30.07.1915
Neðri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Ráðherra :

Jeg skal leyfa mjer að fara fáeinum orðum um brtt. þær, sem fram hafa komið við frv. á þgskj. 88.

Það er þá fyrst brtt. á þgskj. 102. Hún er í raun rjettri mjög lítilfjörleg að efni. Það er að eins farið fram á, að bæta inn orðinu »brýn«, svo það er að nokkru leyti sama, hvort hún verður samþykt eða ekki. Um það, hvort þörfin sje brýn eða ekki, dæmir velferðarneindin og stjórnin á sínum tíma, og jeg hygg, að það sje fullkominn óþarfi, að vera að »brýna« stjórnina í þessu efni; hún mun varla grípa til þessarar heimildar, nema hún álíti fulla þörf á því.

Það hefir mikið verið talað um brtt. á þgskj. l06 og 113. Brtt. á þgskj. 106 hefir víst verið tekin aftur, svo að þá koma að eins til álita brtt. á þgskj. 113. Það, að minni hluti dýrtíðarnefndarinnar vill takmarka heimild til að banna útflutning á íslenskum afurðum, byggist á hræðslu við það, að sú heimild yrði óheppilega notuð. En það vill nú svo til, að stjórnin verður ekki ein í ráðum. Samkvæmt 1, gr. frumv. er í ráði að kjósa fimm manna nefnd stjórninni til ráðuneytis. Í tíð háttv. fyrirrennara míns (S. E:) var það venja stjórnarinnar, að fara jafnan að ráðum velferðarnefndarinnar, og eins hefir það verið síðan jeg tók við. Jeg þekki enga undantekningu frá því, að svo hafi verið.

Í breytingartillögunni er farið fram á, að bannið nái að eins til íslenskra matvæla, en ekki til lifandi hesta, lifandi sauðfjár, ullar o. þ. h. Jeg legg ekki mikið upp úr þessu, því að í haust, þegar lögin koma væntanlega til framkvæmda, verður búið að flytja út alla þá ull, sem flutt verður út á þessu ári, og sömuleiðis lifandi hross. Þetta bann gæti því ekki komið til greina í haust, og yrði þá ekki fyr en á næsta ári, sem um slíkt gæti verið að ræða.

Einhver háttv. þingm. tók það fram, að það væri ekki ástæða til að ætla, að íslenskir bændur væru svo grannvitrir, að þeir myndu farga ofmiklu af bústofni sínum, t. d. hestum. Jeg vil ekki segja neitt öfugt orð í garð bændastjettarinnar, en það er kunnugt, að í öðrum löndum, þar sem upplýsing alþýðu er talin vera í góðu lagi, hefir þótt ástæða til að banna útflutning á hrossum. Svo er það t. d. í Danmörku. Vegna þess geypiverðs, sem Þjóðverjar buðu í hesta í fyrra, hafa Danir selt þeim ofmikið, svo að nú er hrossaekla þar í landi. Það hefir aftur gjört það að verkum, að að nú kaupa Danir hesta háu verði af oss Íslendingum. Jeg get vel hugsað mjer, að gífurlega hátt verð einnar vörutegundar, t. d. hrossa, freisti manna til að selja ofmikið. (Þorleifur Jónsson: Það er betra en að fella þau úr fóðraskorti). Það er betra en að fella þau úr fóðraskorti, segir háttv. þingmaður. Það er auðvitað rjett; en hvaðan kemur honum sú viska, að hætta sje nú á því, að hross verði feld úr fóðraskorti? Jeg veit ekki til, að það sje siðvenja í meðalári nú orðið.

Samkvæmt 1. brtt. á þgskj. 113 á bannið að eins að ná til matmæla, en takmarkað við það eitt, að aðflutningur til landsins af útlendum matvælum heftist, svo að til voða horfi fyrir landsmenn.

