29.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra:

Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) hefir andmælt brtt. minni á þgskj. 843. Jeg þarf ekki að svara honum í löngu máli; hann kannaðist við aðalástæðu mína, að það væri rjett, að Alþingi gæti ekki skipað Bókmenta- eða Stúdentafjelaginu að tilnefna menn, til þess að gjöra tillögur um úthlutun styrksins. Hann þarf ekki heldur að óttast það, að stjórnin geti ekki útnefnt mennina af jafn skynsamlegu viti, því að auðvitað er henni innan handar, að leita sjer aðstoðar hæfra manna í þessu efni. Annars skal jeg geta þess, að það er ekki jeg, heldur fyrverandi ráðherra (S. E.), sem hefir undirbúið fjárlagafrumv. og tekið upp þá stefnu, að láta stjórnina úthluta þessum styrk. Honum hefir þó láðst að taka upp þessa athugasemd. Það getur verið, að þetta hafi gleymst honum, en þó er það harla ólíklegt. Vitanlega hefir hann leyfi til að komast til æðri þekkingar. Honum virðist það kann ske varhugavert nú, að leggja þetta vald í hendur stjórnarinnar, þótt honum hafi ekki sýnst svo áður í vetur. Jeg er honum sammála um það, að það er ástæðulaust að fara lengra í því, að leggja svona vald í hendur stjórnarinnar en nauðsynlegt er. En því er nú svo farið, að stjórnin verður að framkvæma marga hluti, sem fjárveitingu þarf til. Alþingi getur ekki tekið fram öll hugsanleg skilyrði og sundurliðanir.

Þá er tillaga um það að fella burtu að veita vissa upphæð í fjárlögunum til þess að kosta líffærameinfræðing við Háskólann. Ed. hefir litið rjettar á þetta mál en Nd., og vænti jeg þess, að háttv. Nd. lofi þessu nú að standa, því að jeg er sannfærður um að þetta er bráðnauðsynlegt, sjerstaklega þar sem Nd., er ekki hefir þótt of ríf í fjárveitingum, hefir sýnt það í öðrum málum, t. d. í fjárveitingu til hagnýtrar sálarfræði, að hún kann að meta andlega starfsemi. Enn fremur hafa báðardeildir samþykt að veita fje til gerlarannsókna við Búnaðarfjelag Íslands, sem ekkert kemur víð fjárveitingu þeirri, er hjer ræðir um. Jeg ætla, að þeir menn, sem best allra hjer á þingi hafa vit á þessu, þeir háttv. Í. þm. Húnv. (G. H ) 5. kgk. þm. (G. B.), hafi báðir mælt með fjárveitingunni og sýnt fram á það, að minsta kosti annar þeirra, háttv. 5. kgk.

þm. (G. B.), að gerlarannsóknir Búnaðarfjelaga Íslanda eiga ekkert skylt hjer við.

Út af styrkveitingu til Ragnars Lundborg, til að gjöra Ísland kunnugt erlendis, beindi háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) fyrirspurn til mín um það, hver væri afstaða mín til þess máls. Jeg get svarað því, að jeg þekki þennan mann af afspurn og hefi lesið það, sem hann hefir skrifað um íslensk efni, þótt ekki þekki jeg hann persónulega. Dylst jeg ekki við það, að þetta er mætur maður og hefir komið vel fram í garð vorn Íslendinga, svo að hann er alls sóma verður af vorri hálfu.

Jeg hefi nú heyrt, hvað háttv. þm. N. Ísf. (Sk. Th.) hugsar sjer að gjört sje með þessari fjárveitingu, og eftir því, sem honum fórust orð, virðist mjer sem fjárveitingin muni ekki alveg varhugalaus. Þótt þessi háttv. þingmaður sje einn í flokki, þá skildist mjer svo, að hann talaði ekki eingöngu frá, eigin brjósti, heldur og fyrir annarra þingm. hönd. Jeg verð að telja varhugavert, að ráðast í nokkuð það, sem orkað geti tvímælis út á við, og einkanlega eru þessir tímar ekki heppilegir til framkvæmda á því, sem vjer kynnum að vilja gjöra; ef öðruvísi væri ástatt. Það hefir verið vakið máls á þessu áður, í fyrra sumar á þingi, en ekki þótt ráðlegt að sinna því af sömu ástæðum, sem sje að ekki væru hentugir tímar til þess. Þótt mjer því þyki leitt, mannsins vegna, sem jeg tel alla góðs maklegan af vorri hendi, þá get jeg ekki greitt atkvæði með þessari fjárveitingu.

Þá sný jeg mjer að ullarmatinu. Maður sá., sem þetta verk hefir með höndum, hefir tjáð mjer; að það væri með öllu ófullnægjandi, að hafa fjárveitinguna að eins fyrra árið. Hann telur nauðsynlegt að hafa fjárveitingu bæði árin, því að ekki verði á einu ári unt að koma ullarmatslögunum í framkvæmd. Á þessa skoðun hefir fjárlaganefnd Ed. og deildin sjálf fallist, og þykir mjer rjett að skýra deildinni frá þessari skoðun ullarmatamannsins, ef til athugunar mætti verða háttv. fjárlaganefnd.

