30.07.1915
Neðri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Framsm. minni hl. (Þorleifur Jónsson):

Jeg vona, að nefndarálit minni hlutans á þgskj. 123 sje svo skýrt, að ekki þurfi að árjetta það með mörgum orðum. Mjer virtist háttv. framsm. meiri hl. (S. B.) ekki geta hrakið mikið af því, sem í því stendur.

Það, sem meiri og minni hl. greinir aðallega á um í þessu máli, er það, að meiri hlutinn álítur, að nú sje svo hörmulega komið, að nauðsynlegt sje að banna útflutning á aðalafurðum landsins, en minni hl. vill ekki kannast við, að ástandið sje svo geigvænlegt. Á þinginu í fyrra, þegar rætt var um dýrtíðarráðstafanir, og hvað gjöra bæri, til þess að koma í veg fyrir hungursneyð, þá voru samþykt lög, er öllum virtust vera nógu skýr og svo ströng, að þau mættu að haldi koma. Þá var stríðið í byrjun, ófyrirsjáanlegt hvernig fara mundi og því eðlilegt, að mikill geigur væri í mönnum. En nú hefir það þegar staðið í eitt ár, og það hefir sýnt sig, að betur hefir rætst úr en menn bjuggust við, og það er ólíklegt, að meiri hætta sje á ferðum nú en þá var. Það hefir ekki borið á, að nein teppa væri á aðflutningum frá útlöndum. Skipin koma nú hvert eftir annað fullfermd af matvöru og öðrum nauðsynjavörum, sem raunar verður að borga allháu verði, en það mundi ekki heldur lækka, þótt útflutningsbann kæmist á hjer. En ef þingið gefur nú heimild til útflutningabanns, þá eru einmitt líkurnar fyrir því, siglingateppa gæti orðið, því að skipin fengju þá engan farm til útlanda, og með hverju ættum við þá að borga útlendu vöruna? Mjer finst við mega þakka fyrir, meðan við komum afurðum okkar á útlendan markað og getum náð þaðan í þá vöru, sem við þurfum á að halda. En hætti aftur á móti útlend vara að flytjast til landsins, þá er auðvitað sjálfsagt að banna útflutning á íslenskum vörum, að einhverju eða nokkru leyti. Að því leyti viljum við halda okkur við lögin frá í fyrra.

Háttv.framsm. meiri hl. (S. B.) sagði, að erfitt mundi verða að fá kjöt og fisk í vetur. Jeg get ekki skilið að svo verði. Ef einstakir menn eða bæjarfjelög panta vöruna í tíma, þá ætti engin þurð að verða á að fá hana með sama verði og hún selst í útlöndum. En jeg þykist vita, að sú hugsun liggi bak við hjá háttv. þm. (S. B.), að varan verði svo dýr, að mönnum verði ókleift að kaupa hana. Menn halda það nú, að kjöt verði svo dýrt, að það verði ókaupandi. En þótt nú sem stendur sje útlit fyrir hátt verð á því, þá er ekki víst, að svo reynist í haust. Ef Bretar t. d. taka það, sem ekki er ólíklegt, þá mundi: það strax falla í verði. Þeir hafa nú byrjað með ullina, og ekki ólíklegt, að þeir haldi áfram með kjötið. En við það verða öll viðskifti svo hæpin, að verðhækkun hlýtur að eiga sjer stað. Hins vegar finst mjer það ekki sanngjarnt að ætlast til þess, að einmitt kjötið haldist í sama verði og áður, þar sem allar aðrar matvörur hafa stigið. Menn verða að sætta sig við þetta, sem ekki verður hjá komist. Þess ber líka að gæta, að öll vinna og verkakaup hefir stigið að mun, svo mjer finst það beinlínis ósanngjarnt að ætlast til þess, að hægt gje að ákveða af stjórn og velferðarnefnd sama verð á afurðunum og áður.

