17.08.1915
Neðri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

100. mál, seðlaauki Íslandsbanka

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson) :

Háttv. framsm. minni hl. (J. M.) hefir nú sagt mörg orð í þessu máli, en flest hafa þau snert aukaatriði, en ekki kjarna málsins. Mjer finst skoðun hana vera sú, að leyfa megi að gefa út svo marga seðla, sem viðskiftaþörfin krefur, án tillits til þess, hversu gullforðinn er hár, og án tillits til eftirlitsins með seðlabankanum af hálfu hina opinbera.

Jeg neita því, að það sje rjett að leyfa banka að gefa út seðla ótakmarkað, þó nokkur hluti þeirra sje trygður með gullmynt. Slíkur gullforði er ekkert veð fyrir seðlunum, eina og meiri hlutinn tekur fram í nefndaráliti sínu.

En þá er að líta á þörfina fyrir bankann, til þess að fá þenna seðlaútgáfurjett.

Íslandabanki kvartar yfir því, að hann hafi ekki nægilegt fje í veltunni. Er því nauðsynlegt að gjöra sjer grein fyrir því, í hverju það liggur, að hálf milj. nægir ekki bankanum fyrir næstu tvö árin. Skyldi það nú vera áreiðanlegt, að bankann vanti fje, til þess að lána innanlands? Jeg efast mikið um að það sje svo. Jeg hygg, að bankinn hafi nú nóg fje til þess, að lána út til innlendra fyrirtækja. Eftir því, sem jeg kemst næst, mun þörfin liggja í þessu: Útlendir kaupmenn kaupa hjer vörur og láta borga fje sitt inn í reikning bankanna erlendis, til þess að spara sjer kostnaðinn við að flytja peninga sína hingað upp sjálfir.

Íslandabanki hefir nú sett gjaldið fyrir að borga út fjeð hjer óhæfilega lágt, og því er það, að hann sjer, að það borga sig illa slík viðskifti, sem þessi, nema að hann fái nóg handbært fje til þessa fyrir lítið, eða svo sem ekki neitt. Til þess að menn skilji betur við hvað jeg á, skal jeg taka þetta dæmi. Setjum nú svo, að firma á Englandi ætli að gjöra stór innkaup hjer á landi. Til þess nú að fríast við að senda fje hingað upp, þá biður það Íslandsbanka að borga út fjeð fyrir sig hjer, en leggur svo aftur borgunina inn í reikning hana í einhverjum enskum banka. Það er auðvitað, að til slíkra útborgana þarf mikið fje, sem alt af sje fyrirliggjandi, hve nær sem kallið kemur. Við þetta safnast bankanum jafnframt innieign erlendis, sem hann hefir þar á vöxtum og sem hann vill ekki þurfa að flytja, því að yrði hann að flytja fjeð hingað upp jafnóðum, þá leiddi af því, að hann yrði að hækka nokkuð gjaldið sem þessir útlendu viðskiftamenn hana verða að greiða. Það, sem Íslandsbanki hugsar sjer nú að gjöra, er að reyna að útvega sjer tvöfalt veltufje fyrir ekki neitt, til þess að firrast flutningakostnaðinn, sem ekki er mikill, og get jeg borið um hvað það kostar Landabankann að flytja upp 100 þús. kr. Það kostar hann 16 kr., ef hann notar íslensk frímerki, sem hann hann getur best selt aftur, og kæmu bankarnir sjer saman um að hækka dálítið gjaldið á útlendum viðskiftamönnum, þá yrði Íslandsbanka það eng- inn skaði, þótt hann fengi ekki þessa miklu seðlafúlgu, sem minni hlutinn fer fram á. Menn gætu nú hugsað sjer að bæta úr þessari vöntun bankans á tvöföldu veltufje, með því að auka nú í bráðina seðlafúlgu hans um 1 miljón króna. En hvað nægir það lengi? Nú er svo ástatt, að enn er að eina lítill hluti af kaupum af íslenskum afurðum gjörður á þennan hátt, sem jeg áður gat um. Ætluðu menn sjer að uppfylla þessa þörf bankans með útgáfu nýrra seðla, eftir því sem þau viðskifti ykjust, hver yrðu þá takmörkin fyrir seðlaútgáfunni? Ef allar útfluttar vörur yrðu keyptar hjer á þennan hátt, sem jeg gat um, þá mundi núverandi verðgildi þeirra vera um 16½ miljón, en það fer stöðugt vaxandi.