Það hefir rjettilega verið tekið fram, að þetta bann gæti ekki komið að tilætluðum notum, því að það er ætlast til, að ekki megi banna útflutning, fyrr en aðflutningur til landsins heftist, en það gæti borið að þá og þegar. Það myndi venjulega ekki vera hægt að fá ábyggilega vissu um það löngu fyrir fram, og sennilega ekki fyrr en aðflutningateppan dytti á.

Það var rjett dæmi, sem háttv. 1. þm. Rvk (S. B.) kom með áðan, þegar hann benti á, að í sláturtíðinni í haust, í október og nóvember, yrði meginið af því kjöti, sem til fjelli í landinu, flutt út eða gjörðir kaupsamningar um það, en svo gætu aðflutningar til landsins tepst í desember. Þá dygði ekki að banna útflutning á þeirri vöru, sem þegar er flutt út úr landinu. Það lifir enginn hjer á þeirri vöru úr því. Þetta er því alveg sama sem að skipa manni að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið í hann.

Í 2. brtt. á þgskj. 113 er farið fram á, að 3. málsgr. 3. gr. frumv. falli burtu. Það getur verið, að ekkert sje á móti því, ef 1. brtt. verður samþykt. En jeg á bágt með að skilja hvers vegna 3. brtt. er fram komin. Ef það er tilætlunin, að stjórnin megi alls ekki verja fje landssjóðs til að gjöra ráðstafanir til þess, sem lögin heimila henni, þá eru lögin óþörf og með öllu ómöguleg í framkvæmdinni. Það verður ómögulegt að hafa neinar framkvæmdir á hendi í þessu efni, án þess, að mega verja til þess einhverju fje. Það verður t, d. oft að senda símskeyti, og hvaðan á þá að taka þann kostnað? Ef hitt er ætlunin, að stjórninni sje heimilt að verja af fje landssjóðs nægilegu, til þess að standa straum af kostnaði við ráðstafanirnar, þá er bein mótsögn í því, að koma með þessa brtt. En ef brtt. yrði samþykt, dytti manni strax í hug, að álykta andstætt, að þingið vildi banna stjórninni að verja nokkru fje í þessu skyni. Jeg kysi helst, að háttv. minni hluti vildi taka þessa tillögu aftur. Annars er nú, ef litið er á málið frá öðru sjónarmiði, ekki afskaplega mikið í hættu, þótt stjórninni verði heimilað, auðvitað með ráði Velferðarnefndarinnar, að leggja slíkt útflutningsbann á, vegna þess, að það yrði alt af mjög lítill hluti þess kjöts, sem til fellur í landinu, sem komið gæti til mála að banna að flytja út. Samkvæmt verslunarskýrslum fyrir árið 1912, voru það ár flutt út 2,407,300 kg. af kjöti. Það hefir mikið verið talað um þarfir Reykjavíkur í sambandi við þetta, en á sama tíma, 1912, voru 199,300 kg. af kjöti flutt út frá Reykjavík, eða því sem næst 1/12 partur alls útflutts kjöts frá landinu. Jeg get hugsað mjer, að líkt sje ástatt í öðrum kaupstöðum landsins, t. d. Akureyri, Ísafirði og Seyðisfirði. Þar er fólkið miklu færra en í Reykjavík, svo að það gæti aldrei orðið stórmikið, sem til mála kæmi að banna að flytja út þaðan í samanburði við allan kjötútflutning landsins. Það er ekki ástæða til að mála þetta of svart. Það getur aldrei orðið nema örlítill hluti kjötsins, sem bannað yrði að flytja út.

Jeg get ekki skilið, að það sje ástæða til að bera kvíðboga fyrir, að Velferðarnefndin og stjórnin íþyngi verslun landsins meira en brýn nauðsyn krefur.

