19.07.1915
Efri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

27. mál, ullarmat

Eiríkur Briem:

Jeg verð að játa, að jeg hefi ekki það vit á þessu máli, sem jeg vildi óska, en eftir þeirri hugmynd, sem jeg gjöri mjer um þetta mál, þá held jeg að vafasamt sje, hvort það verður til bóta, að frumvarpið gangi fram. Tilgangurinn er sá, að útvega þjóðinni meiri peninga fyrir ullina en hún fær nú. En þá er ekki nóg, að mun meira fáist fyrir hvert pund af ullinni en nú, þegar hún er miður vönduð. Ef 100 pd. af ull eru svo vel þvegin, að þau ljettast um 10 pund, þá verður verðið fyrst og fremst að hækka svo, að maður fái eins mikið fyrir 90 pund og áður fjekst fyrir 100 pund. En þetta er ekki nóg. Verðið verður að vera svo hátt, að það auk þessa borgi kostnaðinn við að þvo ullina betur og kostnaðinn við matið, og til þess að nokkuð sje unnið, verður að vera eitthvað í viðbót við þetta. Jeg hygg, að allir muni vera mjer sammála um, að ullarmatið muni varla borga sig fyrst í stað, á meðan ekki er orðið kunnugt, að ullin sje betri vara; en það gjörir ekkert til, ef það yrði að eins nokkur ár, og verðið yrði þeim mun betra seinna. En menn verða að gæta þess, að hjer er öðru máli að gegna en um ýmsar aðrar vörutegundir, svo sem fisk og síld. Þar er ekki hægt, að laga verkunina á eftir. En ullina má hreinsa á eftir, og jeg hygg að verksmiðjurnar, sem kaupa ullina, gæti að því, hvað mikið er hrein ull og hvað mikil óhreinindin, og taki tillit til þess, hvað mikið hún muni ljettast við hreinsunina. Jeg hygg, að þær muni borga þeim mun meira fyrir þá vel þvegnu ull, sem hún ljettist minna, en ekki meira en sem því svarar. Jeg vil í þessu sambandi geta þess, að jeg hefi heyrt, að á Skotlandi selji allir sína ull óhreina, og jeg held að það sje heppilegast. Það er þetta, sem mjer sýnist nefndin hafa gengið fram hjá, að það er hjer allt öðru máli að gegna en um þær vörur, sem ekki er hægt að bæta verkunina á seinna. Enn er eitt, sem jeg vil benda á, og það er, að í Ameríku er lagður tollur á ullina, og er hann því hærri, sem ullin er dýrari; gæti það dregið úr því verði, sem verksmiðjurnar vildu bjóða. Jeg hefði álitið heppilegra, að verulegar tilraunir hefðu verið gjörðar um þetta efni, áður en lögin hefðu verið samþykt. Háttv. framsögumaður (J. B.) sagði að þær hefðu verið gjörðar, en maður veit ekki um niðurstöðuna. En segjum, að 10 þúsund pund væru send út til einhverrar ullarverksmiðju, 5 þúsund vel þvegin og 5 þúsund óþvegin, og verksmiðjan spurð að, hvað mikið meira hún vildi gefa fyrir þvegnu ullina. Jeg er hræddur um að það yrði ekki meira en sem svaraði því, hvað minna er af óhreinindum í þvegnu ullinni. Og það væri rjett að fjelögum væri veittur styrkur til að gjöra slíka tilraun. En meðan ekki er víst, að frumvarpið verði landinu til hagnaðar, álít jeg ekki rjett að samþykkja það.