21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

23. mál, sérstakar dómþinghár

Flutnm. (Stefán Stefánsson) :

Fyrir 2 árum flutti jeg hjer á þingi að nokkru leyti sams konar frumv. og við þingmenn Eyfirðinga flytjum nú, sem sje um sjerstaka dómþinghá í Öxnadalshreppi. Fylgdu þeirri málaleitun þá undirskriftir fjölda bænda í hreppnum. Svo stóð á, að Öxnadalshreppur var þá nýlega aðskilinn frá Skriðuhreppi hinum forna, en Öxdælir höfðu bygt sjer nýtt fundarhús. Töldu því hreppsbúar æskilegt, að ,,hreppurinn væri sjerstök

dómþinghá. Máli þessu var vel tekið hjer í deildinni, en í Ed. var frv. fargað við 1. umræðu. Síðan þetta var, hefir Arnarneshreppur skifst í 2 hreppa, Árskógshrepp og Arnarneshrepp. Árskógshreppur á myndarlegt fundarhús og Arnarneshreppur sömuleiðis; er það steinhús all vandað og vel frá gengið. En þar sem hvorugt þetta hús verður notað til manntalsþinga, eins og nú er ástatt, verða báðir hrepparnir að leigja sjer hús til þess á Hjalteyri. Við þetta þykir mönnum lítt unandi: Því var það, að á manntalsþinginu í vor, sem leið, var viðkomandi sýslumaður spurður um það, hvort hann hefði nokkuð á móti því; að þessir tveir hreppar yrðu hvor um sig sjerstök dómþinghá. Svaraði hann því á þá leið, að hvað sig snerti sæi hann því ekkert til fyrirstöðu. En því var sýslumaðurinn spurður að þessu, að helsta mótbáran, sem kom fram á móti málinu í Ed., var sú, að þetta hefði í för með sjer svo mikinn kostnað og aukna fyrirhöfn fyrir sýslumanninn. Álit sýslumanns var fært inn í þingbókina, og var það gjört til þess, að ef sama mótbáran kæmi hjer fram nú, þá væri hægt að fá það með símskeyti, eða á annan hátt. Jeg vona, að háttv. deild taki málinu vel, eins og áður, og afgreiði það tafarlítið til háttv. Ed. Jeg sje ekki neina ástæðu til, að nefnd verði sett í málið, þar sem það liggur svo ljóst fyrir. Það skal jeg taka fram, að því. var hreyft í Ed., þegar frv. fjell þar, að ekkert mundi vera á móti því, að 2 manntalsþing væru haldin í sömu dómþinghánni. Jeg vil ekki fullyrða neitt um það atriði, en það hygg jeg að eigi sjer mjög óvíða stað hjer á landi; enda lögfræðinganna að skera úr því, hvort slík tilhögun er með öllu lögleg. En þegar viðkomandi sýslumaður sjer ekkert á móti þessari breytingu, sem frumvarpið fer fram á að gjörð sje, þá get jeg ekki sjeð, að löggjafarvaldið hafi nokkra verulega ástæðu lengur, til þess að neita um hana.