07.08.1915
Neðri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Framsögum. (Pjetur Jónsson):

Jafnvel þótt fjárlaganefndin hefði þetta framvarp alllengi til meðferðar á undan 2. umr., kemur hún fram með nokkuð margar brtt. nú til 3. umr., án þess þó að gjöra grein fyrir þeim í framhaldsnefndaráliti. Jeg verð því að fara um þær nokkrum orðum.

Fyrsta brtt. er sú, að greiða megi af fje því, sem ætlað var til eftirlits úr landi með fiskiveiðum útlendinga í landhelgi 700 kr. til Gerðahrepps, vegna tjóns þess, sem eftirlits báturinn þar hefir orðið fyrir. Þessu máli er þannig farið, að mótorbátur sá, sem gjörður var út til eftirlitsins frá þessum stað, fórst í haust sem leið, og tjón það, sem hreppurinn varð fyrir, fram yfir vátryggingarupphæðina, sem Samábyrgðin greiddi, nam 1348 kr. Upp í það hefir hreppurinn fengið nálega 300 kr., svo að það er um 1000 kr. skaði, sem útgjörðin hefir orðið fyrir. Háttv. 2. þm G.-K. (K. D.) hefir skrifað fjárlaganefndinni og farið fram á, að hreppurinn fengi þenna skaða greiddan. Hann hafði heyrt í stjórnarráðinu, að eftir stæði af fje því, sem ætlað var til strandgæslu úr landi árið 1914 fullar 700 kr. Fjárlaganefndin hefir fallist á, að þar sem landsjóður og hjeraðsbúar hafa rekið þessa útgjörð í sameiningu, þá taki landsjóður hlutfallslegan þátt í þeim skaða, sem af henni hefir leitt. Og þar sem þessar eftirstöðvar eru fyrir hendi, finst nefndinni sanngjarnt að þær gangi til þess.

Önnur brtt. er við 8. gr. frumv., að bætt verði við dýralæknastyrkinn 200 kr. á yfirstandandi ári, handa dýralæknisnema Lúðvík Þorgrímssyni, sem kominn er að því að lúka prófi við dýralæknaskólann í Kaupmannahöfn. Nú hefir annar maður, Hannes Jónsson, nýlega lokið dýralæknisprófi, en nefndinni er ekki kunnugt, hvort hann getur fengið styrk á þessu ári eða ekki. En ef hann fær styrkinn, getur Lúðvík ekkert fengið, nema fje sje veitt til þess á fjáraukalögum. Vitanlega kemur þessi upphæð ekki til útborgunar, nema Hannes fái jafnframt styrk.

Þá leggur nefndin til, að þeirri athugasemd verði bætt aftan við frumv., að landstjórninni heimilist að endurgreiða Sláturfjelagi Suðurlands vörutoll af saltkjöti því, sem flutt var inn aftur 21. júlí 1914. Svo stendur á um þetta kjöt, að haustið 1913 sat alt saltkjöt eftir í Vík, án þess að flutningur gæti fengist á því. Kom það til af því, að þessi höfn er svo afskekt, og þar svo brimasamt. Kjötið sat þar allan veturinn. En um vorið, er loksins tekst skipsferð, og kjötið var sent til útlanda, var markaðsverðið svo fallið, og auk þess ekki frítt við að skemd væri komin í kjötið, að ekki var um annað að ræða en að senda það til baka. Þetta var ekki svo lítill skaði fyrir hlutaðeigendur, ekki síst þegar ofan á bættist kr. 570,40 verðtollur. En um þessar mundir, sem kjötið kemur heim aftur, var verið að breyta vörutollslögunum þannig, að ekki þyrfti að greiða toll af endursendum innlendum vörum, enda var það af þinginu viðurkend vangá, að þær vörur voru ekki frá upphafi tollfrjálsar eftir lögunum. Nú hefir Sláturfjelagið sótt um, að fá tollinn endurgreiddan, og vill fjárlaganefndin að svo verði gjört, þar sem það var að eina fyrir óheppilegt orðalag á vörutollslögunum, að slíkar vörur urðu tollskyldar, og kjötið var komið til landsins að eins 1–2 mánuðum áður en þessu var kipt í lag.