Hvernig geta menn nú hugsað sjer að uppfylla alla þá peningaþörf með seðlum, sem útheimtist til þess, að bankinn gæti tekið að sjer alla þá verslun á þennan hátt? Það er alveg óhugsandi að landið geti fullnægt allri þeirri viðskiftaþörf með seðlum, heldur með auknu veltu fje bankanna. Það yrði því ekki annað en að smíða »endalausa skrúfu«, að samþykkja till. minni hl. í þessu máli. Höfuðið á þessari endalausu skrúfu, er ½ miljónin, sem minni hlutinn leggur til að sje samþykt, í viðbót við það, sem meiri hlutinn vill láta samþykkja. Þetta sem jeg hefi nú sagt, er álit meiri hl. nefndarinnar, og verður hann því að ráða eindregið frá því, að bætt sje við seðlana meira en ½ miljón í biti. Hann álítur, að það sje ekki aukið seðlaútgáfuleyfi, heldur aukið veltufje, sem þurfi til þess að bæta úr þessari viðskiftaþörf. Eins og tekið er fram af meiri hluta nefndarálitinu, álítum við, að í raun og veru ætti ekki að auka neitt seðlafúlgu Íslandsbanka, en góðrar samvinnu vegna viljum við þó ganga inn á að auka hana um ½ milj. í næstu 2 ár. En auðvitað þá með því móti, að gullforðinn sje geymdur hjer á Reykjavík undir öruggri umsjá landsstjórnarinnar.

Við háttv. framsögum. minni hlutans, erum báðir viðvaningar í bankafræði. Það er því hægt að bera brigður á það, sem við segjum í máli eins og þessu, en til þess að sýna, að jeg er ekki einn um þá skoðun á bankamálum, sem jeg nú hefi haldið fram, skal jeg leyfa mjer að tilfæra hvað nokkrir bankafræðingar, þektir rithöfundar í þeim fræðum, segja um þessi mál.

Jeg skal þá fyrst nefna bók eina eftir Ernst Seyd. Hún heitir »Die Wahren Grundsätze des Banknotenwesens; þar segir svo á bls. 30:

»Notkun ógulltryggra seðla er rjettmæt:

1) sem endurgjald á kostnaðinum við að gefa þá út,

2) til þess að fylla í skarðið, ef mynt minkar (i bili),

3) til uppfyllingar, ef peningaumferðin er um tíma meiri en vanalega.

Og þessi markmið ein, sje þeim stranglega fylgt, rjettlæta það, að nota ógulltrygða seðla.

Því miður hefir nálega hver einasta þjóð misbrúkað þessa nauðsynlegu og rjettmætu starfsemi þeirra«.

Hann gjörir mun á gulltrygðum og ógulltrygðum seðlum, en að því skal jeg víkja seinna. Í sömu bók segir ennfremur á bls. 3:

»Sannreynd er og verður það, að fjárhagsósjálfstæði þeirra landa gagnvart öðrum þjóðum vex við framhaldandi of mikla útgáfu bankaseðla, og alla ekki hægt að upphefja það, nema að þröngva seðlunum burt og að mynt komi í staðinn.

Sannreynt er það enn fremur, að þjóðir, sem byggja peningaviðskifti sín aðallega á mynt, eru fjárhagslega óháðar öðrum þjóðum. Og eftir því, sem gjaldmiðillinn er orðinn hreinni, hefir fjárhagslegt sjálfstæði þeirra aukist gagnvart öðrum þjóðum«.

Þetta segir nú þessi Englendingur, og hann er í svo miklu áliti, að Þjóðverjar hafa þýtt bækur hans á þýsku, og sýnir það best, að hann er ekki talinn neinn vitleysingur.

Það, sem nú er mest um deilt hjer í þinginu, er ljóslega skýrt í bók sem heitir »Aktive Währungspolitik« eftir Ernst Frankfurth. Þar segir svo á bls. 21:

»Nú koma seðlabankarnir fram á völlinn og segja: Rentufóturinn hækkar; það sannar að peninga vantar (gjaldmiðil), og viðskiftalega skoðað hvílir á oss sú skylda, að jafna sveiflurnar í fjárþörfinni, með því að gefa út seðla.

