30.07.1915
Neðri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Framsögum. meiri hl. (Sveinn Björnsson):

Eins og nefndarálitið ber með sjer, og jeg benti á við 1. umr., er hjer um það að ræða, að gefa út lík lög og þau, er talið var nauðsynlegt að gefa út á síðasta þingi, út af Norðurálfuófriðnum, sem sje lög um að heimila landstjórninni að gjöra ýmsar ráðstafanir vegna þess ástands, er ófriðurinn kynni að skapa á milli þings. Öll nefndin er sammála um það, að óhjákvæmilegt sje að setja ný lög í þessari átt, í stað laganna frá í fyrra, sem að eru úr gildi gengin. Nefndin er einnig sammála um efni laganna að öllu leyti öðru en því, sem kemur fram í nefndaráliti minni bl. nefndarinnar á þgskj. 123 og í brtt. á þgskj. 113. Um þau atriði, sem nefndin er sammála um, skal jeg ekki fjölyrða. Jeg vil að eins drepa á það, að í 2. gr. laganna frá í fyrra var stjórninni heimilað að alt að 500 þús. kr. lán til matvörukaupa, ef á þyrfti að halda. Þessa heimild mun stjórnin hafa notað að mestu leyti á síðasta hausti. Nefndin leit svo á, að óþarft væri að binda þessa heimild við svo lága upphæð, og leggur því til að stjórninni verði heimiluð 1 milj. króna lántaka, en auðvitað í því trausti, að þessi heimild verði ekki notuð að fullu, nema brýn þörf krefji.

Þá skal jeg víkja örfáum orðum að breytingartillögum þeim, sem fram hafa komið.

Brtt. á þgskj. 102 fer fram á þá breytingu á 1. setningu 2. gr. frv:, að bætt sje inn orðinu »brýn« á undan orðinu »þörf«. Jeg held, að þessi brtt sje í sjálfu sjer óþörf. Þessi setning í frv. nefndarinnar er tekin orðrjett úr lögunum frá í fyrra. Jeg held, að ekkert það hafi fram komið, sem gefi ástæðu til að »brýna« stjórnina í þessu efni, og því mætti eins vel fara að halda hjer sama orðalaginu, sem haft var um þetta atriði í lögunum í fyrra.

Þá eru brtt. á þgskj. 113 frá minni hl. nefndarinnar. Eins og sjá má á frv. á þgskj. 88, hefir meiri hl. nefndarinnar viljað leggja til, að auk útflutningsbannsins á útlendum vörum, sem heimilað var í lögunum í fyrra, verði einnig heimilað að leggja útflutningabann á íslenskar afurðir; þó þannig, að landstjórnin hafi heimild til að veita undanþágur frá slíku banni, með þeim skilyrðum, sem hún telur nauðsynleg. Minni hl. nefndarinnar hefir ekki getað fallist á þetta. Hann leggur til, að stjórninni sje að eins heimilt að leggja útflutningsbann á íslenska matvöru, og þó því að eins, að »aðflutningur til landsins af útlendum matvælum heftist svo, að til voða horfi fyrir landamenn«. Eins og sjá má á nefndarálitinu á þgskj. 123; hefir minni hlutinn gjört grein fyrir ástæðum þeim, er hann telur mæla með þessari breytingu. Skal jeg leyfa mjer að athuga þær ástæður lítið eitt.

