27.07.1915
Neðri deild: 17. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

27. mál, ullarmat

Sveinn Björnsson:

Við háttv. þm. Snæf. (S. G.) eigum brtt. við þetta frv. á þgskj. 115. Hún er svo til komin, að þegar þetta frumvarp kom frá stjórninni, þá var svo ákveðið, að sýslumaður eða hreppstjóri skyldu votta með undirskrift sinni o. a. frv., eins og stendur í 1. gr. frumv. Þessu breytti háttv. Ed. svo, að í stað hreppstjóra var settur inn »umboðamaður sýslumanna«. Þetta getur verið til ills, því að í kauptúnum eru kaupmennirnir oftast umboðamenn sýslumanna, og það er óviðkunnanlegt, að þeir sjeu að gefa vottorð um þá ull, sem þeir sjálfir flytja út, og getur valdið því, að í útlöndum verði ullarmatið álitið gagnalaust.

Þá viljum við og bæta því inn í frv., að sje hreppstjóri sjálfur útflytjandi, þá skuli sýslumaður skipa mann í hans stað. Jeg vona, að allir sjái, að tillögur okkar eru til bóta, og samþykki þær.