Við verðum því nú að taka í taumana. Við verðum að mæta þessari vaxandi fjárþörf með vaxandi fjárframboði. Við verðum að setja rentufótinn niður með seðlum vorum. Menn mundu lá okkur, ef við gjörðum það ekki; og þeir láta fjeð úti við alla, sem bjóða vexti og tryggingu eftir þörfum og nema ekki við neglur sjer. En með þessum nýju seðlum hækka kaupmennirnir eftirspurnina á mörkuðum og kauphöllum, koma verðinu upp, auka muninn á verðhámarkinu í kauphöllunum, glæða þar með kaupfýstina, vekja nýjan sult eftir peningum, og hækka rentufótinn áfram, en þetta gefur seðlabönkunum tilefni til nýrrar seðlaútgáfu. Endalausa skrúfan«.

Það er einmitt þetta atriði, sem meiri hlutinn leggur mesta áherslu á, að hjer er farið fram á að smíða hausinn á skrúfuna. Til þess að losa Íslandsbanka við að kosta of miklu til þess að flytja fje á milli landa, er miklu betra að landssjóður greiði fyrir hann kostnaðinn við að flytja fjeð hingað frá öðrum löndum, fremur en að leyfa honum að gefa út svona mikið af nýjum seðlum, því að hvar endar skrúfan ef hausinn inn er smíðaður nú?

Háttv. framsögumaður minni hlutans, taldi það neyðarúrræði, að brúka útlenda seðla fyrir gjaldmiðil í landinu.

Við skulum nú líta á, hvað þessi ummæli háttv. framsm. minni hl. (J. M.) eiga að sanna. Útlendu seðlarnir, sem nú eru í umferð hjer á landi, eiga hjá honum að sanna það, að gjaldmiðil vanti innanlands. Þeir sanna þetta ekki. Þeir sanna ekkert um annað en það, að gjaldmiðil þarf að flytja milli landanna, ýmist upp eða niður. Innieign bankanna erlendis og lán flytjast upp, er með þarf, og niður aftur. Eða halda menn, að við Íslendingar sjeum eina þjóðin, sem höfum erlenda seðla í umferð? Nei, langt frá því. Þetta er svo í öllum löndum, og hefir víst aldrei fyrr verið notað sem tilefni til að banki fái aukinn seðlaútgáfurjett, eða halda menn, að t. d. Þjóðbankinn danski hafi beðið um seðlaviðbót fyrir það, að 1910 gengu t. d. sænskir seðlar í Danmörku, sem námu 19,675,070 kr.? Nei, auðvitað datt honum það ekki í hug, og má þó nærri geta, að sænskir seðlar hafa ekki um það leyti verið einu útlendu seðlarnir í Danmörku; þar hafa auðvitað verið öll ógrynni af norskum, enskum, þýskum og frönskum seðlum í umferð.

Jeg gæti tilfært mörg fleiri dæmi, sem sýna að jeg hefi rjett fyrir mjer, en jeg vil ekki eyða dýrmætum tíma þingsins með því að tala lengi enn. Að eins vil jeg geta þess, að höfundar þeir, er jeg hefi vísað til, eru að tala um óinnleysanlega seðla, eins og þeir nú gjörast, en ekki eins og seðlafyrirkomulagið var um aldamótin 1800.

Háttv. frsm. minni hl. (J. M.) talaði mikið um það, að jeg hefði notað orðið »spekulation« í annarri merkingu en rjett væri. Jeg játa það, að »spekulation« svarar ekki alveg til orðsins fjárbrall, en það var það, sem jeg meinti. Háttv. þm. verður að gæta að því, að jeg er ekki málfræðingur, og reyna að fyrirgefa mjer, ef jeg skyldi nota einhver orð í annarri merkingu en hann telur rjett. Annars er þessi þýðing orðsins nokkuð önnur hjer á landi en annarstaðar, sem liggur í því, að hjer er svo sjaldan um heiðarlega »spekulation« að ræða, heldur brask, og leiddi það mig til að nota þetta orð í þessari merkingu.