Jeg get að vísu skilið það, að háttv. þm. Rvk. (S. B.) vilji fá útflutningsbann heimilað, því að mikil áhersla er á það lögð hjer í bæ. Það sjest best á blöðunum, sem alt af eru að tala um dýrtíð, og hvernig forðast megi hungursneyð. Auðvitað liggur á bak við, að bannað verði að flytja út tiltekinn forða af kjöti, og stjórn og verðlagsnefnd leggi svo »hæfilegt« verð á það, sem eftir er. Það er ekki láandi háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) þótt hann láti undan, þessari »pressu«, sem á hann er lögð. Jeg sá nýlega í blaði uppástungu um það, að þingið sjálft bannaði útflutning á íslenskum afurðum; í stað þess að heimila stjórninni að setja slíkt bann. Greinarhöfundur hefir auðsjáanlega verið hræddur um, að stjórnin yrði rög á það, að banna útflutninginn og lækka verðið á íslenskum vörum. Enda þótt jeg treysti því, ef lög þau komast á, sem meiri hl. stingur upp á, að stjórnin mundi vilja reyna að vera sem varkárust í þessu efni, þá er þó hætt við því, að svo verði lagt að henni, að hún sjái sig knúða til að liðka eitthvað til og láta að óskum manna. Einkum er hætt við því, að menn leggi fast að Velferðarnefndinni, sem tómir Reykvíkingar sitja í, og að hún reynist síður föst fyrir, þegar svo hart er að gengið. Auðvitað stafar þetta alt af ótta fyrir því, að menn fái ekki kjöt, nema við afarverði. Jeg skal játa það, að það getur orðið erfitt að afla sjer kjöts; en jeg tel það afar varhugaverða aðferð, að ætla sjer að heimila það með lögum, að banna allan útflutning á því, vegna þess, að bæjarbúar í einni borg eiga erfitt með að kaupa þessa einu vörutegund. Af öðrum vörutegundum hafa þeir nóg. Í sömu blaðagrein og jeg mintist á áðan, er talað um það, að þurrabúðarmenn hjer muni þurfa að svelta, vegna þess, að þeir sjeu ekki færir um að kaupa kjöt sama verði og útlendingar. Það er auðvitað mikið leitt, að menn skuli þurfa að neita sjer um þá fæðutegund. En þetta er ekki nein ný bóla. Jeg hefi ekki heyrt það, að fátæklingar lifðu hjer mikið á kjöti, jafnvel þótt ekki sje ófriður, svo að fyrir þá mundi verðlækkunin ekki hafa mikla þýðingu. Þeir munu mestmegnis lifa á fiski og útlendri matvöru, og fiskinn er alt af hægt að fá hjer auðvitað er hann í háu verði nú, en ekki eins gífurlegu og kjötverðinu. Þetta er þó alt af bót í máli.

En fari nú svo, að bjargarvandræði beri að höndum, þá álít jeg það rjett, að lækka ekki beinlínis vöruverðið, heldur að landið alt hlaupi undir bagga, annaðhvort með því að leggja þenna margumtalaða ófriðarskatt á framleiðendur, og kann ske kaupmenn og aðra, sem hafa grætt á stríðinu, eða með hallærislánum til bæja og sveitafjelaga, eins og átt hefir sjer stað undanfarið. Þótt tillögur meiri hlutans verði samþyktar, þá er ekki þar með loku fyrir það skotið, að hægt sje að rjetta einstaka þorpum, bæjum eða sveitarfjelögum hjálparhönd. Það lítur út fyrir, að allir Reykvíkingar haldi, að menn í sveitum eigi við ákaflega mikla velsæld að búa; það er auðvitað rjett, að þessi verðhækkun á afurðunum hefir mikið að segja, en í fyrsta lagi er ekki hægt að vita, hvort þetta er annað en skyndilegt uppþot, sem ekki stendur lengi, og í öðru lagi ber þess að gæta, að þó að nú í ár sje góðæri víða til sveita, þá er ekki lengra síðan en í fyrra, að megnið af Suðurlandi og talverður hluti af Vesturlandi varð fyrir. stórtjóni á búpeningi. Sennilegast er, að arðurinn í ár gjöri lítið betur en að jafna upp það tjón.

