12.07.1915
Neðri deild: 4. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

72. mál, kirkjugarður í Reykjavík

Ráðherra ; Þetta frumv. er gamalkunnugt hjer í deildinni. Frumv. líks efnis var afgreitt í Nd. í fyrra, en sofnaði í Ed. Þegar í fyrra var svo komið, að fyrirsjánlegt var, að grafreitur Reykjavíkurbæjar yrði útgrafinn á næsta ári, en af því leiddi, að óhjákvæmilegt var að gjöra ráðstafanir til þess, að hann yrði stækkaður. Frumvarp þetta fer fram á að skylda menn, sem land eiga að Reykjavíkurkirkjugarði, til að láta það af hendi, gegn fullu endurgjaldi, og jafnframt er ætlast til, að lögleitt verði legkaup fyrir Reykjavíkursókn.

Á þinginu í fyrra mun, í sambandi við þetta mál, hafa verið skorað á stjórnina, að rannsaka líkbrenslufyrirkomulagið og búa það mál undir næsta þing. Jeg veit ekki, hvort það hefir verið gjört. Að minsta kosti hafði jeg ekki tíma til þess. Jeg býst við, að væntanleg nefnd grafist fyrir um það mál, og hvort tiltækilegt sje að koma því í framkvæmd.