegra, að sá vísir yrði gróðursettur að tilhlutun Háskólaráðsins, en nefndin veit ekki til að það hafi gjört neitt í því skyni. Enn fremur hefir nefndin heyrt, að þýskur maður hafi í raun og veru þetta hlutverk á hendi, en sje nú fjarverandi, vegna vegna stríðsins og í haldi í Englandi; en að stríðinu loknu er ekkert vísara en að hann komi aftur og taki þá við starfi sínu. Af þessum ástæðum vill nefndin fella þessa fjárveitingu burtu.

Viðvíkjandi Mentaskólanum hefir nefndin komið fram með brtt. um að fella burt úr athugasemdinni við þann lið orðin: »Námsstyrkurinn lækki.... ganga inn í skólann«. Námsstyrkurinn lækkar í raun og veru eftir frumv. um 500 kr. síðara árið. Nefndinni fanst óviturlegt að fara að ákveða um fjárveitingar á næstu fjárhagatímabilum. En hins vegar hefir nefndin ekki lagt til, að styrkurinn yrði færður í samt lag, þó að hún fyrir sitt leyti hafi ætlast til að ekki yrði honum haggað. En nú hefir komið fram brtt. viðvíkjandi þessum lið, og mun jeg skýra afstöðu mína til hennar, er þar að kemur.

Þá hefir nefndin gjört örlitla orðabreytingu við bændaskólana á Hólum og Hvanneyri, að við B. VI. 1. d. 1. og B. VI. 2. d. 1. bætist orðin: alt að, þar sem talað er um fje það, sem ætlað er til verklega náms.

Sömuleiðis hefir nefndin gjört orðabreytingu við athugasemdina um kvöldskóla iðnaðarmanna á Akureyri, Ísafirði og Seyðisfirði. Hún er á þá leið, að orðin: »Styrkveitingar . . . . eigi iðnnemar« falli burtu. Nefndin leit svo á, að þegar þetta fje var veitt, þá hafi það verið gjört til þess að koma á, þó í smáum stíl væri, sams konar kenslu og í Reykjavík, kvöldkenslu fyrir iðnnema. Af þessari ástæðu kom nefndin með þá tillögu, að fella orðin burt.

Okkur fanst upphaflega tilganginum spilt, ef kenslan væri ekki takmörkuð við iðnnema, og það gæti orðið til þess, að kvöldskólar risu upp hjer og þar, í þeirri von, að landssjóður styrkti þá.

Það er í raun og veru af sömu ástæðu, að meiri hluti nefndarinnar hefir á móti styrkveitingu til Hólmfríðar Árnadóttur til kvöldakólahalds í Reykjavík. Það er ekki af því, að skólinn kunni ekki að vera góður, en, sem sagt, væri það nokkuð breiður vegur, sem landssjóður færi út á, ef fara ætti að veita fje til hvers konar skólahalds í landinu, sem væri þarft og kæmi að gagni.

Háttv. Ed. hefir felt utanfararstyrk til Björns Jakobssonar. Jeg þarf ekki að taka aftur fram, hvað mælir með þessari styrkveitingu. En jeg vil benda á það, að íþróttanám og áhugi fyrir íþróttum er að aukast í landinu, og er því ekki ónauðsynlegt að styrkja þann manninn, sem er einna best fallinn hjer á landi til að kynna sjer nýjar tegundir íþrótta, og til að kenna þær og hvers konar aðrar greinir íþrótta. Nefndin heldur því fast við þá fjárveitingu í þessu skyni, er samþykt var hjer í Nd.

Þá er næst viðvíkjandi Þjóðmenjasafninu í 15. gr., sem nefndin vill gjöra breytingu. Nefndinni hefir borist erindi nýlega frá þjóðmenjaverði, um að aðstoðarfjeð yrði hækkað um 200 kr. í því skyni, að hann taki að sjer málverkasafn landsins hjer í Reykjavík, raði því, semji skrá yfir það og sýni það. Til þessa þarf 200 kr. hækkun, og vill nefndin að þetta fje sje veitt, af því að hjer er þarft verk um að ræða.

