26.07.1915
Neðri deild: 16. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

43. mál, verðlag á vörum

Ráðherra:

Jeg ætla að eins að segja örfá orð út af því, er háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) sagði um sölu gegn peningum út í hönd og reikningslán. Er það vafalaust rjett athugað hjá háttv. þm., en ekki mun þurfa annars þar við en að vekja athygli nefndarinnar á því á sínum tíma. Viðvíkjandi verðlagningu nefndarinnar er það að segja, að hún hefir víst einungis lagt verð á þær vörur, sem kvartað hefir verið um, að óhæfilega hátt verð væri á, eða of lágt verð hafi verið á sett. Slíkar kvartanir hafa náttúrlega aðallega komið frá kaupendum, en komið hefir það og fyrir, að seljendur hafa kvartað líka, hafi söluverðið verið lækkað tilfinnanlega hjá þeim. Hvað snertir það atriði, er háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) drap á í ræðu einni, að oft munaði ekki nema einum eða tveimur aurum á verðlagningunni, sem kaupmenn hafa sett á vöru sína, þá finst mjer ekki þurfa að taka slíkt nærri sjer. Það dregur þó, er saman kemur. T. d. á kaffi og sykri munar ekki svo lítið um, þó að ekki sje nema um eins eyris mismun að ræða.

Það verður líka að gæta þess, að verðið verði ekki sett alt of lágt, því að það verður líka að gæta hagsmuna kaupmanna og sjá um, að þeir tapi ekki ósanngjarnlega á verslun sinni. Það, að þessi nefnd er til og hefir lagaheimild til þess að taka í taumana, mun oft ríða baggamuninn. Væri hún ekki, þá gæti það hæglega orðið til þess, að þeir, er framleiða vöruna eða flytja hana inn, gætu oft sett verðið óhæfilega hátt. Auðvitað er, að þessi nefnd er ekki alfullkomin, fremur en aðrar mannlegar stofnanir, og getur því auðveldlega yfirsjest í ýmsu.

Háttv. þm. A -Sk. (Þ. J.) leit svo á, sem nefnd þessi myndi geta heft frjáls viðskifti með gjörðum sínum. En jeg vil benda háttv. þm. á það, að engan veginn er hægt að kalla það frjáls viðskifti, ef svo er í garðinn búið, að annar viðskiftaaðili getur, ef hann vill, sett hinum þá afarkosti, er honum sýnist. Slíkt athæfi mun nefndin koma í veg fyrir.

Jeg hefi heyrt utan að mjer, að nefnd þessi þyki alveg þýðingarlaus, og því myndi best að losna alveg við hana. En jeg held að það sje ekki gjörlegt, að hv. Alþingi felli þessi lög í burtu, einmitt nú á þeim tímum, er mönnum ætti að vera sem annast um, að hægt sje að taka í taumana gegn óhæfilegu verðlagi.