04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

30. mál, vörutollaframlenging

Björn Kristjánsson:

Jeg ætla að eins að athuga það viðvíkjandi ræðu háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.), þar sem hann sagði, að fara mætti í kring um lögin með því, að gefa upp vefnaðarvöru, sem flutt væri í kössum, sem sem pappír. Það er alveg rjett. En þetta er einmitt eitt dæmið um skemd á lögunum, sem komst inn í þau, er þingmenn, er ókunnir voru grundvelli þeim, sem lögin byggjast á, fóru að grauta í þeim 1913. Upphaflega var engin undanþága gjörð í lögunum um pappír, en þingið hefir síðan skemt þau í þessu tilliti. Pappír átti ekki að gjöra tollfrjálsan; einungis prentpappír átti að vera það, sem alt af má þekkja, vegna umbúða hans, en svo fórst þinginu óhönduglega, að það gjörði allan pappír tollfrjálsan, jafnvel skrifföngin líka. Þetta sýnir því, hversu varhugavert það er, að breyta lögunum á þingi án umhugsunar.

En jeg vil óska þess, að þingið breyti ekki lögunum um þetta atriði eins og brtt. fer fram á, en gjöri brúkaðar umbúðir tollfrjálsar. Þá er hægt að hafa trygt eftirlit á vörunum, þar sem þær standa á farmskrá.