Menn segja, að ástandið í landinu sje ekki svo ískyggilegt nú, að ástæða sje til að veita stjórninni heimild til slíka banns, sem um ræðir í frumv. Það er líka rjett, eins og stendur, ná í augnablikinu. En við verðum að gæta þess, að við erum að setja lög, sem eiga að gilda meðan styrjöldin stendur yfir, og það getur vel verið, að hún standi til næsta reglulegs Alþingis, eða hver veit hvað. Jeg veit vel, að háttv. minni hluti og hans fylgismenn eru að reyna að koma lögunum í það horf, sem þau komust í í fyrra að þessu leyti. En þess ber að gæta, að það sem gjört var í fyrra, var gjört í flaustri og af mikilli hræðslu. Extrema se tangunt, segir latínumálshátturinn. Ein hræðsla fæðir aðra af sjer. Hræðslan í fyrra um matvælaskort fæddi af sjer gagnstæða hræðslu um að farið yrði of langt í að banna útflutning matvæla úr landinu. Þó að menn kalli þetta óþarfa hræðslu hjer, þá er sá ótti ekki álitinn ástæðulaus annarstaðar. Í Noregi hefir t. d. verið bannað að flytja út kjöt, nema stjórnin leyfi það í hverju einstöku tilfelli. Í vor voru flutt út 400 sauðarföll, að mig minnir, og olli það töluverðu uppþoti. Þótti mönnum stjórnin hafa gengið alt of langt, að leyfa svo mikinn útflutning. Í Danmörku hefir verið bannaður útflutningur hrossa, eins og jeg mintist á áðan, vegna þess, að bændur og búalið hafa selt of mikið. Það er og kunnugt, að þar í landi er að nokkru leyti sama máli að gegna um flesk sem um kjöt hjer. Þó var því afstýrt, að útflutningur þess væri bannaður með öllu, gegn því, að samvinnusláturfjelögin eða »Andels-Slagterierne« skuldbundu sig til að láta af hendi nægilegt flesk til neytslu í landinu.

Ef t. d. Sláturfjelag Suðurlands vildi gjöra hið sama hjer, þá væri öðru máli að gegna, og eins ef hægt væri að komast að sams konar samningum við sláturfjelög annarstaðar á landinu og kaupmenn, sem kaupa kjöt. Jeg skal ekki fullyrða neitt um það, hvort hægt sje að komast að slíku samkomulagi, en það ætti ekki að vera fyrir fram ómögulegt. Ef það reyndist fært, þá er bannið óþarft. (Þorleifur Jónsson: En eignarnámsheimildin?) Jeg held að ekki myndi hægt að nota, eignarnámaheimild fyrr en búið væri að banna útflutning og einhverjir framleiðendur sætu inni með birgðir, sem þeir neituðu að láta af hendi.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) tók nokkuð stór orð í munninn út af því skaðræði fyrir verslun landsmanna, sem af því gæti hlotist, ef þingið stuðlaði að siglingateppu milli landa, með því að leggja bann við útflutningi íslenskra afurða. En það var alt gjörsamlega rangt, sem háttv. þingmaður sagði um þetta, því það gæti aldrei komið til mála, að banna útflutning íslenskra afurða, nema að örlitlu leyti í samanburði við alla framleiðsluna. (Jóhann Eyjólfsson: Hvar eru takmörkin?) Hvar eru takmörkin, spyr þingmaðurinn. Það er á valdi Velferðarnefndarinnar og stjórnarinnar, að ákveða þau, og jeg verð að álíta, að stjórninni hjer sje ekki síður treystandi til að ráða fram úr því, heldur en stjórnum annara landa hjá sjer. Nú standa yfir óvenjulegir tímar, og það verða menn að taka til greina. Menn segja, að það muni ekki verða erfitt að fá íslenska vöru í haust. Það getur vel verið að svo fari, en þá er heldur ekki þörf á banninu, ef enginn hörgull er á vörunni í landinu.

