30.07.1915
Neðri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Framsögum. meiri hl. (Sveinn Björnsson) :

Mjer virtist það koma fram í ræðu háttv. framsm. minni hluta nefndarinnar. (Þ. J.), að það, sem hjer væri um að ræða, væri aðallega stríð á milli Reykjavíkur annars vegar og landbænda hins vegar. Þessi sama skoðun er mjer sagt, að hafi komið fram í ræðu háttv. þm. Mýra. (J. E.). Því miður heyrði jeg ekki nema lítið eitt af því, sem hann sagði, þar á meðal misti jeg víst af að hlusta á mestu kjarnyrðin.

Það, sem mjer virtist háttv. framsm. minni hl. (Þ. J.) leggja mesta áherslu á í ræðu sinni, var það, að nú þyrftu Reykvíkingar að kaupa háu verði sínar vörur, og því fyndist þeim hentugt að fara niður í vasa landbóndana og sækja þangað þau auðæfi, sem þeir þyrftu á að halda, og bæta með þeim þann mismun, sem verður við það, að vörur eru nú dýrari en þær voru áður en stríðið byrjaði. Háttv. framsögum. minni hlutans hjelt því einnig fram, að

nú væri ekkert neyðarástand og því væri óþarft að samþykkja tillögur meiri hlutans í þessa máli. Hjer er ekki um það að ræða, að banna þegar í stað útflutning á allri innlendri matvöru. Hjer er einungis að ræða um það, að stjórnin hafi heimild til að gjöra slíkt, ef voða bæri að höndum. Eins og nú standa sakir, dettur engum í hug, að fara að banna útflutning á ull og kjöti, en það er alveg ómögulegt að vita neitt um, hvernig ástandið verður eftir þrjá, fjóra eða fimm mánuði eða misseri. Þetta er eingöngu gjört af forsjálni. Háttv. framsm. minni hlutans sagði, að tímarnir nú væru ekkert ískyggilegri en í fyrra. Það getur nú verið álitamál. Jeg skal t. d. benda á það, að síðan í fyrra hafa orðið ýmsir örðugleikar með viðskifti og siglingar, sem engum datt þá í hug að yrðu eða gætu komið fyrir, og það er álit margra, að þegar bardagaþjóðunum alái fyrir alvöru saman í sjóorustu í Norðursjónum, þá verði ómögulegt líklega um langan tíma að sigla um hann. Og hvert eigum við þá að senda skip? Jeg býst við, að mjer verði svarað því sama og háttv. frsm. minni hlutans sagði áðan, að þá sendum við skip til Ameríku, en jeg vil spyrja: Hvar er tryggingin fyrir því, að við þá eigum nokkur skip, sem við getum notað? Það getur komið fyrir, að skip okkar verði þá fyrir austan Norðursjó, og hvert eiga þau þá að sigla? Með öðrum orðum, það er ekki útilokað, að matvöruflutningur til landsins teppist, og því álítur meiri hluti nefndarinnar óforsvaranlegt, að heimila ekki stjórninni, að viðhafa þau ráð, sem duga, til að girða fyrir það, að við verðum matarlausir. En jeg vil spyrja háttv. minni hluta að því, hvar hann haldi að við stöndum, þegar flutningar teppast til landsins. Að hverju gagni koma þá tillögur hans, þegar stjórnin hefir ekki mátt til að girða fyrir það, að alt ætilegt yrði flutt út úr landinu? Jeg býst ekki við, að háttv. minni hl. svari mjer við þessari spurningu. Nei, hann heldur einungis því fram, að þetta sje ekki annað en tilraun hjá mjer til þess, að Reykvíkingar geti laumað hendinni ofan í vasa landbóndans.

Háttv. framsm. minni hlutans (Þ. J.) ljet þá glósu fylgja með í ræðu sinni, að landbændurnir fengju að bera sínar byrðar einir, þegar eitthvað á bjátaði fyrir þeim. Ekki hlypu Reykvíkingar þá undir baggann. Vegna þessa get jeg ekki stilt mig um að taka það fram, að þótt sí og æ sje stagast á því, að Reykjavík sje baggi á landinu, þá er það þó svo fjarri sanni, að það er einmitt Reykjavík, sem ber mestar byrðar landssjóðs, greiðir mest í landssjóðinn. Það er Reykjavík, sem tekur við ómögum af öðrum sveitum og elur þá hjer árum saman, og það oft fjölda manns. Það er Reykjavík, sem veitir móttöku sjúklingum og veitir þeim hjúkrun og lækningu. Jeg tek þetta ekki fram til þess, að níða önnur hjeruð, en jeg gat ekki stilt mig um að benda á þetta, þegar sífelt hvín um salinn þetta söngl um að Reykjavík sjé baggi á landinu o. s. frv.

Það er ekki hægt að fullyrða um það, hve nær stjórnin þyrfti að grípa til að nota þessi heimildarlög, sem við leggjum til að verði samþykt, en að sjálfsögðu yrði í því efni mjög farið eftir tillögum velferðarnefndarinnar, og yrði þá hún og stjórnin að útkljá það mál, hve nær þeim sýndist þurfa að grípa til þessa úrræðis. Jeg gjöri ekki ráð fyrir, að það yrði gjört fyrr en brýn þörf væri á því. Og þótt örlítið yrði fært niður verðið á innlendu vörunni frá því, sem fengist fyrir hana í útlöndum, þá býst jeg ekki við, að það yrði svo mjög mikið, sem munaði um það. Það er ekki mikill hluti af öllu kjöti, sem flytst til bæjarins, sem Reykvíkingar þurfa; hitt, sem yrði mestur hlutinn, yrði vitanlega flutt út.

Háttv. framsm. minni hlutana (Þ. J.) gat um það í ræðu sinni, að við værum »pressaðir« af kjósendum okkar, og við hlypum eftir öllu voli úr þeim. Jeg tek mjer það ekki nærri, þótt slíkum hnútum sje beint til mín. Jeg álít það ekki annað en sjálfsagða forsjálni, að fara eftir tillögum meiri hluta nefndarinnar, og jeg tel mjer það ekki neina vansæmd að fylgja því fram, sem jeg, óþvingaður af öllum, er persónulega sannfærður um, að sje sjálfsögð fyrirhyggja.

Jeg vil leyfa mjer að benda háttv. andmælendum mínum á það, að það er ekkert annað en forsjálni Þjóðverja sem hefir gjört það að verkum, að þeir standa sig svo vel í ófriðnum, sem raun er á orðin. Þeir höfðu búið sig undir ófriðinn árum saman, en ekki geymt alt þangað til í óefni var komið, og því eru þeir nú allbirgir heima fyrir og geta staðið á móti fjandmönnum sínum. Við eigum ekki í ófriði við neina þjóð, en samt mundi það ekki skaða okkur, að fara að dæmi Þjóðverja og byrgja brunninn áður en barnið er dottið í hann.

Jeg skal nú ekki fjölyrða frekara um þetta mál, en jeg vildi leyfa mjer að óska eftir því, að við atkvæðagreiðslu um málið yrði haft nafnakall um brtt. á þgskj. 113.