Hann (J. M.) talaði um að seðlaútgáfa myndi tæplega auka innflutning. Jeg verð út af því að lesa nokkur orð eftir eftir tvo kunna höfunda, sem skrifað hafa um þessi efni. Annar kaflinn er úr bók, sem heitir »Das Notenbankwesen in der Schweiz, England und Deutschland«, og er eftir dr. A. Haffner. Hann hafði fyrir sjer 60 höfunda, þegar hann skrifaði þessa bók. Hann segir svo á bls. 89:

»Eftir að nú eru leidd rök að því, að það má gefa út of mikið af seðlum, í þeim skilningi, að seðlabankarnir, vegna of mikillar seðlaútgáfu, stuðla að, eða koma ekki í veg fyrir of ör viðskifti og framleiðslu og óeðlilega verðhækkun, þá verður því næst spurningin, hvort of mikil seðlaútgáfa getur gjört það að verkum, að mynt streymi úr landi, svo að hætta geti stafað af. Þeirri spurningu verður einnig skilyrðislaust að svara játandi«.

Og annar höfundur, sem háttv. þm. þekkja líklega, Hage, segir svo á bls. 133 í sinni bók :

»Þegar seðlabanki nýtur almenns trausts, hafa seðlar hans tækifæri til að starfa sem gjaldmiðill almennara en nokkur annar gjaldmiðill. Og einmitt þessar kringumstæður, sem í fjölda mörgum tilfellum hafa leitt til misbrúkunar á trausti almennings, og þar með til mikilla fjárhagslegra vandræða, eru orsökin til þess, að um allan heim eru settar sjerstakar takmörkunarvarúðarreglur af ríkinu, og þær oft strangar, til þess að tryggja áreiðanleik bankaseðlanna«.

Alt miðar þetta að því að sanna, að ekki megi gefa út seðla í blindni og takmarkalaust. Jeg get gengið inn á það, sem háttv. minni hl. segir, að til sjeu þau lönd, sem gefa út seðla eftir því sem »viðskiftaþörfin« krefur, en í alt öðrum skilningi en háttv. framsm. (J. M.) hefir. Það er hvergi gefið svo mikið út af seðlum, að öll gullmynt hverfi úr landi. Og þá eru líka settar strangar reglur því til tryggingar, að seðlaútgáfan verði ekki misnotuð. Það eru lögin, sem ákveða, hvað gullforðinn megi vera minstur, en reynslan sýnir, að gullforði er jafnaðarlega nokkru meiri. Jeg hefi veitt því eftirtekt, að sá raunverulegi gullforði er í 17 bönkum af 18, sem jeg hefi athugað, meiri en í Íslandsbanka. Íslandsbanki er þannig sá 17. í röðinni af 18. Jeg segi ekki, að Íslandsbanki sje ótryggari eða efnaminni en allir hinir bankarnir, heldur segi jeg þetta til að sýna, hvernig ástatt er í landinu. Það er ekki nóg með það, að þjóðin sje myntlaus, heldur er bankinn líka myntlítill, eða með öðrum orðum, hefir minni mynt en t. d. Búlgarar, sem eru þó ekki taldir sjerlega »civiliseruð« þjóð. Sömuleiðis höfum við minni mynt en Rúmenar. Þetta sýnir, hversu lítið menn leggja upp úr því, að alt af sje til í landinu verðmiðill, sem hafi verðgildi í sjer.

Háttv. frsm. minni hl. (J. M.) sagði, að jeg hefði stutt að stofnun Íslandsbanka 1902. Jeg játa það, að jeg greiddi atkvæði með stofnun hans, enda var gullforðinn þá ákveðinn 50%, en ekki 331/3% eins og nú, en jeg man ekki til, að jeg hafi sagt eitt einasta orð á þingi um það efni. Utan þings sagði jeg, að jeg teldi nauðsynlegt, að ný bankastofnun kæmi upp í landinu. Jeg held að jeg hafi áður í ræðu minni áfelt þingið þá fyrir lögin um stofnun Íslandsbanka, en það var ekki rjett, því að þingið gjörði lögin vel úr garði. Stjórnarráðinu var í lögunum falið að setja tryggingarreglurnar, og þar í liggur, að löggjöf bankans varð svo ófullkomin. Það var því ekki rjett af mjer, að kenna þetta þinginu, heldur var það stjórninni að kenna.

Háttv. frsm: minni hl. (J. M.) sagði, að stjórnin gæti rannsakað bankann þegar hún vildi. Það er öldungis rjett, en hve nær gjörir hún það? Skyldan er engin, heldur að eins heimild, sem sjaldan eða aldrei er notuð. Jeg vil ekki vera að taka upp aftur það, sem jeg sagði um þetta á síðasta þingi. Það stendur glögt og óhrakið í þingtíðindunum. Jeg held því fast fram, eins og stendur í nefndarálitinu, að bankinn hafi í raun og veru nægan seðlaútgáfurjett.

