27.08.1915
Neðri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

25. mál, rafmagnsveitur

Framsm. (Benedikt Sveinsson):

Efri deild hefir gjört dálitlar breytingar á frumv., og nefndin í neðri deild hefir fallist á breytingar hennar að öðru leyti en því, að hún leggur til 20 ár í stað 15 ára. Áður voru ákveðin hjer í deildinni 30 ár, svo að jeg vænti nú, þar sem neðri deild slakar til um 10 ár, að það sæti ekki mótmælum í efri deild, heldur verði hún fús til að lengja tímann um 5 ár. Önnur brtt. nefndarinnar er að eins til skýringar og til að gjöra sanngjarnari þau ákvæði, sem hún hljóðar um. Jeg leyfi mjer fyrir hönd nefndarinnar að ráða háttv. deild til að samþykkja frumv. með þessum breytingum. Vjer höfum ekki viljað halda þessu 30 ára tímatakmarki til streitu, úr því að efri deild vildi ekki fallast á það.

Brtt. 549 var of seint fram komin, og leitaði forseti leyfis til afbrigða frá þingsköpum um hana, og voru þau leyfð og samþykt.