21.07.1915
Efri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

33. mál, viðskiptabréfaógilding

Framsögum. (Karl Einarsson):

Nefndin hefir athugað mál þetta, og árangur þeirrar athugunar er á þingskjali 57. Við efni þess er ekkert að athuga; það er í fullu samræmi við gildandi ákvæði um ógildingu viðskiftabrjefa. Þó hefir nefndinni komið saman um, að enga nauðsyn beri til þess, að varnarþing ógildingarmálsins sje ætíð ákveðið í Reykjavík, þegar eðli málsins ekki beint krefst þess, og finst engin ástæða til að meina beiðanda ógildingarstefnu, að stefna málinu til dóms, í því lögsagnarumdæmi, þar sem hann á heima. Ætti því ekki að vera nauðsynlegt að stefna til bæjarþings Reykjavíkur, heldur að eins þangað, sem auðveldast væri fyrir þann, sem óskaði ógildingarinnar, og þá auðvitað innan lögsagnarumdæmis hans. Þetta er eina efnisbreytingin, sem nefndin hefir lagt til að gjörð yrði. Hitt eru alt leiðrjettingar vegna málsins, nema 9. brtt. Því fyrsti málsliður 10. gr. i lögum frá 16. nóv. 1907 fjallar ekki um þetta. Að við höfum sett málslið í stað málsgreinar, stafar af því, að okkur finst það fara betur.

Fjölyrði jeg svo ekki meira um þetta; breytingartillögurnar sýna sig sjálfar.