04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra:

Jeg skal líka lofa að vera stuttorður, eins og allir aðrir, og reyna að efna það, því að í þessum kafla fjárlaganna er ekki mikið, sem háttv. fjárlagan. leggur til að sje breytt og margar af brtt. hennar eru þannig, að mjer virðist þær vel mega ganga í gegn. Jeg skal þá að eins snúa mjer að örfáum liðum.

Það er þá fyrst brtt. við 12. gr. 15, i, sem fer í þá átt, að fella styrk upp í kostnað við dvöl sjúklings á fábjánahæli erlendis. Það eru til fordæmi þess, að þingið hefir hlaupið undir bagga með að kosta þá vitfirringa, sem eru fæddir fábjánar og ólæknandi, á hæli erlendis. Þannig stendur á hér í þessu tilfelli, að faðir sjúklingsins, sem er fátækur barnamaður og hefir nýlega mist konuna, á þessa dóttur, sem er þannig úr garði gjörð, að hún hefir aldrei fengið vit. Sumir slíkir fábjánar geta verið mjög meinlausir og stjórnlegir, en þessi stúlka, sem hjer er um að ræða, er hið gagnstæða, Hún veitir börnunum á heimilinu skaða, og verður því að hafa manneskju til þess að gæta hennar. Faðir hennar er ekki sjálfur svo efnum búinn, að hann geti kostað hana utan. Hann er mesti dugnaðarmaður og mundi ekki fara fram á þennan styrk, ef honum væri mögulegt að komast af án hans. Fæddir fábjánar eru ekki teknir á Klepp. Alls eru þeir nú um 100 á landinu, og eru sumir þeirra rænulausir og vinna ekki tjón, en aðrir eru líkari villidýrum en mönnum og vinna tjón, og þannig er því háttað með þessa stúlku. Jeg hygg að faðir hennar hafi talað um . þetta við landlækni og býst því við að háttv. 5. kgk. (G. B.) gefi frekari upplýsingar í þessu máli.

Þessu næst vil jeg minnast á nokkur atriði í 13. gr. Háttv. nefnd hefir lagt til að lækka fjárveitinguna til Grímsnessbrautar niður í 8000 kr., og hygg jeg að sú tillaga hennar spretti af ókunnugleik á staðháttum. Vegur þessi liggur um eitt besta hjerað landsins, og ætti því þegar af þeirri ástæðu að flýta honum sem mest. Það er líka mikil spurning, hvort það borgar sig, að vera að skera slíkar fjárveitingar niður í smábúta, Það mun áreiðanlega vera talsvert dýrara að vinna slíkt verk á löngum tíma en skömmum.

Um vegina vil jeg taka það fram, að yfir höfuð virðist miklu síður varhugavert að veita fé til þeirra, heldur en til brúargjörða. Möl og mold eru innlend efni, sem ekki hækka í verði, en cement, járn og stál verðum við að fá frá útlöndum, og þær vörur hafa stórhækkað í verði síðan stríðið hófst, og þar á ofan tvísýnt, hvort. auðið verður að fá þær fluttar hingað til landsins, hvað sem í boði er fyrir þær. Jeg býst við, að háttv. nefnd hafi kynt. sjer brjef landsverkfræðingsins um þetta efni. — Til brúargerða er mestmegnis notað þýskt járn, því að bæði er það ódýrara og betra en annað járn til slíkra hluta. En það er meira en óvíst, hvort við getum náð í einn járnbút frá Þýskalandi meðan á stríðinu stendur. — Þó að nú þeirri athugasemd sje bætt við fjárveitingar til brúa, að þær skuli því að eins komast í framkvæmd, að fjárhagurinn verði ekki of örðugur, vegna stríðsins, þá er þar með ekki fengin trygging fyrir, að við gjörum okkur ekki stórtjón með slíkum fjárveitingum, því að í fyrsta lagi getur fjárhagurinn orðið örðugur vegna annara hluta en stríðsins, og í öðru lagi væri mesta heimska að byggja brýr á næsta fjárhagstímabili, þar sem efnið í þær yrði ef til vill 500/0—1000/0 dýrara en venja er til. Jeg er sannfærður um, að enginn privatmaður mundi fara svo heimskulega að, og á þá landssjóður síður að kunna fótum sínum forráð? Jeg tala þetta ekki til háttv. nefndar, því að hún hefir ekki ráðið til slíkra fyrirtækja. En jeg vil brýna það fastlega fyrir háttv. deild, að íhuga þetta mál vandlega og hrapa að engu.

Um samgöngur á sjó, sem 13. gr. C fjallar um, skal jeg að eins geta þess, að varhugavert er að fara fram hjá tillögum samgöngumálanefndarinar. Menn mega ekki láta einstaka þingmenn, sem af kappi reyna að hlynna að kjördæmum sínum, verða altof ráðríka.

Það er rétt hjá háttv. nefnd, að það var af vangá fjárlaganefndar Nd., að liðurinn E. V. í 13. gr., um vita, var ekki aftur hækkaður, þegar hinar fyrirhuguðu vitabyggingar voru aftur settar inn í frv. Það er því vel farið að háttv. nefnd hefir leiðrjett þetta.

Jeg skal svo ekki lengur tefja tíma háttv. deildar. En jeg vil þó taka það fram enn þá áður en jeg sest niður, að mjer finst misráðið, að lækka fjárveitingar til vega, af þeim ástæðum, sem jeg þegar hefi minst á. Þar að auki er á það að líta, að margir menn mundu missa atvinnu sína, ef mjög drægi úr vegagjörðum. Hið sama má auðvitað segja um þá, sem atvinnu hafa af símalagningum og brúargjörðum, ef fjárveitingar til þeirra fyrirtækja minka eða falla niður. En það er þó alt af betra, að sumir sjeu atvinnulausir en allir.