12.07.1915
Neðri deild: 4. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

30. mál, vörutollaframlenging

Bjarni Jónsson:

Jeg býst við, að það sje í minni margra manna, að á þinginu 1912, þegar vörutollslögin voru samþykt, var annað tollagafrumvarp, frumv. til laga um verðtoll, til meðferðar hjer í deildinni, sem ekki hafði minna fylgi. Það var fyrir þinghrekk við atkvæðagreiðslu, og ekki annað, að vörutollslögin urðu ofan á. Nú hafa þessi lög sætt mikilli mótspyrnu út um alt land, alla þá stund, sem þau hafa verið í gildi. Þykir mönnum þau koma svo ranglátlega niður, að lítt sje við unandi. Kjördæmi mitt t. d. hefir samþykt áskorun til þingsins um að breyta vörutollinum í verðtoll. Mun jeg reyna að vinna að því, að svo verði gjört. Jeg vil því segja væntanlegri nefnd, sem kosin verður í þetta mál, að hún má eiga von á, að fá til meðferðar annað frumv. frá mjer, frumv. um verðtoll, ef slíkum breytingum verður ekki komið við þetta frumv. Jeg sje ekki ástæðu til að óttast, að mikinn undirbúning þurfi, til þess að breyta vörutollinum í verðtoll. Bæði málin fengu jafn góðan undirbúning, er þau voru fyrst til umræðu hjer í þinginu. Verðtollurinn mundi að öllu leyti koma rjettlátlegar niður, án þess að verða erfiðari í framkvæmdinni.

Að öðru leyti skal jeg ekki orðlengja um málið að svo stöddu. Jeg vil að eina biðja væntanlega nefnd, að hraða ekki svo störfum sínum, að hún geti ekki bætt við sig frumv. um verðtoll, er jeg mun láta koma fram hið bráðasta.