Þá kem jeg að kolanámurannsóknunum. Hjer liggja fyrir tvær tillögur; önnur um fjárveitingu til rannsókna óákveðið, hin lánsheimild til tiltekins manns. Út af þessum tillögum skal jeg leyfa mjer að bera fram fyrirspurnir til háttv. flutningsmanna. Það má vera, að háttv. 1. þm. Reykv. (S. B.), flutningamaður fyrri tillögunnar, hafi, meðan jeg var ekki viðstaddur, gjört grein fyrir því, sem felst í fyrirspurn minni, en jeg vona, að það afsakist, að jeg. þá verð að biðja háttv. þingmann að ítreka ummæli sín. Fyrirspurn mín til hans er sú, hver annast eigi rannsókn þá, sem fara á fram, samkvæmt tillögu hans. Raunar stendur í tillögunni, að landsstjórnin eigi að hafa hönd í bagga með framkvæmd rannsóknanna. En mig girnir að fá nánari greinagjörð á því, hvar þessar rannsóknir eiga fram að fara, hvar eigi að fá verkfræðing til rannsóknanna, hver eigi námurnar og hvort landssjóður eigi að fá nokkuð í aðra hönd fyrir styrkinn. Þessi fyrirspurn gildir og að nokkru leyti um tillögu háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), en þar að auki er þetta, hverja tryggingu ætlast er til, að lánþegi skuli setja og hvort hjer er um að ræða námur, sem eru eign mannsins, eða hann hefir þær á leigu. Jeg væri þakklátur háttv. þm. N..Ísf. (Sk. Th.) fyrir upplýsingar um þetta, því að þær gætu haft áhrif á það, hverja afstöðu landsstjórnin tekur til heimildarinnar.

Þá vík jeg að lánaheimildinni til myndamótasmiðs Ólafs Jónssonar. Það mun hafa verið bygt á misskilningi hjá háttv. samþingismanni mínum (S. S.), er hann kvaðst vilja tryggja það, að myndamótastofan yrði stofnun, sem ætluð væri til almenningsafnota. Það er næsta ólíklegt, að nokkur maður stofni svo myndamótastofu, að hann hugsi sjer ekki, að hver, sem þurfa þættist, gæti þar fengið myndamót. Hjer er sem sje eingöngu um verksýslan að ræða, starfsemi til að græða á. Segjum t. d., að háttv. samþingismaður minn (S. S.) vildi koma mynd af sjer í blað (Sigurður Sigurðsson: Það vil jeg ekki), eða öllu heldur, að eitthvert blað bæði hann um mynd af honum. Ef hann yrði við því, þá mundi hann fara til myndasmiðs, láta þar taka mynd af sjer, fá hana síðan myndamótamanni, sem gjörði eftir henni clichée, sem svo er kallað, og eftir henni er síðan myndin prentuð í blaðinu. Sá, sem þannig hefir fengið myndamót, leigir oft myndina í hagsmunaskyni til blaða eða bóka. En hlutverk myndamótasmiðsins er það að eina, að búa til mótin og selja þau. Að öðru leyti skal jeg taka það fram, að mjer er ekki kunnugt um, að til sje nokkur maður hjerlendis, sem kunni að móta myndir, annar en þessi eini maður.

Þá eru nokkrir smáliðir, sem jeg kann hvorki fjárlaganefnd nje einstökum þm. þökk fyrir, þeim er fella vilja eða lækka. Jeg á þar fyrst við tillögur um að fella burtu styrk til dr. Alexanders Jóhannessonar til þýskukenslu við Háskólann og til Jakobs Jóhannessonar til samningar á íslenskri setningarfræði. Háttv. Ed. hefir sett báðar þessar fjárveitingar inn í fjárlögin. Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir lýst báðum þessum mönnum, og hefi jeg engu þar við að bæta. Þeir eru báðir mjög efnilegir menn og fullkomlega trúandi til þess, að leysa vel af hendi verk þau, sem þeim eru ætluð. Jeg skal taka það fram sjerstaklega, að nú er enginn, sem heldur uppi fyrirlestrum í Þýsku við Háskólann; sá, sem það átti að gjöra, er nú herfangi. Enn fremur vil jeg benda á það, að ef hann hefði verið hjer kyrr, þá mundi hann hafa fengið líkan styrk, sem ætlaður er hjer Alexander Jóhannessyni, svipað því sem frönskukennarinn fekk, því að ekki mundi hafa þótt rjett að gjöra upp á milli þeirra.

Jeg gat þess við 2. umr. fjárlaganna hjer, að jeg vildi ekki láta færa niður styrkinn til afskrifta og ljósmynda á skjölum í söfnum í Kaupmannahöfn. Jeg er enn sömu skoðunar, og jeg leyfi mjer að skírskota til orða minna þá. Það gleður mig, að háttv. Ed. hefir tekið rjettari afstöðu til þessa máls en háttv. Nd.