19.08.1915
Neðri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

72. mál, kirkjugarður í Reykjavík

Framsögum. (Guðm. Hannesson):

Nefndin hefir leyft sjer að koma með breytingartillögu, sem er prentuð á þingskjali 327. Hún ætlaði sjer, þegar málið var tekið út af dagskrá um daginn, að reyna að ákveða til fulls, hvar kirkjugarðsstæði væri hagkvæmast, og hvað það myndi kosta nákvæmlega. En þrátt fyrir allar tilraunir, sem nefndin hefir gjört, til þess að finna hentugan stað, þá er hún ekki alla kostar ánægð. Og þess vegna hefir hún ekki sjeð annað heppilegra en að skjóta því til stjórnarinnar. Hins vegar hefir nefndin fengið fulla vissu um það, að víða má fá sæmileg kirkjugarðsstæði, sem ekki eru húsastæði, og að 10,000 kr. muni nægja til garðkaupa, og óþarft sje að gjöra ráð fyrir hærri fjárupphæð. Þetta er heldur minni upphæð en upprunalega var gjört ráð fyrir. Nefndin hefir því hugsað sjer, að legkaup skyldi lækkað fyrir bragðið. Hugmyndin var ekki sú, að landssjóður ætti að græða á legkaupinu, og þess vegna fanst okkur sanngjarnt að færa það niður, ef landið fengist ekki fyrir hærra verð en 10,000 kr. alla, þó væntanleg uppþurkun bættist við landsverðið: