26.07.1915
Neðri deild: 16. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

40. mál, gullforði Íslandsbanka

Ráðherra :

Án þess að jeg vilji segja að mjer sje það stórt kappamál, að þetta frv. verði samþykt óbreytt, þá verð jeg að taka það fram, að jeg tel ekki brtt. nefndarinnar til bóta, heldur miklu fremur þvert á móti. Það er ekki laust við, að mjer finnist það ankanalegt, ef farið verður að setja það ákvæði, að þessi lög, sem sett eru vegna styrjaldarinnar, skuli gilda þangað til á miðju ári 1917, án þess að nokkuð tillit sje tekið til þess, hve nær styrjöldinni lykur. Ef henni lyki í haust, hvað á það þá að þýða að leysa Íslands. banka undan því, að leysa inn seðla sína, og sparisjóðina frá því, að borga út nema svo og svo mikið o. s. frv.? Jeg sje enga ástæðu til þess. Það er ekki nema eðlilegt, að bankinn þurfi fyrirvara. En hvaða stjórn sem væri mundi gjöra ráðstafanir til þess, að bankanum gæfist sá fyrirvari, sem honum nægði, til þess að draga að sjer gull. Jeg vildi fyrir mitt leyti að frv. væri samþykt óbreytt, því að jeg tel það, sem sagt, blátt áfram ankanalegt að setja inn í það þannig lagað ákvæði, að Íslandsbanki geti um hálfs annars ára tíma verið undanþeginn því, að leysa inn seðla sína, eftir að sú ástæða er fallin burtu, sem gjörði það að verkum, að hann var nokkurn tíma leystur undan því.