Þá er næst í sömu grein við 3. d. að gefa út skýrslur um safnið frá 1876. Til þess eru veittar 300 kr. Nú er ekki hægt að fá þessar skýrslur prentaðar; þess vegna er farið fram á að fjárveitingin haldi áfram, og gangi þá til þess að semja skýrslurnar. En þá væri líka rjett að setja í stað orðanna það gefa út«: að semja.

Þá hefir háttv. efri deild sett inn í frumvarpið 2000 kr. fjárveitingu til aðgjörða á Þingvöllum, sem feld var hjer í neðri deild. Nefndin heldur enn fram að fella þetta, því að það vantar áætlun alla um, hversu mikið fje þurfi og hvernig aðgjörðinni eigi að haga. Áður en aðgjörðin geti komið til mála þurfi líka að breyta veginum yfir vellina, svo að fjeð fari ekki til þess. Meiri hluti nefndarinnar er því á móti þessari fjárveitingu.

Þá hefir háttv. efri deild samþykt að veita 500 kr. til bókasafnsins á Seyðisfirði, til þess að kaupa gamlar bækur. Nefndin getur ekki fallist á þetta; ekki af því, að eigi sje hægt að kaupa gaml- ar, nýtar bækur fyrir 500 kr., en hún álítur þetta athugavert af því, að þá geti risið upp mörg fleiri bókasöfn og gjört sömu kröfu, og það með jafnmiklum rjetti.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til, að styrkurinn til skálda og listamanna hækki upp í það sama og samþykt var hjer í neðri deild, en efri deild hefir lækkað. En sjerstaklega er þetta gjört vegna athugasemdarinnar, er samþykt var hjer í neðri deild, um nefnd manna, er rjeði þessum styrk með stjórninni. Með 9 þús. króna upphæð á ári hefir slík nefnd svo sem úr engu að moða, af því að ganga má að því vísu, að ekki verði kipt burtu styrkjum þeim, sem að undanförnu hafa verið veittir, heldur farið að tillögum fjárlaganefndar upphaflega.

Nefndin hefir komið fram með breytingartillögu um að lækka styrkinn til Hjartar Þorsteinssonar úr 1000 krónum niður í 800 kr., eins og Steingrímur Jónsson fær. En síðan hefir hún fengið upplýsingar um, að Hjörtur á eftir lengra nám en Steingrímur, og gjörir hún því þessa breytingartillögu ekki að kappamáli.

Þá leggur nefndin til, að styrkurinn til Ragnars Lundborg, til að gjöra Ísland kunnugt erlendis; er samþyktur var við 3. umræðu fjárlaganna í efri deild, falli burtu. Þessi fjárveiting kom eins og skollinn úr sauðarleggnum. Það hefir víst þótt þýðingarmikið að fá þenna kunna og mikla mann til þessa, en jeg verð samt engu síður að líta svo á, að þetta hafi verið gjört af fljótfærni.

Meiri hlutinn getur ekki sjeð, að nú sje heppilegur tími til þess, að ráða útlendinga til þessa starfs, og ekki heldur, að þessi maður sje svo sjerstaklega ómissandi til þess, að ekki ætti að vera hægt að gefa út bók á einni eða tveimur tungum, sem kynt gæti landið fullsæmilega, og samin væri af Íslendingum einum. Það eru til hjer færir menn til þess að lýsa landinu, bæði í andlegum og efnalegum skilningi. Ef t. d. ætti að lýsa jarðfræði landsins og landafræði, loftslagi, atvinnuvegum og þjóðarháttum, þá mætti benda á prófessor Þorvald Thoroddsen, sem er svo merkur vísindamaður og frægari rithöfundur en Ragnar Lundborg, sem allir vita.

Jeg skal svo ekki fara meira út í þessa breytingartill. að sinni. Jeg gjöri ráð fyrir, að mælt verði með henni síðar til skýringar, því að enn sem komið er, er nefndinni ekki kunnugt um það, hvað með þetta á að gjöra, nema hvað þarna stendur, að þetta sje til þess að gjöra Ísland kunnugt út á við, en það má gjöra á svo margan hátt.

