19.07.1915
Efri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

27. mál, ullarmat

Hákon Kristófersson:

Jeg hefi ritað undir nefndarálitið með fyrirvara, að því er 1. grein þess snertir, og kemur það aðallega af því, að jeg get ekki verið háttv. nefnd sammála um niðurlag 1. greinar. Jeg kynni betur við, að síðari hluti þeirrar greinar, frá orðunum „skal sýslumanni“ til enda greinarinnar, fjelli burtu.

Jeg get ekki sjeð, að þessi hluti greinarinnar sje sprottinn af öðru en vantrausti til kaupmannastjettar landsins, þar sem það er beint tekið fram, að sýslumenn eða hreppstjórar verði að skrifa upp á matsvottorðið með ullarmatsmanni; það, að kaupmaðurinn má ekki gjöra það, hlýtur að koma af því, að menn haldi, að þeir ef til vill vilji falsa vottorðin, og það finst mjer bæði ómaklegt og ástæðulaust, eins vel og jeg tel þá stjett yfirleitt skipaða. Jeg vil auk þess benda á, að það getur oft verið nokkur kostnaðarauki, að ná í hlutaðeigandi valdsmenn til þessarar áteiknunar.

Í öllum öðrum atriðum er jeg samþykkur frumvarpinu, og þótt jeg jafnvel að sumu leyti geti fallist á athugasemdir hins háttv. 1. kgk. þm. (E. B.), þá verð jeg að telja ullarmatið æskilegt. Einn háttv. þingmaður sagði mjer, að hann hefði heyrt mikils metinn bónda komast þannig að orði: „Síðan jeg lærði að verka ullina mína rjett, þ. e. hafa hana bæði skítuga og blauta, þá hefi jeg grætt á henni mörg hundruð krónur“. Þetta meðal annars sýnir, að þörf sje á ullarmati. Þó jeg á hinn bóginn verði að álíta það; að ullarmat hafi ekki óverulegan kostnað í för með sjer.

Að endingu vil jeg aftur vekja athygli háttv., deildar á niðurlagi 1. greinar og áskil mjer, ef mjer þá svo líst, að koma fram með breytingartillögu viðvíkjandi þeirri grein til 3, umræðu.