28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Guðmundur Eggerz:

Heimspekingurinn úr Dalasýslu, maðurinn með tólfkóngavitið, beindi síðast orðum til mín. Jeg skal geyma það fyrst að svara honum, en vil minnast örfáum orðum á þokulúðurinn á Dalatanga, áður en jeg kem að hinum.

Háttv. Ed. hefir tekið fjárveitingu í þessu skyni upp í frumvarpið, og nemur hún 14. þús. kr. Jeg er nú þeirrar skoðunar, að þessi þokulúður eigi ekki að vera á Dalatanga, heldur á Seley. En jeg hefi samt ekki treyst mjer til að fara fram á fjárveitingu til þessa, af því að mjer hefir verið sagt, að það kostaði um 30 þús. kr. að koma þessu í kring, auk reksturkostnaðar. En reksturskostnaðurinn yrði meiri á Seley en á Dalatanga, af því að eyjan er óbygð. En þó að mjer líki staðurinn, er valinn hefir verið, ekki alls kostar, þá get jeg þó gefið þessu mín bestu meðmæli. Vakir það því fyrir mjer jafnframt, ef þessi þokulúður reynist vel, að slíkt hið sama verði tekið upp á þokusvæðunum fyrir austan.

Jeg hefi komið fram með breytingartillögur um að fella niður nokkra liði úr fjárlagafrumvarpinu. Fyrsta till. er um það, að fella niður 1000 kr. til að semja yfirsetukvennafræði. Jeg vænti þess, að háttv. framsögum. (P. J.) sannfærði mig um, hve mikil nauðsyn væri á þessu, en hann sagði það að eins, án þess að færa rök fyrir því, að svo væri. Jeg skora því á hann, að upplýsa þetta betur.

Samkvæmt lögum nr. 15, 22. okt. 1912, um yfirsetukvennaskóla, þá var landlækni veitt 1000 kr. launaviðbót, til þess að hafa á hendi kenslu í þessari grein, til þess að trygging fengist fyrir því, að yfirsetukonur gætu leyst starf sitt sem allra best af hendi. En þá var ekkert á það minst, að gefa ætti út yfirsetukvennafræði. Það er fyrst nú, að þessi fluga hefir komist á kreik þar í háttv. Ed.

Þetta virðist mjer vera sjerstaklega óþarft, þar sem prófessorar við lagadeild Háskólans, er skrifað hafa feiknin öll af kenslubókum í sinni grein, fá nálega ekkert fje til þess.

Jeg skal ekki vera eins langorður og háttv. þm. Dal. (B. J.), og skal jeg því hlaupa á breytingartillögunum.

Jeg hefi gjört tillögu um að fella 5 þús kr. fjárveitingu til að rannsaka vatnsveitu í Vestmannaeyjum. Það er víðar erfitt en þar að ná í vatn, t. d. í Stykkishólmi. Þar verður að sækja vatn svo langan veg, að það er tveggja klukkutíma reið, og þó er ekki farið fram á neina hjálp til að bæta úr þessu. Auk þess telja margir alveg þýðingarlaust að leita að vatni í Vestmannaeyjum. Það hvað vera eins ilt að finna þar vatn, eins og speki í kollinum á háttv. þm. Dal. (B. J.).

Þá ætla jeg að eins að minnast á brtt. við eina fjárveitingu, sem sje styrkinn til dr. Guðmundar Finnbogasonar. Auðvitað býst jeg við, að menn sjeu orðnir hundleiðir á umræðunum um hann, enda verður það í síðasta sinni, sem jeg minnist á hann, því að jeg er nú bráðum dauður. (Bjarni Jónsson: Guð gefi lofaður!). Mjer þótti það kynlegt, sem háttv. framsögum fjárlaganefndar (P. J.) sagði um þann styrk. Það er aðgætandi, að hjer í Nd. var hann ætlaður til þess að gjöra rannsóknir og tilraunir til endurbæta á vinnubrögðum, en háttv. Ed. veitir hann til sálarfræðislegra rannsókna. Mjer skilst ekki samræmið í þessu, og jeg hygg, að það muni vera fleiri en jeg, sem álíti það vera nokkuð annað, að rannsaka sálir mannanna, en að bæta vinnubrögð þeirra. Og þótt háttv. framsögumaður haldi því fram, að það sje meiningin, ef maðurinn fái þennan styrk, þá ætli hann að verja honum til að endurbæta vinnubrögð manna, og hafi lofað því, þá sje það beinlínis í bága við fjárlögin, eins og þau koma frá Ed. Því að ef Alþingi hefir samþykt að veita t. d. 6000 kr. til einhvers vegar, þá er alls ekki heimilt að taka þær til þess að bæta t. d. sál háttv. þm. Dal. (B. J), og sama er, þótt dæminu sje snúið við.