Ástæðan til þess, að meiri hl. nefndarinnar hefir stungið upp á því, að stjórninni sje heimilað að leggja útflutningsbann á íslenskar afurðir, er sú, að hann óttast, að svo geti farið, að hið háa verð, sem nú er á íslenskum afurðum erlendis, gjöri það að verkum, að menn flytji svo mikið út, að innlend vara til manneldis verði ekki fáanleg í landinu. Meiri hlutinn lítur svo á, að ef þessu geti leitt það böl fyrir landsmenn, að ekki sje forsvaranlegt fyrir þingið að loka augunum fyrir því, heldur skylda þess að sýna þá forsjálni, að gjöra ráðstafanir til þess að afstýra voðanum. Minni hlutinn lítur ekki svo svörtum augum á þetta mál. Hann viðurkennir að vísu, að það geti komið fyrir, að þurð verði á íslenskum vörum í landinu, en hann telur það ekki munu koma að sök, meðan hægt sje að fá nóg af útlendri vöru. Við þetta er það að athuga, að það er erfitt fyrir stjórnina, hver sem hún er, að setja undir lekann, ef hún má ekki grípa til neinna ráðstafana í þessu efni, fyrr en það er komið á daginn, að aðflutningur á útlendri vöru hefir tepst. Jeg skal taka dæmi þessu til skýringar. Íslenska kjötið er flutt út í október og nóvember. Nú er það hugsanlegt, að á meðan útflutningurinn fer fram, flytjist nægilega mikið til landsins af útlendri vöru. En í desember teppast allir aðflutningar. Hvernig á stjórnin þá að geta sett undir lekann? Jeg sje ekki hvernig hún á að fara að því. Hjer er einnig á annað að líta. Landsmenn eru þannig gjörðir, að þeim þykir ilt að lifa á brauði einu saman. Hingað til hafa þeir orðið að hafa annað sjer til viðurværis en erlenda kornvöru. Mönnum er næstum ómögulegt að neita sjer um alla íslenska vöru til manneldis. Mörgum mun því þykja ilt, ef innlenda varan flytst svo mikið út, að hún verði ekki fáanleg í landinu, jafnvel þótt ekki komi til þess, að það leiði til hungursneyðar. Þetta nær ekki heldur eingöngu til matvæla. T. d. má flytja svo mikið út af ull, að til vandræða horfi fyrir landsmenn. Að minsta kosti eru deildar meiningar um það, jafnvel þótt hægt væri að fá bómull frá útlöndum í staðinn, að heppilegt sje að skifta á henni til klæðnaðar og góðri íslenskri ull. Minni hlutinn heldur því fram, að ekki hafi verið flutt meira út af íslenskum afurðum en venja hefir verið til, og að engin ástæða sje til að halda, að svo verði. Meiri hlutinn heldur aftur á móti, að mjög mikil hætta sje á því, og byggir þá skoðun sina á þeirri skiljanlegu ástæðu, að innlendu afurðirnar eru í svo óvenjulega háu verði. Minni hl. segir, að kjöt muni verða fáanlegt í landinu við sama verði og bændur fái fyrir það annars staðar. Þetta getur rjett verið. En þó get jeg nefnt dæmi til þess, að íslenskt sauðakjöt hefir ekki verið fáanlegt hjer í Reykjavík, nema fyrir mun hærra verð en það var á sama tíma selt fyrir í Kaupmannahöfn.

Þá fer minni hlutinn inn á annað spursmál, sem líka hefir vakað fyrir meiri hlutanum, að nauðsynlegt geti orðið að takmarka verð á matvælum; kjöt og fiskur geti stigið svo í verði, að það verði gjörómögulegt fyrir fátæklinga að afla sjer þeirrar fæðu. Þar til svarar minni hlutinn því, að það gjöri ekki mjög mikið til, þótt svo verði; vegna þess, að verkkaup manna hafi hækkað svo að þeir geti staðið sig við að kaupa hærra verði. Þessu er því til að svara að þótt lítið sje burtu frá föstum embættismönnum, þá hefir kaup fastra, starfsmanna eða sýslunarmanna landssjóðs eða opinberra stofnana alls ekki hækkað og þótt kaup verkamanna hafi hækkað um 10–15%, þá hrekkur það ekki langt upp í verðhækkun nauðsynjavara, sjerstaklega ef svo reynist, að kjöt hækki um 100% sem menn eru hræddir um að verði. Þá talar minni hlutinn um útflutning á fiski og bendir á það, að Reykjavík geti alt af verið vel birg að fiski, þar sem botnvörpungarnir geti vegna ófriðarins, ekki flutt ísfisk til Englands; það verði því auðvelt að kaupa hann ódýru verði. Satt að segja hjelt jeg, að háttv. þm. N. Þ. (B. S.) væri að minsta kosti svo kunnugur botnvörpuútveg, að hann vissi, að þýðingarlítið var að benda á þetta. Honum ætti að vera kunnugt um það, að það hefir alls ekki svarað kostnaði að veiða fisk til að salta á haustvertíðinni. Þess vegna hafa botnvörpungar »fiskað í ís» og selt ísfiskinn til Englands. En það getur alls ekki borgað sig að fiska á þann hátt fyrir Reykjavík, vegna þess, að markaður hjer er alt of lítill og útgjörðarmenn geta ekki staðið sig við að halda skipunum úti sjer til stórskaða.

