26.07.1915
Neðri deild: 16. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

43. mál, verðlag á vörum

Guðmundur Eggerz:

Verðlagsnefndin hefir ákveðið, að verðlag skuli vera eitt, og að það sje miðað við borgun út í hönd. Jeg hefi orðið var við, að slíkt hefir vakið megna óánægju, vegna þess, að þá geta kaupmenn sett svo hátt verð á lánuðu vöruna, sem þeim sýnist. Jeg vil því skjóta því til stjórnarinnar, að athuga þetta og lagfæra. Veit jeg það, að menn kunna að segja, að ekki sje sanngjarnt að leggja sama verð á, þegar um lán er ræða og peningaborgun út í hönd. En jeg sje þá ekkert á móti því, að verðlagskrárnar væru tvær, önnur fyrir peningaborgun, en hin fyrir reikningsviðskifti. Þar sem litið er um peninga, er þýðingarlítið að tala um peningaborgun út í hönd. Slíkt hefir einungis þýðingu hjer í Reykjavík og svo í kaupstöðunum, þar sem peningastofnanir eru.

Jeg stóð einungis upp til þess að benda háttv. nefnd á þetta. Jeg skal samt bæta því við, að jeg álít ekki rjett það, er háttv. þm. Mýr. (J. E.) sagði, um að kaup verkamanna hefði hækkað að sama skapi og útlenda varan. Jeg skal að vísu ekki segja um þetta hjer í Reykjavik. Til þess er jeg eigi nógu kunnugur, en jeg veit, að á Austurlandi hefir kaup verkamanna stigið lítið. (Sveinn Björnsson: Eins hjer). Háttv. þingmaður taldi og útlendu vöruna hafa stigið næsta litið (Jóhann Eyjólfsson: Talaði að eins um kaffi og sykur), en mjer finst nú samt annað, að minsta kosti kalla jeg ekki sykur ódýrt, þegar kílóið er komið upp í 80 aura. En annara væri jeg, og líklega reyndar fleiri háttv. þm., þakklátur,ef hann vildi gefa okkur upplýsingar um það, hvar þetta ódýra sykur fæst og aðrar nauðsynjavörur.