Þar sem háttv. fram. minni hl. (J. M.) sagði, að Íslandsbanki væri sniðinn eftir þýskum reglum, þá er það að vissu leyti rjett, en þótt það sje að einhverju leyti, þá er þó ekki þýsku reglunni fylgt í framkvæmdinni. Það má sjá á því t. d , að gullforði þýska ríkisbankans hefir að jafnaði verið 70°% af seðlum í umferð að meðaltali, en Íslandsbanka ekki nema 40%. Það gjörir mikinn mun, þó ekkert væri annað.

Jeg hefi skrifað á tíningi upp hjá mjer það, sem háttv. frsm. minni hl. (J. M.) sagði. Mjer þótti vænt um að heyra hann segja, að seðlabankar væru ekki

vanir að hafa sparisjóðsviðskifti. Hann mun þá vilja líta svo á, að Íslandsbanki sje ekki seðlabanki. Hann áleit þurfa sjerfróðan mann til að ákveða, hvað mikið mætti gefa út af seðlum, en það er ekki bankans, sem hefir seðlaútgáfurjettinn, að ákveða það, heldur verða einhverjir aðrir að gjöra það.

Jeg er nú búinn að svara flestu því, sem jeg skrifaði hjá mjer. Jeg get þá vikið stuttlega að aðfinslunum að skýrslunni. Jeg hefi ekki tíma til að lesa heilar bækur máli mínu til stuðnings við þessa umr., en við 1. umr. skýrði jeg frá, hver upphæðin væri í þýsku bönkunum. Jeg get ekki farið að endurtaka það alt nú, enda er bæði leiðinlegt og tilgangslaust að vera að lesa upp langa kafla á erlendu máli. Minn skilningur er sá, að þýsku seðlabankarnir mættu gefa út 750 milj. marka. Þessi bók, sem jeg bygði á um Svíabankann, var gefin út 1912, og jeg ber ekki ábyrgð á því, þótt bankinn hafi breytt lögum sínum síðan. En fram til þess tíma hafði hann rjett til að gefa út 100 milj. fram yfir gullforða sinn. Þó Noregsbanki hafi síðan 1912 fengið að gefa út 10 milj. meira heldur en í skýrslunni stendur, sem mjer er ekki kunnugt um, þá er hann samt ekki eins hár, miðað við fólksfjölda, eina og Íslandsbanki.

Háttv. frsm. minni hl. (J. M ) var að finna að því, að jeg sagði um Englandsbanka, að hann mætti gefa út ógulltrygða seðla, sem nemi 18,450,000 punda. Þetta er rjett, en að eins með því að leggja fram jafngildi í gulli. Jeg sje því ekki, að orðalag mitt geti valdið neinum misskilningi. Í athugasemdinni stendur svo: »Heimilt er Englandsbanka að gefa meira út af seðlum gegn jafngildi í gulli«. Það, sem jeg vildi sýna, er, að hann megi gefa út seðla umfram þá fastákveðnu upphæð. Þegar hann leggur gullið i. handraðann, getur maður ekki sagt, að verið sje að gefa út ógultrygða seðla. Jeg hefi ekki sjeð Bandaríkjalögin eftir 1911, en mjer þykir ótrúlegt, að þeim sje breytt þannig, þegar Canadalögin 1913 ákveða, að bankarnir megi gefa út seðla jafnt innborguðu hlutafje þeirra. Þar var fylgt sömu reglu og hjá Bandaríkjamönnum, að minsta kosti til 1912.

Jeg skal svo ekki þreyta deildina meira að sinni. Jeg álít, að skýrsla þessi sje að öllu leyti rjett, nema ef vera skyldi að því er snertir Þýskaland. Um það skal jeg ekki þrátta. En það yrði samt ekki meira en 8 kr., þó dreginn væri frá þeim þessi 1/3. Hvernig sem maður veltir þessu fyrir sjer, þá hefir Íslandsbanki rjett til að gefa meira út af seðlum á mann, heldur en nokkur annar banki. Samt vilja menn nú bæta við hann, ekki einungis hálfri miljón, heldur heilli.