28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Matthías Ólafsson :

Mjer dettur ekki í hug að lá hv. frsm. (P. J.), þó að hann haldi fast við sina skoðun. En hann má þá ekki heldur lá mjer, þótt jeg haldi fast við mína skoðun um brimbrjótinn, þar sem jeg er sannfærður um að hún er rjett. Mín skoðun er sú, að landssjóður eigi að gjöra þetta. Landssjóður er eign alls landsins; þar sem mest er framleiðslan, er mest lagt í landssjóð, og þar er því rjettmætt að gjörðar sjeu mestar kröfur.

Þó að jeg hins vegar fallist á, að afla þurfi landssjóði tekna, þá er þar hægurinn hjá engu að síður. Það væri hægt með því að leggja á hafnargjald, er rynni í landssjóð. Þetta yrði beinn gróði, þar sem hann á hinn bóginn er óbeinn með því að leggja skatta á framleiðsluna. En ef alt af á að auka skattana á, framleiðslunni, eftir því sem þarfir landssjóðs aukast, getur farið svo að lokum, að menn verði fullþreyttir á þeim. Fræðslulögin t. d. eru ekki búin að standa lengi, en mönnum er farið að finnast, að þau sjeu þungur akattur. Sama er að segja um vegi. Það er ekki hægt að leggja góða vegi, af því að fjeð vantar til þess, en þeir vegir, sem lagðir eru, reynast svo ónýtir, að þeir verða ófærir innan skamms. Líka gengur mikið fje til síma, og það hljóta að vera einhver takmörk fyrir gjaldþoli manna. Landssjóður hefir nú lagt áður fram til þessa fyrirtækis, og ef hann kippir nú að sjer hendinni, og hættir að veita til þess, kemur það að engu haldi. Því að sje verkinu ekki haldið áfram, getur það ekki komið að tilætluðum notum; framleiðslan eykst ekki og landssjóður tapar því þeim sköttum, er hægt væri að leggja á þessa auknu framleiðslu á þessum stað.

Jeg vona því, að háttv. deild sýni svo mikla sanngirni í þessu máli, að skilyrðin sjeu feld burt.