30.07.1915
Neðri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Jóhann Eyjólfsson:

Það, sem manni verður fyrst fyrir að spyrja um er það, hvort það sje virkilega nauðlegt að gjöra þær ráðstafanir, sem hjer er farið fram á af meiri hluta dýrtíðarnefndarinnar. Því að það, að nú er mikill ófriður í heiminum, er út af fyrir sig ekki nægileg ástæða til að grípa til slíkra örþrifaráða. Það verður að vera sjáanlegt, að styrjöldin hafi þau áhrif á hag vorn, er gjörir slíkar tiltektir rjéttmætar.

Og hvernig horfir þetta við?

Eru menn hræddir við matarvandræði og hungur í öllu landinu?

Eða er það hitt, að menn sjéu hræddir við of hátt verð, svo að einstökum mönnum eða flokkum manna verði óbært að kaupa ýmsar nauðsynjar, svo sem kjöt og fleira og þessum mönnum hljóti því að verða svo erfitt að framfleyta lífinu á komandi tímum, að löggjafarvald og landsstjórn hljóti að skerast í leikinn.

Það eru þá eiginlega tvö atriði, eða tvö tilfelli, sem í mínum augum mynda tvær hliðar á málinu. Önnur hliðin á málinu verður þá sú; hvort líkur sjeu til, að matarforða muni vanta í landinu, fyrst og fremst af því, að innflutningar á útlendum matvælum muni teppast.

Og í öðru lagi, hvort líkur sje til, að innlend matvara svo sem kjöt og slátur og fiskur; muni ekki verða framleitt og fáanlegt, eins og á undanförnum árum

Ef svo væri; að það væri full sönnun, eða að minsta kosti mjög sterkar og ábyggilegar líkur fyrir því, að matvælaskortur muni verða í landinu, þá er það hið eina, sem getur rjettlætt aðra eins neyðarráðstöfun og hjer er um að ræða.

Hin hliðin á málinu er svo þessi: Að vísu eru ekki horfur á neinum skorti á matvælum, hvorki á útlendum og allra síst á innlendum, en það eru líkur til, að ýmsar vörutegundir verði svo dýrar, að mörgum mönnum; jafnvel heilum flokkum og stjettum, verði afar erfitt að kaupa þær, og að þessir menn verði því í meiri eða minni vandræðum og basli með að framfleyta lífinu, og sumir telja svo mikil brögð að þessu, að Alþingi verði að koma til skjalanna.

Jeg held nú reyndar, að ekki sje enn um þá dýrtíð að ræða, að hið opinbera þurfi að fara að gjöra nokkrar ráðstafanir, og skal jeg lítið minnast á það seinna. En þótt svo væri, að hjer sje einhver hætta á ferðum, og jafnvel svo alvarleg, að yfirvöldin og hið opinbera verði að leita einhverra bráðabirgðabjargráða, þá verða þó skiftar skoðanir um það, á hvern hátt slík bjargráð skuli gjörast.

Hjer eru víst þó nokkrir þingmenn, sem álíta það þægilegustu og fyrirhafnarminstu bjargráðin, að bæta kjör þessara illa stöddu manna á beinan kostnað sveitabænda og fiskimanna, þ. e. að gjöra eins konar eignarnám hjá þessum stjettum, og rjetta svo það, sem af þeim er tekið á þann hátt, til annara, er þeir álíta að hafi meiri þörf.

Að leggja útflutningabann á vöru, sem maður vill selja; er að fastsetja eign hans, og því sama sem að taka af honum fje. Viðskiftafrelsi hans er heft eða takmarkað, og hann er að meira eða minna leyti sviftur fjárforráðum. Jeg álít, að með þessu athæfi sje stigið það spor, sem sje alls ekki forsvaranlegt, nema í lífsnauðsyn, en jeg held, að enn sje ekki um svo svartar horfur að tala.

Það eru að vísu margar útlendar vörur nokkuð dýrar og sumar mjög dýrar, en það eru líka sumar útlendar vörur ekkert dýrari en þær hafa oft verið áður, t. a. m. grjón, kaffi o. fl., og það er vafamál, hvort útlend vara hefir stigið hlutfallslega meira en atvinna manna. Annars ættu fátækir menn nú á þessum erfiðu tímum, að leggja áherslu. á það, að kaupa hinar ódýru vörutegundir, bæði útlendar og innlendar, og sneiða hjá öllum kostnaði eins og mögulegt er. Það er fallegri og mennilegri aðferð, en að fara í vasa annara og lifa af þeim.

