17.08.1915
Neðri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

100. mál, seðlaauki Íslandsbanka

Forseti:

Áður en til dagskrár er gengið, skal jeg leyfa mjer að minna á, að í 41. gr. þingskapanna er svo fyrir mælt, að þegar dagskrá er eigi ákveðin eftir ályktun þingdeildar, geti forseti tekið mál út af dagskrá. En með því að það hefir valdið óánægju sjer í deildinni, hvernig forseti hefir beitt þessu valdi, vil jeg skýra frá, að eftirleiðis mun verða fylgt þeirri reglu, að mál, sem tími vinst til að ljúka við, verða ekki tekin út af dagskrá, nema annaðhvort eftir ósk aðalflutningamanns eða formanna nefndar, er um málið hefir fjallað, ellegar að öðrum kosti samkvæmt atkvæðagreiðslu deildarinnar.

Að þessu mæltu hófust umræður um málið.