07.08.1915
Neðri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

56. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Sveinn Björnsson:

Það er að eins örlítil athugasemd í sambandi við brtt. á þgskj. 225,3 a-lið um endurgreiðslu á vörutolli. Háttv. framsm. (P. J.) hefir skýrt frá ástæðum þeim, er til hennar liggja. En svo er mál með vexti, að fyrir þinginu 1913 og 1914 hefir legið lík málaleitan, og jeg hefi verið beðinn um að ámálga hið sama á þessu þingi. Sú málaleitan er náskyld þeirri tillögu, er fjárlaganefndin mælir með nú, og jafnvel enn þá meiri ástæða til þess að sinna henni en þessari. Þegar samið var um byggingu hafnarinnar hjer í Reykjavík, voru vörutollslögin ekki gengin í gildi eða farið að tala um þau. Þess vegna gat maður sá, er bæjarstjórnin samdi við um að taka að sjer verkið, ekki tekið tillit til þessa innflutningsgjalds við samningsgjörðina. Hann hefir nú orðið að greiða vörutoll af öllum þeim tækjum, er hann hefir þurft að flytja hingað til hafnargjörðarinnar. Jeg býst ekki við, að hægt sje að skylda hann til þess að greiða þetta gjald og er því vafalaust, að bæjarstjórn Reykjavíkur verður að endurgreiða honum það, ef fjeð fæst ekki aftur úr landssjóði. Undanfarin þing hafa ekki viljað sinna þessari kröfu og má því gjöra ráð fyrir því, að hann gjöri þá kröfu til bæjarstjórnarinnar, að hún endurgreiði sjer jafnmikið og því nemur, er hann verður að leggja út. Að sjálfsögðu mun bæjarstjórnin þá fara fram á það við þingið, að landssjóður endurgreiði það, er Monberg hefir greitt fram yfir samninga. Þótt jeg hafi ekki komið fram með neina tillögu í þessa átt nú, þá áleit jeg rjett að geta þess, vegna brtt. þeirrar, sem jeg nefndi áður og fer í líka átt.