Jeg finn reyndar, að þetta væri mikið efnahagsspursmál fyrir mig, því að jeg á enga kind og hefi engan útveg, og verð því að kaupa mjög mikið bæði af fiskmeti, kjöti og ull, svo að það væri mjög þægilegt fyrir mig, ef löggjafarvaldið vildi útvega mjer þær vörur með niðursettu verði. En jeg vil samt ekki leggja það til; jeg vil ekki gjöra mig að því lítilmenni, að fylla ask minn með slíkum svitadropum af annara erfiði.

Jeg heyri, að háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) leggur einna mesta áherslu á kjötið og vill hefta útflutning á því, og; að því er mjer skilst, sjá um, að það verði ekki of dýrt. Jeg býst við, að honum þyki kjötið nokkuð gott, og því vilji hann fyrst og fremst reyna að krækja í það. Sá hugsunarháttur virðist annars mjög almennur hjer í Reykjavík og hefir víst gripið marga af háttv. þingmönnum, að það kjötverð, sem bændur eiga von á í haust, sje langt of hátt og þeir (þ. e. framleiðendurnir) eigi ekki að njóta þess, nema að nokkru leyti, þeir verði því að miðla öðrum stjettum landsmanna af þeim gróða með sjer, annað hvort með því, að þeir (kaupstaðamennirnir) fái vöru þeirra keypta fyrir neðan gangverð, eða þá að á hana sje lagður hár stríðsskattur til styrktar bæjarmönnum.

Það er víst skoðun þessara manna, að sveitabóndinn eigi nú við svo glæsileg kjör að búa, að hann geti nú bætt á sínar breiðu herðar talsverðu af þunga þeim, sem nú liggur á meðbræðrum hans við sjávarsíðuna. En vjer megum ekki gleyma því, að það er nú ekki nema eitt ár siðan, að í mörgum hjeruðum landsins var ástand og útlit miklu alvarlegra og ískyggilegra, heldur en það er nú hjer nokkursstaðar í bæjum og kauptúnum. En þrátt fyrir hið bágborna ástand, sem var í sveitunum í fyrra, er mjer ekki kunnugt um, að nokkursstaðar hafi komið fram orð eða tillaga í þá átt, að hlaupa undir bagga og bera eitthvað af þessu tjóni, sem sveitamenn urðu fyrir. Það eina, sem reynt var að gjöra fyrir þessa menn, var að útvega þeim dálítið bráðabirgða hallærislán úr landssjóði fyrir fulla vexti, og er víst mörgum enn í fersku minni, hversu myndarlega og röggsamlega með, það mál var farið.

Jeg held því, að það væri eitthvað það allra ósanngjarnasta, sem gjört yrði, ef þrengt væri á einhvern hátt kjörum þessara manna, eða gjört nokkuð það, sem gæti tálmað eða tafið fyrir viðreisn þeirra á hinu stórkostlega fjártjóni þeirra á síðasta ári.

Svo er líka á það að líta, að það er alls ekki of hátt verð á kjöti, þótt það skyldi verða á 50 aura pundið. Hjer ætti sjálfsagt aldrei að vera lægra verð á því en það. Það mundi vera kallað ódýrt kjöt annarastaðar í álfunni. Eða hví ættu bændur á Íslandi ekki að fá eins mikið fyrir þessa vöru og bændur í nálægum löndum? Ekki er það alment álitið, að þetta land sje svo mikið frjósamara og gæðasamara en önnur lönd, að hjer sje hægt að framleiða fjenað og foldargróða með minna kostnaði en annarsstaðar. Það er líka alstaðar talinn stór þjóðarhagur, að þær vörur sjeu í háu verði, sem mikið eru til útflutnings hafðar, og hví skyldi það þá ekki vera hjer svo líka? Það mun ekki vera yfirleitt mikið verri atvinna í kaupstöðum á Íslandi en víða annars staðar og á einn og ýmsan hátt ekki dýrara að lifa, svo að bæjarmenn hjer ættu að geta lifað á kjöti eins og annarstaðar, en það mun nú yfirleitt vera vanalegt, að fátækir kaupstaðamenn lifa litið á kjöti, jafnvel fátækari sveitabændur verða líka að neita sjer um það að miklum leyti.

