28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Bjarni Jónsson:

Jeg skal byrja ræðu mína á því, að minnast á það, sem síðasti ræðumaður mintist síðast á, lánið til Ólafs Jónasonar prentmyndasmiðs.

Jeg er viss um að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) meinar ekki það, sem hann hefir sagt um það mál. Þessi háttv. þingm., sem alt af vill að allir fái að njóta sín á því sviði, sem hæfileikar þeirra eru bestir:

Þessi maður, sem hjer er um að ræða, vill fá lán til þess að geta rekið iðn sína. Mjer virðist ekki nema sjálfsagt að veita manninum lánið, og það er auðvitað, að stíla verður lánsheimildina upp á nafn, þegar enginn innlendur maður annar er til, sem kann þessa iðn.

Jeg skal þá leyfa mjer að minna á styrkinn, til þess að launa manni við Háskólann, til þess að kenna líffærameinfræði. Jeg vona að þessi hv. deild láti það ekki á sannast, að hún sje skilningssljórri í þessu máli en háttv. Ed.

Þá vildi jeg einnig minnast á liðinn, um að veita fje til að gjöra við Þingvöll. Það hefir verið minst á þetta áður í dag, og skal jeg því vera stuttorður. Einungis geta um það, að það er ekki rjett, sem sagt hefir verið, að ekki sje til neinn uppdráttur nje kostnaðaráætlun um verkið. Þetta hlýtur hvorttveggja að vera til, því það var sent til þingsins 1913, þegar fyrst var sótt um að fje yrði veitt til þessa. Jeg tel það víst, að þessi styrkur verði veittur, og skal ekki minnast á það framar.

Jeg tel það rjett, að sett verði nefnd manna til aðstoðar stjórninni með úthlutun skáldstyrksins, og tel ekki ástæðu til að búast við því, að þessi nefnd verði á nokkurn hátt fjötur um fót stjórnarinnar. Jeg álít það varla svaravert, að þessar stofnanir, sem kjósa eiga nefndina, sjeu svo slæmar, að ekki sje hægt að trúa þeim til þess að velja sæmilega menn. Að minsta kosti má ekki ætla Háskólanum, að hann velji ekki vel. Háskólinn okkar hefir sáð mörgum góðum frækornum, og svo mun hann gjöra í þessu máli.

Þá kem jeg að lið, sem jeg mintist ekki á í dag, vegna þess, hve sjálfsagt jeg áleit að hann yrði samþyktur. Það er styrkurinn til Ragnars Lundborg, til að gjöra Ísland kunnugt erlendis. Jeg vissi þá ekki það, sem nú er fram komið, að nokkur gjörðist svo djarfur, að mæla móti því, að þessi styrkur yrði samþyktur. Jeg veit, að menn hjer þekkja ekki Lundborg persónulega, en menn þekkja hug hans til þessa lands. Jeg þekki Lundborg persónulega, og veit að það er fríður maður og hæverskur, vel að sjer um alt, en hefir sjerstaklega lagt stund á að kynna sjer hagfræði og þjóðarjett. Hann hefir skrifað mikið um Ísland, og ber það alt sama blæinn; þar andar í hverri línu ást til landsins. Lundborg hefir í mörg ár verið ókeypis ráðunautur íslenskra kaupmanna, að því er Svíþjóð snertir, og ætti það ekki að spilla fyrir því, að hann fengi þennan styrk.

Jeg get skilið það, ef sú mótbára kæmi fram, að við ættum ekki að hafa útlending til þessa starfa, heldur ættum við að gjöra það sjálfir. Þessi mótbára lætur auðvitað vel í eyrum, en hvað skyldi sá dagur heita, sem allir yrðu sammála um, hvaða maður yrði fenginn til þessa starfa.

Það er hlægilegt að heyra annað eins og að það geti verið hættulegt hlutleysi voru, að samþykkja fjárveitingu til þessa, manns. Ef menn koma með slíkar fullyrðingar, þá eiga þeir að rökstyðja þær, og vísa jeg þessari fullyrðingu hjer með heim til föðurhúsanna.

Jeg tel þetta tilboð Lundborgs mesta kostaboð. Hann myndi ekki fá einn eyri fyrir fyrirhöfn sína, þótt þessi styrkur yrði samþyktur. Fjeð myndi alt ganga til ferðalaga og til að gefa út rit og bæklinga um Ísland, leigja hús til ókeypis fyrirlestra o. s. frv. Hjer er því eigi um það að ræða, að veita þessum manni atvinnu. Hann. er vel efnaður maður, og býður því þessi kostaboð. Jeg vildi og eigi óska honum nje öðrum vini Íslands, að hann þyrfti að leita sjer atvinnu hjá hinum göfuglyndu fulltrúum íslensku þjóðarinnar.

Jeg skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en leyfi mjer að biðja þess, að hæstv. forseti láti greiða atkvæði um þennan lið með nafnakalli, og læt jeg svo útrætt um fjárlögin á þessu þingi.