26.07.1915
Neðri deild: 16. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

43. mál, verðlag á vörum

Jóhann Eyjólfsson:

Jeg vildi að eins svara einu orði, sem háttv. þm. Reykv. (S. B.) beindi til mín í ræðu sinni. Hann taldi það fljótfærnislega ályktun hjá mjer, að frjálsræði manna væri heft með þeim framkvæmdum, sem hjer eru á seyði, að minsta kosti ekki meira en gjört er með hverjum öðrum lögum, sem hjer eru samþykt. — Jeg verð samt sem áður að halda fast við það, að þetta gangi óvenjulega nærri frjálaræði manna. Það er alt annað, að leggja skatt á menn en að gjöra þetta, sem nú er í ráði að gjöra. Jeg skal játa, að jeg skildi ekki vel, það sem háttv. þm. (S. B.) sagði um eignarrjettinn. Jeg hefi alt af heyrt, að menn gjörðu sjer vonir um að eignast það, sem þeir afla. En ef það á ekki að verða þeirra eigindómur, þá er jeg hræddur um, að það hefti eigi alllítið framkvæmdir manna, viljaþrek þeirra og viðleitnislöngun til að koma sjer áfram.

Viðvíkjandi því, að framleiðendur setji óeðlilega hátt verð á vöru sína, þá hygg jeg að erfitt sje við það að eiga. Það er verslunarsamkepnin, samtök og fjelagsskapur, sem þar verða að koma til sögunnar. En það er ilt, að þing og stjórn skuli þurfa að skifta sjer af slíku. En hins vegar býst jeg ekki við, að mikil hætta sje á því, að menn bindist samtökum um vörusölu í því skyni, að koma vörunni í óheyrilegt verð. Jeg hygg, að slíkar getgátur sjeu á engum rökum bygðar, og að í því tilfelli sje engin hætta á ferðum. Hjer á landi hefir ekki gjörst mikið af slíkum samtökum. En þó slíkt komi fyrir í einhverri mynd, þá verður erfitt að girða fyrir það með lögum.