26.07.1915
Neðri deild: 16. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

43. mál, verðlag á vörum

Sigurður Gunnarsson:

Aukaþingið í fyrra leit svo á, eins og kunnugt er, að full ástæða væri til að gefa stjórninni heimild til að setja slíka verðlagsnefnd, sem hjer ræðir um.

Jeg vil benda á, að eftir mínum skilningi verður nauðsynin ekki minni nú þegar haustar, eða þegar fram á veturinn kemur, heldur ef til vill miklu meiri. Við vitum allir, að ástand það, sem nú er í Norðurálfunni, og í þeim löndum sjerstaklega, sem Ísland hefir mest viðskifti við, hefir stórmikil áhrif á allan hag þessa landa, sem svo mikið þarf að flytja inn af lífsnauðsynjum sínum. Þess vegna vil jeg alvarlega ráða til, að þetta frumv. nái óbreytt fram að ganga, án þess að menn gjöri sjer alt of miklar áhyggjur út af því, hvernig nefndin muni ráða ráðum sínum. Allir vita, að hún er ekki einvöld, heldur liggja ráðstafanir hennar undir samþykki stjórnarráðsins. Því mega menn væntanlega treysta, að svo gætilega verði farið í sakirnar, sem verða má, og að ekki verði gripið til neinna stórræða, nema brýn nauðsyn krefji. Menn verða að gæta að því, að þegar hungur og neyð kallar að, en hins vegar er dýrtíð, þá verður að gjöra fleira en gott þykir.