03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

51. mál, sparisjóðir

Guðmundur Eggerz :

Jeg hygg, að háttv. þm. Snæf. (S. G.) muni hafa misskilið orð hv. 2. þm. Eyf. (St. St.). Eftir því sem mjer skildist, þá talaði háttv. 2. þingm. Eyf. að eins um stjórn sparisjóða, að því leyti sem honum væri kunnugt, en alls ekki eins og hann væri því kunnugur alstaðar á landinu. Annars skal jeg geta þess, að sparisjóðanefnd sú, er sett var í fyrra, og sem jeg ætla að háttv. þm. Snæf. (S. G.) ætti sæti í, leitaði sjer upplýsinga eftir föngum um stjórn og eftirlit sparisjóðanna. Öll nefndin var sammála um það, að hvergi nokkurstaðar væri neitt verulegt ólag, nema í einum stað, og það var þó ekki einu sinni af því, að uppvíst væri um prettvísi, eða að tryggingar væru farnar forgörðum, heldur það, að sjóðurinn stóð inni í verslun.

Það er algjörður misskilningur hjá hv. þm. Snæf. (S. G.), ef hann heldur, að við, háttv. samnefndarmaður minn og jeg, er samferða höfum orðið í nefndarálitinu sjeum andstæðir því, að sparisjóðirnir sjer sem best trygðir. Það er svo þvert á móti. En við álítum, að frumvarpið, með breytingartillögum okkar, sje fulltryggilegt, og svo er það annað, að við viljum ekki að stofnað sje dýrt eftirlitsembætti, sem svo væri eintómt »humbug«. Því jafnvel þó að embættið yrði ekki launað nema með 1200 kr., þá myndi ferðakostnaður o. fl. bætast þar á ofan, svo að óhætt er að gjöra reikning fyrir 7000 kr. útgjöldum við þetta. Jeg vil undir engum kringumstæðum, að slíkt embætti sje stofnað að svo stöddu.

Það, sem meta þarf mest, er athugun á tryggingum og veðum, hvort þau sjeu ábyggileg, en slíkt getur ókunnugur maður ekki haft hugmynd um; hann þekkir ekki fasteignarveðin, og ekki heldur þá menn, er í ábyrgðum eru við sjóðina.

Háttv. þm. Snæf. (S. G.) efaðist um það, að víða á landinu væru til menn, sem væru færir um að stjórna sparisjóðum. Jeg vil leggja áherslu á, og slá föstum þessum ummælum háttvirts þingmanns, og biðja menn vel að athuga þau. Eftir því verður afleiðingin sú, að það ætti að banna mönnum að stofna sparisjóði. En mjer er þá spurn: Ef þeir menn, sem eru kosnir í stjórn, eins og nú er, eru ekki færir um að hafa hana á hendi, hvernig í dauðanum geta menn þá búist við því, að ókunnugur maður, sem kemur í sveitirnar svo sem einu sinni á 3–4 árum, sje fær um að kenna mönnum að stjórna. Jeg hygg að það sje lýðum ljóst, að í stjórnina eru ætíð valdir bestu menn hvers hjeraðs. Og án þess að gjöra minna úr eftirlitinu en nauðsynlegt er, þá skal jeg taka það fram, að mjer finst það harla einkennileg skoðun, að jeg ekki noti annað orð, sem virtist koma fram hjá hæstv. núverandi ráðherra, hjer á þingi í fyrra, að hann áliti að meiri hluti manna út um landið væru þjófar og bófar.

Jeg verð því að leggja til, að umsjónarmaðurinn, í því formi, sem hann er í stjórnarfrumv., verði feldur. Þeir, sem telja slíkan umajónarmann nauðsynleglegan, ættu heldur að stíga skrefið alveg út, og stofna fast embætti með 6000 kr. árlegum launum.