28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Eggerz:

Hæstv. ráðherra furðaði á því, að þar sem jeg hefði afhent sjer fjárlagafrumv., án þess að leggja til að sjerstök nefnd gjörði til lögur um úthlutun styrksins til skálda og listamanna, þá skuli jeg nú koma með þessa athugasemd, en þetta sýnir að hæstv. ráðherra hefir ekki heyrt ummæli mín hjer í deildinni um málið. Jeg lýsti því yfir við aðra umræðu fjárlaganna, að því að eins hefði jeg tilfært skálda og listamannastyrkinn í einni upphæð, að jeg hefði hugsað mjer að stinga upp á nefnd, til þess að gjöra tillögur til stjórnarinnar um styrkinn, en mjer hafði ekki dottið í hug, hvernig sú nefnd skyldi skipuð, er jeg samdi fjárlagafrumv., en var einráðinn í því, ef jeg hefði verið ráðherra áfram, að gjöra slíka tilögu til fjárlaganefndar. Nú hefir mjer dottið í hug fyrirkomulag nefndarinnar, eins og tillagan ber með sjer. Báðar deildir hafa fallist á tillöguna, og þar sem hún var samþykt hjer við 2. umræðu með nafnakalli, þá leyfi jeg mjer að vænta þess, að hún verði líka samþykt nú.

Út af því, sem hæstv. ráðherra tók fram, viðvíkjandi atkvæðagreiðslunni um Jökulsárbrúna, vil jeg geta þess, að skýrsla mín um það var hárrjett. Jeg sagði, að hún hefði verið samþykt með 17 atkv., og þetta er alveg rjett, því að 13 sögðu já og 4 ljetu telja sig með meiri hlutanum. Jeg vænti þess, að hæstv. ráðherra kannist við það, að þetta hafi verið rjett hjá mjer. (Ráðherra: Skýrslum okkar ber algjörlega saman).

Úr því að jeg stóð upp, vil jeg minnast á brtt. á þgskj. 851, um 1000 kr. styrk til Hjartar Þorsteinssonar. Fjárlaganefndin hefir fært þenna styrk niður um 200 kr. Jeg vil fyrir mitt leyti mæla með því, að hann fái hærri upphæðina. Þetta er efnilegur maður, sem ekki hefir sótt um styrk áður, og það munar landssjóð ekki neinu, en manninn munar það mjög miklu.

Þá vil jeg að lokum minnast á fjárveitinguna til Ragnars Lundborgs. Mig furðaði á því, að þessu skyldi vera hreyft af einum stuðningsmanni stjórnarinnar. Það er óneitanlega leiðinlegt, þar sem um svo ágætan Íslandsvin er er að ræða, að fjárveiting til hans skuli hafa verið borin upp hjer í þinginu, án þess að hafa tryggingu fyrir að hún yrði samþykt. Mjer er sagt, að hæstv. ráðherra hafi ekki gjört neina athugasemd við það, að tillagan var borin upp, en jeg verð að segja, að fyrir mitt leyti hefði jeg helst óskað, að hún hefði ekki komið fram, ef það er meiningin, að hún eigi að falla. Jeg álít Íslandi lítinn sóma að því að bera upp slíka tillögu hjer í þinginu og láta hana falla. Annara skildist mjer á hæstv. ráðherra, að það gæti stafað hætta fyrir okkar »neutralitet« af því að veita þetta fje. Eftir því sem mjer skildist, átti það á einhvern hátt að standa í sambandi við stríðið. Jeg vildi leyfa mjer að óska þess, að hæstv. ráðherra skýri það nánar, á hvern hátt það megi verða.