28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Guðmundur Eggerz:

Jeg bjóst nú raunar við því, að fleiri ættu eftir að taka til máls og að röðin væri ekki komin að mjer.

Jeg ætla þá að leyfa mjer að byrja á að tala um brtt. á þgskj. 882, það er við 15. gr. 23. Það er þessi bitlingur til Dr. Guðmundar Finnbogasonar. Eins og menn sjá, þá á þetta bitlingagrey mjög erfitt uppdráttar, og eins og háttv. deild veit, þá samþykti hún þenna bitling til doktorsins, til að endurbæta vinnubrögð í landinu. Jeg hefi áður sýnt fram á það, að það væri ekki nauðsynlegt, heldur miklu fremur hlægilegt að senda Dr. Guðmund út um alt land til að bæta vinnubrögð, sem hann vitanlega kann ekkert í. Nú hefir háttv. Ed. breytt því í sálarfræðislegar rannsóknir. Jeg játa, að umsækjandinn er heimapekingur og efast því ekki um, að hann geti dótað við það alveg eins og hver annar, auk þess, sem ganga má út frá því, að þetta fyrirkomulag gefi af sjer prófessorsstöðu við Háskólann svona með tímanum. Brtt. frá mjer fer í þá átt, að fella þessa fjárveitingu. Það er ekki heldur nema vonlegt og eðlilegt, að margir þingmenn verði til að fella þessa fjárveitingu, eins og hún nú kemur frá Ed. Tillagan í máli þessu frá háttv. 1. þm. Hún. (G. H.) er dálítið skrítin, enda komin fram vegna þess, að hann og fleiri eru hræddir um að fjárveitingin strandi ella.

Þess vegna er jeg hræddur um, að mennirnir hafi sent háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) út af örkinni með brtt. á þgskj. 888, sem fer fram á það, að í stað orðanna »til sálarfræðislegra rannsókna« komi: til tilrauna að bæta vinnubrögð. Jeg mun greiða atkvæði á móti þessari tillögu. Hún er að eins fram komin til þess að veiða menn með aðaltillögunni, 6000 kr. bitlingnum. Það er augsýnilegt, að fjárlaganefndin gjörir ráð fyrir því, að þessi styrkur nái fram að ganga hjer í deildinni. Það sjest meðal annars á því, að hún hefir lagt til að lækka laun aðstoðarbókavarðar við Landsbókasafnið úr 1800 kr. ofan í 1500 kr. Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um þenna lið.

Þá á jeg brtt. við 13. gr. B. IX. á þgskj. 876 um að fella fjárveitinguna til Hamarsárbrúar í burtu. Jeg sje nú að fjárlaganefndin hefir tekið þessa till. upp, og þarf jeg því ekki að tala meira um hana.

Þá er næst brtt. við 14. gr. B. X. 5 á þgskj. 878. Ed. hefir sett þar inn nýjan lið, 1000 kr. styrkveitingu til að gefa út yfirsetukvennafræði. Jeg hefi engin rök sjeð fyrir því, að þessi styrkur sje nauðsynlegur, og get því ekki ljeð honum atkvæði mitt. Annars þykir mjer efri deild hafa gjört alt of margar breytingar á frumv. eins og það fór hjeðan úr deildinni, og þessi finst mjer með öllu óþörf.

Eins og menn sjá, miða allar brtt. mínar í þá átt, að minka útgjöld landssjóðs. Svo er t. d. um brtt. við 15. gr. 9 á þgskj. 881, um að fella burtu 500 kr. fjárveitingu til bókasafnsins á Seyðisfirði, til þess að kaupa gamlar bækur. Jeg þekki þetta safn og hefi fengið þar bækur, en það voru alt gamlar bækur. Hefði verið lagt til að kaupa nýjar bækur, þá hefði jeg haft ástæðu til að vera með fjárveitingu þessari.

Enn á jeg brtt. við 15. gr. 2. f. um, að lækka fjárveitinguna til afskrifta og ljósmyndunar fyrir Landsskjalasafnið. Í Nd. voru veittar 1000 kr., til þessa, og það álít jeg nægilegt, og vil því spara landinu 1000 kr. á fjárhagstímabilinu.

Jeg sje nú, að ýmsir fleiri hafa gjört sömu brtt. og jeg, þar á meðal háttv. 2. Rang. (E. P.) og fjárlaganefndin, en það var mjer ekki kunnugt, þegar jeg bjó til mínar tillögur í gær, og skal því hjer staðar númið.