Þá er 38.l. á atkv.skrá., styrkur til Finns Jónssonar á Kjörseyri, til að safna sögulegum fróðleik. Nefndin getur nú ekki talið það heppilegt, að safna mörgum mönnum í fjárlögin með árlegum styrk í slíku skyni. Það er nú sem stendur einn alþýðumaður með hann, Sighvatur Grímsson, og verður líklega meðan hann tórir, og virðist svo, sem við það ætti að mega hlíta. En hins vegar á hjer merkur maður í hlut, og hefir því nefndin eigi viljað synja honum viðurkenningar og ljettis, til þess að geta, framkvæmt meira í þessa átt en hann hefir getað hingað til í hjáverkum sínum, og hefir því ekki viljað neita honum um styrk, en vill sameina hann á fyrra árið, til þess að það komi fram, að ekki væri ætlast til þess, að þar yrði framhald á. Jeg fyrir mitt leyti gæti nú líka trúað því um jafnmerkan bónda og þann, er hjer á hlut að máli, að hann kynni ekkert sjerlega vel við það, að vera festur hjer á bitlingalista þingsins.

43. liður atkv.skrár er um styrk til að gefa út kenslubók í hraðritun. Það er nú ekki svo að skilja, að nefndin hafi neitt á móti þessum manni, sem þar er um að ræða, nje kerfi hans, en af því að henni þótti rjett, að stjórnin hefði frjálsar höndur, ef henni litist eitthvert annað kerfi heppilegra, þá leggur hún til, að þessi styrkur sje ekki bundinn við nafn.

Þá kem jeg að 16. gr. Þar hefir nú fyrst verið feldur burtu styrkurinn til Miklavatnsáveitunnar. Það er ekki gott að mæla með þessari fjárveitingu nú, þar sem nefndin hjer hefir áður látið í ljós nokkurn beyg við hana. En hann kom til af því, að aðalskurðurinn, sem átti að taka við vatninu úr Þjórsá, reyndist ekki góður. En nú stendur svo á, að búið er að leggja í þetta fyrirtæki 20,000 kr. af hálfu jarðanna, sem þar standa að, og ef nú er hætt við það, þá verður gagnið af því ekki teljandi, en jarðirnar hins vegar illa staddar, að þurfa að greiða vexti og afborganir af þessu fje, og er því viðurhlutamikið að leggja árar í bát, þar sem alls ekki er vonlaust um, að takaat megi að ná vatninu þrátt fyrir þetta, og því leggur nefndin til að veittar verði 13 þús. kr. í þessu skyni, með athugasemd, sem á að fyrirbyggja það, að þetta fje verði lagt í neina hættu. Það á sem sje ekki að vera neinn vandi, þegar búið er að mæla vatnsstöðuna í ánni í 3–4 ár, að vita þá hvað skurðurinn þarf að vera, til þess að geta fleytt svo og svo miklu vatni, svo að hægt sje að segja um það fyrir fram, hvort áveitan muni koma að gagni, og athugasemdin gengur út á það, að ef svo er ekki, þá skuli stjórninni ekki vera heimilt að greiða fjeð.

Háttv. Ed. hefir lækkað fjeð til sandgræðslunnar. Okkur þótti þar of langt gengið, en til þess að ekki verði stríð úr þessu, þá höfum við farið bil beggja, og væntum því að sætst verði á það mál.

Þá er fjárveitingin í 21. lið 16. gr., til að reyna að koma á sútun skinna á Norðurlandi, 200 kr. — Okkur er óljóst hvernig menn hugsa sjer að koma á sútun skinna fyrir 200 kr., og viljum að þingið sje ekkert að sletta sjer fram í það mál.

Þar sem háttv. Ed. hefir lækkað styrkinn til ungmennafjelaganna úr 2500 niður í 1500 kr., þá vill nefndin fara bil beggja og leggur til að hann verði 2 þús. kr.

