28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra:

Í þetta sinn ætla jeg að eins að minnast á brtt. þær, sem frá mjer eru runnar, en geymi mjer rjett til þess að minnast á aðrar brtt. síðar, ef mjer sýnist svo.

Á þgskj. 842 á jeg brtt. við 11. gr. B. 11. (sem misprentast hefir á brtt., svo að þar stendur 11. gr. 11). Jeg sje að háttv. Dal. (B. J.) hefir flutt fram sams konar brtt., sem að vísu er 6 kr. hærri. Gjöri jeg því ráð fyrir því, að annarhvor okkar verði til að taka brtt. um þetta aftur. Þinginu blandast víst ekki hugur um það, að nauðsyn beri til þess, að hverju sýslumannsembætti fylgi járnskápur Stjórnin hafði í fjárlagafrumv. sínu lagt til, að bæta við skápum handa nokkrum sýslum og fjárlaganefndin hefir bætt nokkrum við. Nú hefir mjer verið sagt, að slíkan peningaskáp vanti í Dalasýslu. Sams konar vitneskju mun háttv. þm. þess kjördæmis (B. J.) og hafa. fengið, og þannig hefir atvikast, að við höfum óafvitandi hvor af öðrum flutt sömu brtt.

Á þgskj. 845 flyt jeg brtt. við 15. gr. 3. a, um 600 kr. árlega launaviðbót til núverandi þjóðmenjavarðar. Jeg er þakklátur háttv. fjárlaganefnd eða meiri hluta hennar fyrir undirtektir hennar undir þessa brtt. Þjóðmenjavörðurinn hefir gegnt þessu starfi frá 1906, þótt ekki fengi hann veitingu fyrir starfinu fyrr en 1. júlí 1908; hafði hann í fyrstu 30 kr. um mánuðinn að launum, uns hann tók við stöðu sinni, er stofnuð var samkvæmt fornmenjalögunum 1907, og hefir síðan haft 1800 kr. um árið. Það er þjóðkunnugt, að með rjettu má segja um þennan mann, að hann er rjettur maður á rjettum stað, og er óhætt um það, að enginn af fyrirrennur um hans hefir staðið betur í þessari stöðu en hann; hefir hann skipað safninu vel niður, aukið það stórum, og sömuleiðis hefir aðsókn að safninu mjög aukist síðan hann kom að því, sem sjá má af skýrslu þeirri, er út kom um safnið í fyrra. .

Á þgskj. 843 flyt jeg brtt. við 15. gr. 20, um að athugasemdin falli burtu. Jeg fæ ekki sjeð, að nefnd sú, sem ætlað er að úthluta þessum styrk, styrknum til rithöfunda og. listamanna, fái nokkuð að gjöra næsta fjárhagstímabil, með því að þingið hefir í raun rjettri ráðstafað þessum fjárhæðum að mestu leyti, því að ekki gjöri jeg ráð fyrir því, að ætlast sje til, að tekinn verði styrkurinn af þeim, sem hafa haft hann lengi, nje að hann verði minkaður. Ef háttv. þm. V.-Sk. (S. E.), sem mun hafa verið upphafsmaður þessarar nefndar, vildi endilega hafa einhverja nefnd til aðstoðar stjórninni nú og síðar, þá býst jeg við að hann gæti fundið einhverja heppilegri leið en þessa. Það er athugandi; að landstjórnin eða þingið getur ekki boðið stjórn Bókmentafjelagsins eða stjórn Stúdentafjelagsins að velja menn í þessa nefnd; til þess hefir landstjórnin ekkert vald yfir þessum fjelögum. Ef til vill er öðru máli að gegna um háskólaráðið, því að þar er þó um opinbera stofnun að ræða. Auðvitað væri það stjórninni þægilegt, að geta kastað siðferðislegri ábyrgð yfir á þessa nefnd. En hvernig færi, ef stjórnin yrði ósammála nefndinni? Ef t. d. nefndin vildi taka styrk af þeim, sem lengi hafa haft hann? Enda er svo, eins og jeg tók fram áðan, að ekkert verkefni liggur fyrir þessari nefnd á næsta fjárhagstímabili. Þá á jeg breytingartillögu á þgskj. 844 við 16. gr. 4. b, um lítils háttar launaviðbót handa Einari Sæmundsen skógverði. Hann mun hafa sótt um þessa launahækkun til nefndarinnar, og haft til þess meðmæli yfirboðara síns. Hjer á í hlut maður gáfaður, sem unnið mun hafa verk sitt óaðfinnanlega. Hann er að því leyti verr settur en aðrir skógarverðir, að hann hefir ekki bú, og getur því eigi notið þeirrar framleiðslu, er þar af rennur.

Þá er við 21. gr. brtt. frá mjer og háttv. samþingismanni mínum (S. S.) á þgskj. 823, um að koma aftur inn á fjárlögin lánaheimild til Skeiðaáveitunnar. Meiri hluti fjárlaganefndarinnar, eða, ef til vill öll nefndin, hefir tjáð sig samþykka þessari brtt., enda var hún samþykt hjer í deildinni, með afar miklum atkvæðamun. Fjárlaganefndin í Ed. lagði í fyrstu til, að fella niður þennan lið, og varð það úr, en sá sig síðar um hönd, og bar upp tillöguna aftur með 1000 króna lækkun, en þá úrskurðaði forseti deildarinnar, að till. mætti ekki bera upp aftur, með því að efni hennar hefði verið felt áður. Má því telja, að það hafi verið slysni, að lánsheimildin komst ekki í gegn um Ed. Þessi liður er mönnum kunnur, og þarf jeg því ekki að fjölyrða um hann nú, en vona, að deildin láti ekki tillöguna gjalda þeirrar óhepni, er hún varð fyrir í Ed.