04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

72. mál, kirkjugarður í Reykjavík

Framsm. (Guðm. Hannesson) :

Jeg held, að mest af því, sem máli skiftir, sje tekið fram í nefndarálitinu.

Aðalatriðið er verðið. Og er þá á það að líta, hvort stækka beri gamla kirkjugarðinn, eða fá ódýrara land undir nýjan kirkjugarð. Nefndin hefir athugað ýms svæði, t. d. úti á Melum, hjá Vatnsmýrinni, hjá Sunnuhvoli og víðar, og er enginn vafi á því, að utanbæjar má víðar en á einum stað fá laglegt kirkjugarðsstæði. Á þennan hátt má spara mikið fje, samanborið við það; að kaupa lóð inni í bænum. Öll nefndin var því sammála um það, að þótt stjórninni væri falin framkvæmd málsins, væri þó hyggilegast, að kaupa land undir nýjan garð utan aðalbæjarins.

Nefndin hefir einnig athugað líkbrenslumálið og komist að þeirri : niðurstöðu, eins og sjá má af nefndarálitinu, að slík stofnun mundi tæplega kosta undir 50 þús. kr. Þótti henni því ekki tiltækilegt að ráðast í það nú, og ofmiklu til kostað, þar sem að eins fáir menn mundu verða til að láta brenna sig fyrstu árin, þótt leitt sje, að þurfa skuli að flytja til útlanda lík þeirra manna, sem vilja láta brenna sig. Um kostnaðinn er og það að segja, að engu ódýrara er að láta brenna sig en grafa, heldur mun dýrara. Líkvagn og skraut o.fl. er oft hið sama, og eins þarf legstað í kirkjugarði fyrir öskuna.