Þá finnur minni hl. ekki ástæðu til þess, að hefta á neinn hátt útflutning hrossa, af þeirri ástæðu, að bændur mundu aldrei fækka. hestum sjer til skaða. En það þarf ekki að leita víða um land, til þess að finna þess dæmi, að sum hjeruð hafa fækkað hestum sjer til tjóns, vegna hins háa verðs og stundargróðans — og íslenski hesturinn er svo nauðsynlegur, að án hans getum við ekki verið. Jeg vil undirstrika það, að meiri hlutinn fer hjer að eins fram á varúðarráðstöfun — heimild til stjórnarinnar, til þess að gjöra það, sem kann að verða nauðsynlegt vegna þess ástands, sem getur skapast, vegna Norðurálfuófriðarins. Meiri hlutinn álítur þetta heppilegri aðferð, heldur en að vísa til bráðabirgðalaga. Það er betri regla, að þingið reyni að hafa töglin og hagldirnar um það, sem gjöra þarf, meðan það situr, en það neyðarúrræðislöggjafarvald, sem bráðabirgðalöggjafarvaldið er, og ekki á að grípa til, nema í allra ítrustu nauðsyn.

Jeg skal svo ekki lengja mikið umræðurnar, en vil að eins drepa á það, að mjer virðist það liggja í nefndaráliti minni hlutans, að tillögur meiri hlutana sjeu sprottnar af ástæðulausum ugg Reykvíkinga og annara sjávarkauptúna um, að hjer sje meiri hætta á ferðum en í raun og veru er, og jafnframt, að óskir þeirra stafi af smásmuglegri öfund yfir því, að landbóndinn græði dálítið meira nú en venjulega; nú sje verið að reyna að ná í hans litla hagnað. Þetta er hinn mesti misskilningur. Meiri hlutinn hefir ekki einu sinni viljað fara eins langt og margir aðrir, nefnilega að leggja ófriðarskatt á — skatt á þann hagnað einstaklinga, sem þeir fá af framleiðslu sinni eða starfi, vegna tilviljunar einnar, en ekki fyrir eigin tilverknað. Jeg get fullvissað menn um, að það eina, sem fyrir meiri hlutanum vakir, er, að reyna að tryggja það, að næg matvæli sjeu í landinu, og menn með litlum tekjum þurfi ekki að fara á sveitina eða svelta. Meiri hlutinn væntir þess því, að brtt. 1. og 2. á þgskj. 113 og brtt. á þgskj. 106 verði feldar.

Þá er 3. brtt. á þgskj. 113. Hún fer í þá átt, að fella burtu heimild til stjórnarinnar, til þess að verja því fje úr landssjóði, sem nauðsynlegt sje til framkvæmdar þessara laga. Jeg skil ekki annað en þessi tillaga sje sprottin af einhverjum misskilningi. Það er rangt að leggja stjórninni skyldur á herðar, sem heimtað er af henni að hún ræki vel, og hún verður að rækja vel, ef að gagni á að koma, en leyfa henni ekki að verja neinu fje til þessa. Slíkt er óframkvæmkvæmanlegt. Sjeu menn hræddir um, að stjórnin fari illa með þessa heimild, þá eru alt af til eftirlits með henni 5 menn, sem settir eru til höfuðs henni, kosnir af Alþingi.