30.07.1915
Neðri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Bjarni Jónsson :

Út af 2. málsgr. 3. gr. ætla jeg að gjöra þá almennu athugasemd, að það er ekki tilgangurinn, að heimilt sje að leggja lag á vörur, er lægra nemi en markaðsverð, því að það er sú eina rjetta regla, hvort sem vörur eru seldar landsmönnum eða öðrum. Jeg tel sjálfsagt að verja landsmenn fyrir of háu verðlagi, eins og gjört var í fornöld. En hitt tel jeg rangt, að leggja verðlag á það, sem selt er útlendingum; oss ber engin skylda til að verja þá, enda væri það og skemd á verslun landsins. En jeg er ekki hræddur um, að stjórnin misbeiti heimildinni. Bóndinn, sem kjötið á, og fiskimaðurinn, sem aflann á, eiga kröfu til þess, að fá ekki minna fyrir afla sinn en þeir geta fengið á útlendum markaði, því að ella væri að ræða um skatt á einstökum mönnum. Þótt það happ hendi bændur, að afurðir þeirra komist, í hátt verð í ár, þá muna menn það, að báglega fór víða í fyrra með tjóni bænda og felli sumstaðar. Úr því að bændur verða að bera óhöpp sín sjálfir, hví mega þeir þá ekki njóta happanna? Slíkur stríðsskattur mundi horfa öfugt við. Þaðan er sprottið þetta hnittiorð: Hví þá ekki að leggja skatt á horskrokkana frá í fyrra og hafísinn í ár. Því að þess ber að gæta, að nú er ekkert veltiár? bæði ís fyrir landi og grasbrestur.

En hitt er fullkomlega rjett, að öll ástæða er til þess fyrir þing og stjórn, að líta einnig á hag þeirra, sem enga framleiðslu hafa, lifa á daglegri vinnu sinni eða kauptekjum, eins og flestir kaupstaðarmenn, þegar öll varan stígur svo, að ein króna gildir nú 62 aura, eftir því sem hagglöggur maður hefir skýrt mjer frá.

Mjer finst, að bjargráðin ættu að verða með þeim hætti, að landsstjórnin setji það verð á vöruna, sem henni finst sanngjarnt, en þó má framleiðandinn ekki bíða neinn halla við það, og því , verður landssjóður að greiða þann mismun, sem er á því verði, er landstjórnin setur á vöruna, og því, sem fyrir hana fæst í útlöndum. Þetta finst mjer vera mjög, sanngjarnt; með þessari tilhögun bera allar stjettir landsins jafnt þær byrðar, sem af þessu leiðir; verði aftur samþyktar tillögur háttvirta meiri-hluta nefndarinnar, þá lendir allur skatturinn á framleiðendum í landinu. Jeg vil sjerstaklega beina þessum athugasemdum mínum til stjórnarinnar, og vona fastlega, að hún taki þær til greina.

Hvað atkvæði mínu í þessu máli við- víkur, þá skal jeg lýsa yfir því, að jeg mun greiða atkvæði með brtt. minnihluta nefndarinnar. Því jeg lít svo á, að stjórnin þurfi ekki heimild til frekara en þar er ráð fyrir gjört.

Jeg ætla, áður en jeg lýk máli mínu, að koma með eina athugasemd, sem þó beinlínis snertir ekki það mál, sem hjer er nú á dagskrá. Það sýnist vera orðin tíska hjer í þinginu, að beygja skakt hluttaksorð nútíðar af íslenskum sögnum. T. d. stendur hjer í nefndarálitinu á þgskj. 120 framleiðendum fyrir framleiðöndum. Það má ekki minna vera, finst mjer, en að sjálft Alþingi sjái móðurmálið okkar í friði og spilli því ekki. Jeg skal ef vill flytja frumvarp um það efni! Jeg vil geta þess, að enginn má skilja orð mín svo, sem jeg beini þessu sjerstaklega til þessarar nefndar. Þessi nefnd er ekki í þessu efni sekari en aðrar nefndir í þinginu.