Nú í vor hefir og landbúnaðurinn orðið fyrir allmiklu tjóni sumstaðar. Nýlega hefi jeg t. d. fengið skýrslu úr einum hreppi í minni sýslu, um að þar hafi fallið úr ormaveiki um 1700 fjár, og nemi sá skaði að minsta kosti um 30 þús. kr. í þeim eina hreppi, en íbúar þar eru alls 220. Þetta tjón væri, miðað við fólksfjölda, sama sem ef Reykjavík hefði orðið fyrir 1½ miljónar króna skaða. En þótt íbúar þessa hrepps hafi orðið fyrir þessu tjóni; þá eru þeir ekki að mögla, og má þó geta nærri, að ekki geta þeir lagt mikið í búið af kjöti, og ekki gjöra þeir kröfur til verðlækkunar hjá hin- um, sem selt geta kjöt, nje þess, að stríðs- skattur verði lagður á aðra handa sjer. Auðvitað mál er það, að ef þeir geta ekki sjeð sjer farborða, eru þeir neyddir til að leita til landssjóðs um lán.

Hjer í Reykjavík hafa menn ekki, svo jeg viti, orðið fyrir neinu slíku áfalli. Aðalbjargræðisvegur manna hjer, fiskveiðarnar, hafa gengið með besta móti, og fólk hjeðan streymt nú í aðra hluta landsins til atvinnu með hærra kaupi bæði til sjávar og sveita. Þess vegna virðist ekki svo, sem hjer sje nokkur hætta á ferðum; það er að eins og þessi kvíði með kjötið, sem þó er ekki hægt segja um, hvort hækkar eða lækkar í verði. Þaðan stafar það; að sumir vilja banna útflutning á kjöti og jafnvel útflutning á hrossum og ull. Mjer er nú spurn: Hver þörf er Reykvíkingum á fleiri hrossum en þeir hafa, eða horfir til svo mikillar hrossafækkunar, að skaði sje fyrir landið? Jeg skil það ekki. Eins er um ullina. Ekki býst jeg við, að Reykvíkingar fari að setjast við tóvinnu á meðan nóg vefnaðarvaran fæst í búðunum; með allgóðu verði. Svo að jeg sje að minsta kosti ekki brýna þörf á því, að banna útflutning á þessum afurðum.

Hitt er satt, að þetta dýrtíðarmál er mikið alvörumál, sem á ríður að þing stjórn gjöri sitt besta til að bæta úr. Jeg býst við; að Velferðarnefndin sjái um, að korn verði nóg og sömuleiðis steinolía og kol, til þess að vjelbátar og botnvörpuskip geti stundað veiðar, og þá mun hægt að fá nægan matarforða handa landsmönnum.

Háttv. 1: þm. Reykv. (S. B.) sagði, að ekki þýddi að vísa til botnvörpuskipanna, því að hjerlendis væri ekki nægur markaður fyrir þeirra afla. En jeg býst nú við, að það mundi heyra undir dýrtíðarráðstafanir, að landið borgaði eitthvað fyrir aflann, ef um neyð væri um að ræða.

Auðvitað verður að kippa í taumana og banna útflutning, þegar líkur eru fyrir siglingsteppu hingað. En til þess hefir stjórnin og heimild samkvæmt tillögum okkar.

Því leggjum við áherslu á að þessi brtt. okkar við 3. gr:, verði samþykt. Hina brtt. við 5 gr. leggjum við ekki eins sjerstaklega áherslu á; þótt ekki getum við sjeð, til hvers eigi að verja þessu fje úr landssjóði.

Jeg hefi ekki ástæðu til að fara lengra út í málið. Mjer finst háttv. 1. þm. Reykv. (S. B.) ekki geta hrakið ástæður minni hlutans, og yfirleitt liggur málið svo ljóst fyrir, að jeg ímynda mjer, að allir þingmenn hafi myndað sjer ákveðna skoðun í því.