04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Jón Þorkelsson:

Jeg hefi lítið af breytingartillögum og hygg, að þær sjeu flestar, ef þær eru fleiri en ein, lítilfjörlegar og mæli best með sjer sjálfar. Það er ein á þgskj. 751, sem fer fram á fje handa Ólafi lækni Gunnarssyni til liða- og beinlækninga, ef eg kann að nefna það rjett. Lærðir menn munu kalla það „orthopædiu“ eða beinrjettingu. Flestir þeir, sem örkumlamenn hafa orðið, og þar á meðal er jeg, telja nauðsyn á slíkum lækningum. Það er herfilegt til að vita, að þeir menn, sem hafa orðið fyrir þeirri óhamingju, að verða örkumlamenn, skuli verða að búa við þau örkuml alla æfi þaðan upp, af því að ekki var hægt að ná í lækni, þá er þeir slösuðust. Jeg hefi farið fram á 1500 krónur handa Ólafi Gunnarssyni, og hygg jeg að allir kannist við nauðsynina til þeirrar fjárveitingar. Annars býst jeg við að landlæknir muni styðja þetta mál mitt og eins framsögumaður háttv. fjárlaganefndar. Sjálfur hefi jeg ekki mikið vit á þessu og læt því útrætt um það.

Jeg á líka litla breytingartillögu á þgskj. 759 um að hækka styrkinn til vjelarbáts á Hvítá úr 300 kr. upp í 600 kr. Ef þeir, sem halda þessum bátsferðum uppi, fá ekki nema 300 kr. styrk, geta þeir ekki notað hann. Jeg hefi því komið með þessa miðlunartillögu, og vona að í háttv. fjárlaganefnd sjeu svo góðir, vitrir menn og nýtir, að þeir vilji ganga inn á hana.

Það eru ýmsar breytingartillögur háttv. fjárlaganefndar, sem eg mun lítið eða ekki minnast á. Þó get jeg ekki annað en minst á það, sem flestum; er til þekkja, mun þykja undarlegt, og það er, að strikuð hefir verið út fjárveiting til vegar í Norðurárdal. Vegur sá er aðalæðin milli Reykjavíkur og Norðurlands og Vestur, og er umhugsunarvert, hvort ekki sje rjett að falla frá þeirri breytingartillögu.

Um Jökulsárbrúna hefi jeg ekki margt að segja. Jeg hefði gjarna viljað greiða fyrir því kjördæmi með atkvæði mínu, en sá þingmaður, sem flutti þessa fjárbeiðni, hefir hegðað sjer svo á þessu þingi, að jeg get ekki, verið með því. Hann hefir reynt að ausa of fjár úr landssjóði, en sett sig upp á móti öllum tilraunum til þess að afla fjár með því viti og afli, sem honum hefir verið gefið. Jeg get því ekki greitt þessari fjárveitingu atkvæði mitt.

Jeg sje að háttv. fjárlaganefnd hefir gjört þá breytingartillögu við 5 gr., að hún vill hækka jarðabætur prestsins á Breiðabólstað úr 5 dagsláttum og upp í 8. Hann á að sljetta 8 dagsláttur fyrir það eitt, að mega halda 142,38 kr., eða árgjaldinu af staðnum. Það er víst ætlast til að það verði ódýrt að rækta landið það.

Svo var það 3. liðurinn þarna í breytingartillögum nefndarinnar, það er við 11. gr. B. 8. Á eftir þeim lið á að koma nýr liður, 5000 kr. fjárveiting til tollgæslu og aukins lögreglueftirlits vegna bannlaganna. Mjer er nú spurn : Hvað lengi á þetta þref að ganga? Hvað lengi á að eyða tíma þingsins í þessa óhæfu og þjóðarskaðræði? Jeg heyrði háttv. 5. kgk. (G.B ) tala í dag um þrælalög, sem hann vildi berjast á móti að sett yrði. Þá var verið að tala um lög til varnar því, að starfsmenn þess opinbera gæti gjört verkfall og stöðvað alt verk sitt. Þetta kallaði hann þrælalög og hjúalögin kallaði hann sama nafni. En hve lengi á þetta að ganga, að veitt sje fje til þessara þrælalaga, bannlaganna, sem eru sett af þrælum til þess að gjöra landsmenn að þrælum. Hvað lengi á þessi vitleysa að ganga? Þessi geðveikisvitleysa, sem búin er að kosta landið ærið fje, þó þetta bætist ekki við. Það er með þessu verið að fara fram á 5000 krónur, sem er stungið í vasa nokkurra lögreglustjóra; það eru vasaskildingar handa þeim, án þess að nokkur vissa sje fyrir því, að þeir gjöri nokkurt gagn. Því er skotið að mjer hjer af sessunaut mínum, að þetta sje handa þeim hálaunuðustu lögreglustjórum. Þessi lög hafa kostað landið svo mikið, að ekki er á það bætandi með þessum 5000 kr. Jeg heyrði háttv. 5 kgk. segja, og hann er bannhetja eins og hv.4.kgk.(B. Þ.), að það hefði skekst til um alla toll-löggjöf landsins. Jeg kannast við að þetta er rjett. Jeg held að fyrsti tollurinn, hinn svokallaði brennivínstollur, hafi verið lögleiddur 1842. Þá þótti rjett að tolla þá vöru, sem ekki gæti talist lífsnauðsyn, og þeir menn, sem ekki vildu neita sjer um þá vöru, borguðu þá tollinn. Síðan hefir ekki verið lagður tollur á nauðsynjavöru. Það er fyrst 1909, sem skekkjan kemst inn með bannlögununum, eftir að þessum bannhetjum eða bannþrælum hafði tekist með miklu kappi en litlu viti að reka þau á. (Guðm. Björnson: Eftir að þm. sjálfur hafði greitt þeim atkvæði). Jeg barðist á móti þeim, en samþykti að láta þau ganga upp í efri deild, af því að jeg bjóst við, að menn þar mundu verða svo vitrir að fella þau. (Guðm Björnson: Vitrari en þm. sjálfur!) Jeg vissi hve gott það var að taka fyrir þá vitleysu í neðri deild. Þá komu vandræðin, því hvaðan átti þá að fá tekjur? Tekjugrundvöllurinn hafði verið feldur niður og landið margskaðaðist á því og enginn fann ráð til að bæta úr því. En svo fanst þjóðráðið, sem allir þekkja, og það var að leggja toll á allar nauðsynjavörur, einkum þær, sem allir þurftu að nota. Þessi illu lög, þessi óviturlegu lög, hafa skaðað þjóðina á marga lund. Þessi óvitalög hafa svift þjóðina þeim besta tekjustofni, sem að miklum hluta, að 1/3, var borgaður af útlendingum: Hvað kemur svo í staðinn? Tollur á alla nauðsynjavöru, sem fátækir jafnt og ríkir verða að gjalda. Þetta hafa þessir menn gjört, þeir hafa rekið burt gjaldstofn landsins og lagt skatt á alla nauðsynjavöru.

Þessari breytingartillögu greiði jeg ekki atkvæði, því að jeg hygg, að fjenu sje einungis kastað út í bláinn. Það álítur það enginn lagabrot, þótt bannlögin sje brotin. Þetta er því alveg þýðingarlaust. Til þess. að framkvæma þetta, veitti ekki af öðru eins fje og allur áfengistollurinn var.