Þá sagði háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), að það gæti komið fyrir, að kjöt yrði tekið á leiðinni út, og myndi það valda verðfalli á kjöti og koma því til leiðar, að ekki yrði flutt út eins mikið kjöt og ella. Þetta er líka vel hugsanlegt, en það leiðir til hins sama og áður. Þá væri ekki lengur þörf á banninu. Og jeg get ekki sjeð, að framleiðendurnir gætu haft neitt á móti því, ef þeir fengju sama verð fyrir sína vöru. Svo hefir háttv. minni hluti dýrtíðarnefndarinnar sagt sem svo, að ef til þess kæmi, að vöntun yrði á þessari íslensku vöru til neytslu á einhverjum stað, þá gæti landið hlaupið undir bagga.

Jeg veit ekki hvernig landið ætti að fara að hlaupa undir bagga, áður en útsjeð er um, að aðflutningar teptust.

Ef aðflutningar teptust áður en til vöntunar kæmi á íslenskri vöru, hvernig ætti landið þá að bjarga? (Þorleifur Jónsson: Þetta höfum við búið við í eitt ár). Við höfum ekki búið við það í eitt ár, að ekki væri hægt að fá íslenska vöru til neytslu í landinu, en það er talað um, að svo gæti farið eftirleiðis. Ef til þess kæmi, og öll okkur vara væri áður flutt út, þá dugar ekki að tala um hallærislán, því að þótt nóg væri af seðlum og gulli í landinu, þá kæmi það að litlu haldi, ef matvaran væri farin og ekkert eftir skilið, því að gull og seðla etum við ekki.

Svo var háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) að tala um, að fjenaði hefði fækkað mjög í sínum hreppi. (Þorleifur Jónsson: Það var ekki í mínum hreppi). Þá var það í einhverjum hreppi í kjördæmi þm. En þetta getur ekki snert þann hrepp neitt, úr því að þaðan er farið svo mikið af fje. Útflutningsbannið gæti því ekki komið hart niður á honum sjerstaklega. Sama máli var að gegna hjá háttv. þingmanni um útflutning hrossa. Þar var hjá honum sama stefnan, eins og með kjötið og fiskinn. Hann vildi ekki láta banna útflutning hrossa, fyrr en sýnt væri fram á, að hrossaekla væri í landinu, eða með öðrum orðum, ekki setja undir lekann, fyrr en það væri víst, að það væri um seinan. Allar brtt. háttv. minni .hluta á þgskj. 113 byggjast á hræðslu við að heimildin myndi verða brúkuð óþarflega hörkulega. Jeg get ekki skilið, að háttv. minni hluti hafi ástæðu til að vera mjög hræddur við það. Hingað til er óhætt að segja, að stjórnin hafi ekki farið of hart í sakirnar í ráðstöfunum sínum út af styrjöldinni. (Þorleifur Jónsson: En blöðin?) Blöðin ráða engu um það, hverjar ráðstafanir verða gjörðar.

Það hefir verið talað um, að þetta væri sjerstaklega gjört fyrir Reykjavík. Má vel vera, að Reykjavík hefði gott af því, en jeg hygg að líkt sje ástatt um aðra kaupstaði landsins, svo sem Hafnarfjörð, og ekki ósvipað um Vestmannaeyjar, jafnvel Eyrarbakka og Stokkseyri. Enn fremur snertir það ekki síður hina stærri kaupstaði landsins, Akureyri, Ísafjörð og Seyðisfjörð. Enn má nefna aðra Austfirði, t. d. Eskifjörð og Fáskrúðsfjörð og ef til vill fleiri. Það er að vísu satt, að fólksfjöldinn er langmestur í Reykjavík, og er að því leyti eðlilegt, að mönnum detti Reykjavík fyrst í hug.

Mjer virtist það vera niðurstaðan hjá háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), að það væri yfirleitt einkennilegt, að vera að gefa heimild til útflutningsbanns hjer á landi. Jeg skil ekki, hvers vegna það er einkennilegra á þessu landi heldur en í öðrum hlutlausum löndum. Nú er stjórnum flestra landa gefin slík heimild, og jeg veit ekki, í hverju það getur legið, að það sje sjerstaklega einkennilegt hjer.