Jeg verð því að álíta af þeim ástæðum, sem hjer eru nefndar, að vegna hina háa verðs, sem nú er á útlendum og innlendum vörum, þá geti ekki komið til mála að hefta útflutning á íslensk. um vörum eða á nokkurn hátt binda eða þvinga frjálst viðskiftalíf, hvorki út á við nje inn á við. Það er að eins ef innflutningur á útlendum matvælum stöðvast, að jeg þá álít leyfilegt að grípa til þeirra neyðarúrræða, enda trúlegt, að þá um leið verði útflutningur af sjálfu sjer teptur:

Háttv. framsögum. meiri hl. (S. B.) sagði, að það væri svo ískyggilegar horfur vegna dýrtíðarinnar, bæði í Reykjavík og öðrum kauptúnum, að það yrði að gjöra eitthvað til að hjálpa þeim mönnum. Það væri of seint að byrgja brunninn, þegar barnið væri dottið í hann. Það er ótrúlegt, að ekki sjeu til fegri og mennilegri bjargráð að grípa til en að ræna einstaka menn arði af afla sínum og sletta honum í svanginn á þessum þurfamönnum og í ýmsa aðra menn, sem ekkert hafa til þess unnið.

Það væri betur viðeigandi af háttv. þm. Rvíkur ásamt bæjarstjórninni, að reyna að bjargast af sjálfsdáðum, að reyna á eigin spítur að sjá sínu eigin hjeraði borgið, og sýnist mjer ekki betur en að þeir ættu að hafa nóg ráð til þess.

Þeir gætu t. d. leigt 1, 2 eða 3 botnvörpunga til að afla fiskjar handa bænum og selt hann svo ódýrt, sem þeim sýndist, án þess að hugsa um að hafa . ábata af því fyrirtæki, og þeir gætu líka pantað svo mikið sem þeim sýndist af útlendu bjargræði á meðan tími er til og átt það fyrirliggjandi, hvað sem fyrir kann að koma. Einnig gætu þeir keypt svo mikið sem þeir vildu af kjöti í haust og haft það handa bæjarmönnum í vetur, auðvitað með fullu verði, og þannig ætti hvert kauptún og hvert hjerað að bjarga sjálft sínum eigin málum, og jeg myndi vilja styðja að því, að landssjóður hjálpaði þar að einhverju leyti til bráðabirgða. Það hefði sjálfsagt oft verið þörf á því, að birgja ýms hjeruð á landinu upp með nægilegum bjargarforða, sökum þeirrar áhættu, að innflutningur gæti tepst. En það eru þau hjeruð, sem hafísinn segir stundum stríð á hendur og bannar aðflutninga að ströndum þeirra, en þó veit jeg ekki til, að þing eða stjórn hafi nokkurn tíma gjört ráðstafanir vegna þessarar áhættu. Þessum hjeruðum hefir verið lofað að sjá um sig sjálf.

Jeg heyri að þeim kemur saman um það, háttv. framsögum meiri og minni hluta, að ráðherra muni fara varlega með þessa heimild, og ekki nota hana nema honum virðist full þörf. En alt af verður skoðanamunur um það, hvað sje full þörf.

Mjer fer nú líkt og manni, sem stendur í bardaga í erfiðri og ískyggilegri aðstöðu, og sem skipað er eða boðið að leggja af sjer vopn og verjur og sagt, að þá muni hann frið og grið hafa, en um annað fær hann engin fyrirheit; og þótt hann að vísu trúi því, að þetta kunni satt að reynast, þá er honum þó samt mjög óljúft að verða að ganga að þessum kostum; vildi heldur mega hafa vopnið í sinni eigin hendi.

Jeg lít nú svo á, að þrátt fyrir það þó að jeg að vísu gjöri mjer von um, að stjórnin muni ekki beita harðneskjulega þessu valdi sínu í þessu falli, þá get jeg þó ekki verið alveg óttalaus um, að svo kunni að verða, sjerstaklega þegar jeg lít á, hvað sterkur áhrifastraumurinn er hjer í Reykjavík. Jeg vil því ekki að þessi heimildarlög sjeu samþykt svona fyrirvaralaust, og vil ekki að þjóðin standi uppi vopnlaus og verjulaus gagnvart stjórninni, hvað sem í skerst.