Þá er önnur athugasemd, sem nefndin leggur til að sett verði aftan við frv. Hún er um það, að landstjórninni heimist að kaupa hálfa jörðina Höskuldsstaði í Reykdælahreppi. Um þetta hefir sýslumaðurinn í Þingeyjarsýslu skrifað stjórnarráðinu, og hefir það brjef verið sent fjárlaganefndinni, ásamt uppkasti að tillögum stjórnarráðsins. Þessu er þannig farið, að Höskuldsstaðir hálfir eru kirkjujörð frá Helgastöðum, en hinn helmingurinn er bændaeign. En á milli þessara jarða er landaþræta allþýðingarmikil fyrir báðar jarðirnar, og er alt óvíst um hvoru megin það land mundi lenda, sem þrætt er um, ef til dóms kæmi. Ef jörðin yrði öll kirkjueign,

væri þrætan til lykta leidd, og þá mætti skifta landinu svo á milli beggja jarðanna, Höskuldsstaða og Helgastaða, að báðar jarðirnar yrðu góðar. Helgastaðir eru góð engjajörð, en Höskuldsstaðir engjalítil beitarjörð. Má gjöra góða jörð úr Höskuldsstöðum, ef bætt væri við hana engjum, þó ekki væri meiru en þrætulandinu. Viðkomandi hreppstjóri hefir látið gjöra álitsgjörð um kirkjujarðir í hreppnum, og þar á meðal um þessa, og leggur hann til, að landssjóður kaupi hana. Verðið er upp kveðið 1000 kr. Segir hann, að það sje að vísu nokkuð hátt, en þó ekki hærra en svo, að tilvinnandi muni vera fyrir landssjóð að ganga að kaupunum. Sýslumaður og stjórnarráð mæla með kaupunum. Fjárlaganefndin hefir fallist á þetta, og því hefir hún lagt til, að þessari athugasemd verði bætt við frumvarpið.

Þá er 3. athugasemdin. Hún er um það, að hækkuð verði eftirlaun fyrv. sýslumanns Skúla Thoroddsen á þá leið, að þau verði reiknuð frá 1. jan. 1914 kr. 1752,54, í stað kr. 1500,54, sem nú er reiknað. Munar það 252 kr. Ástæðurnar, sem nefndin hefir fyrir sjer í þessu, eru þær sömu, sem hlutaðeigandi hefir skýrt frá í brjefi sínu til Alþingis, dags. 3. þ. m., og legið hefir frammi á lestrarsalnum. Hafa þingmenn eflaust lesið það og komist að niðurstöðu um, hvernig í þessu liggur. Eftirlaunin voru upphaflega reiknuð kr. 1500,54, miðað við nettótekjur embættisins. En hlutaðeigandi telur það ekki rjett, heldur hafi eftirlaunin átt að vera kr. 1752,54. Mismunurinn stafar af því, hvað reksturskostnaður embættisins er reiknaður. Skúli Thoroddsen hafði, sem sýslumaður, gefið upp, að hann hefði verið 350 kr. En þegar eftirlaunin voru reiknuð, var farið eftir ágiskun hins setta sýslumanns Ísfirðinga, Sigurðar Briem, og er hún á þá leið, að síðustu 5 árin muni kostnaðurinn við embættisfærsluna hafa verið frá 500–1400 kr. Meðaltal var síðan tekið af þessum upphæðum, og gengið út frá 880 kr. embættiskostnaði. Var það dregið frá embættistekjunum og eftirlaunin reiknuð eftir því. Það er vitanlega álitamál eftir hvorri upphæðinni á að fara, 350 kr., sem til tekið var af fyrverandi sýslumanni, eða 880 kr., sem var ágiskun þáverandi sýslumanns.

En þegar þessi embættiskostnaður er borinn saman við það, sem aðrir embættismenn, er komust á eftirlaun um líkt leyti og síðar, gáfu upp, og tekið var gilt, þá verður ekki sjeð, að 350 sr. sje of lág upphæð. Franz Siemsen, sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu, reiknar kostnaðinn t. d. 120 kr., Einar Thorlacius, sýslumaður í Norður-Múlasýslu og bæjarfógeti á Seyðisfirði, 400 kr., og Stefán Thorarensen, sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Akureyri, 350 kr. Að öllu athuguðu virtist því nefndinni rjett, að telja eftirlaunin miðuð við það, að ekki sje dregið frá embættistekjunum meira en 350 kr., og því hefir hún lagt til þessa athugasemd.

Loks á nefndin brtt. á þgskj. 231, sem fjell út af þgskj. 225. Hún er um 500 kr. til viðbótar bráðabirgðauppbót á brauðum. Þessi brtt. er komin fram fyrir tilmæli biskups og meðmæli stjórnarinnar. Það er sýnilegt, að upphæð sú, sem til þessa er veitt á núgildandi fjárlögum, er ekki nægileg. Og með því, að biskup hefir aldrei farið fram á fjárveitingar til kirkjumálanna, nema með mestu sparsemd, þá hefir nefndin fallist á að leggja til, að þessi upphæð verði veitt.

Viðvíkjandi brtt. hæstv. ráðherra á þgskj. 241, skal jeg geta þess, að nefndin hefir ekki tekið neina afstöðu til hennar. Býst jeg við, að hæstv. ráðherra skýri deildinni frá ástæðunum til þess, að tillagan er fram komin, svo að mönnum verði ljóst, hvernig á henni stendur.