Enn hefir háttv. Ed tekið einn styrk, sem var í 18. gr., til Eggerts Brandssonar, og fært hann yfir í 16. gr. Nefndin hefir ekkert á móti því, að flytja styrkinn yfir í 16. gr., en finst að þá hefði átt að láta hann vera dálítið hressilegri en þetta, og leggur því til, að hann sje hækkaður upp í 500 kr. Þá er 29. liður 16. gr., sem við leggjum til að falli burt, styrkurinn til kolanámurannsókna. Það er enginn meiningamunur í nefndinni um það, að þetta mál sje þarflegt, en þegar svo er varið, að klípa þarf, jafnvel af fjárveitingum til vega og annars, sem er viðlíka bráðnauðsynlegt, þá ætti ekki að ráðast í það, sem talsvert er óvíst, hvort kemur að verulegu haldi. Við vitum ekki hvað slík rannsókn myndi kosta, t. d. hvað hæfur námufræðingur erlendur myndi setja upp, hvað nægilega stór nafar til að bora í námu kostaði með tilheyrandi tækjum o. s. frv. Þess vegna viljum við, að stjórnin útvegi upplýsingar og áætlanir um slíkt, og komum fram með sjerstaka þingsályktunartillögu um að undirbúa það fyrir næsta þing. svo að þetta er ekki annað en frestur, þangað til við getum vitað um kostnaðinn, svo að nokkuð sje verulega að marka. Þá er vatnsveitan í Vestmannaeyjum. Það mál kom nú nokkuð að, óvörum, en hins vegar er það alkunna, að vatnsleysi er svo mikið í Vestmannaeyjum, með öllum þeim fólksfjölda, sem þar er, að til vandræða horfir. Og það er langt frá því, að meiri hlutinn vilji spilla fyrir því, að úr því verði bætt, en á hinn bóginn finst honum, að Vestmannaeyjar með öllum þeim afla og öðrum gæðum, sem þar er að fá, ættu að geta lagt eitthvað til rannsóknarinnar, og þá 2000 kr. á móti 3000 kr. En ef þessi 5000 hrökkva ekki, þá væri það annað, að þetta stæði með þeirri athugasemd, að það, sem þá vantar á, skuli koma frá eyjarskeggjum sjálfum. Það er samræmisins vegna við aðrar fjárveitingar, að nefndin leggur þetta til, enda verður það ekki sagt, að illa sje farið með Vestmannaeyjar, nú á þessum harðindatímum, þar sem annað eins er lagt til að bæta þar höfnina, og gjört er.

Viðvíkjandi brtt. nefndarinnar við 19. gr., um að hækka áætlunina til óvísara útgjalda upp í 30 þús. kr., skal jeg taka það fram, að hún hafði þar ekki í huga neinar fastákveðnar tölur, sem koma kunni á þann lið, því að það geta orðið fleiri eða færri tugir þúsunda eftir atvikum, heldur er þetta gjört af því, að ýmislegt þykir benda til þess, að þessi útgjöld verði nú með meira móti.

Seinasti liðurinn er um það, að fella burtu lán til raflýsingar á Ísafirði. Jeg get nú sagt það fyrir mig, að jeg legg þetta ekki til af því, að jeg sje á móti því, ef peningar væru til. Jeg hefi bent á það, bæði í nefndinni og hjer í deildinni, að það væri eitt af hlutverkum þingsins, að hjálpa kaupstöðunum og kauptúnum til slíkra framkvæmda. En nú hefir háttv. Ed. felt burtu lánveitingu til Skeiðaáveitunnar, sem nefndin álítur fult eins nauðsynlegt fyrirtæki og þetta, og kann hún þá ekki við, að sú lánsheimild sje þannig tekin burt, að eins til þess, að setja þessa þar inn í staðinn, því að þá er auðsjeð að þetta er ekki gjört af fjárhagsástæðum, og vill nefndin því, að sama gangi yfir hvorttveggja. Nú liggur hjer fyrir till. um það, að lánsheimildin til Skeiðaáveitunnar sje tekin upp aftur, og verði hún samþykt, þá mun nefndin ekki heldur hafa á móti hinni lánsheimildinni. Það tekur hvort sem er aldrei til þessa, nema fje verði fyrir höndum.

Jeg er nú búinn að tala lengi, en jeg þóttist neyddur til þess, og bið háttv. deild að virða á hægra veg.