03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Sigurður Eggerz:

Þetta mál, sem hjer liggur fyrir, er sjálfsagt eitt af mestu vandamálum, sem þingið hefir til meðferðar.

Aðalágreiningurinn er um það, hvort veita skuli stjórninni þrengri eða rýmri heimild til að hefta útflutning innlendra matvæla. Meiri hluti nefndar þeirrar, sem um málið hefir fjallað, vill veita stjórninni mjög víðtæka heimild í þessa átt, þannig að stjórnin getur bannað útflutning, ef henni sýnist verulega ástæða til þess; minni hlutinn bindur þessa heimild við að aðflutningur til landsins teppist.

Hæstv. ráðherra hefir tekið fram, að hann áliti tillögur minni hlutans í þessu efni þýðingarlausar, því að þau takmörk, sem sett eru fyrir heimildinni, sjeu svo þröng, að bersýnilegt sje, að heimildin verði ekki notuð fyrr en alt sje um seinan, því ef útflutningurinn verði ekki bannaður nú í sláturtíðinni, þá sje kjötið farið, úr landinu.

Af þessum orðum hæstv. ráðherra, dreg jeg þá ályktun, að hann ætli sjer að nota heimildina, ef hún fæst, til þess að banna útflutning á íslenskum vörum, meðan á sláturtíðinni stendur.

En væri það nú heppilegt, að hefta útflutninginn? Við athugun þessa spursmála, vil jeg reyna að líta á málið, ekki með Reykjavíkuraugum og ekki heldur með sveitamannaaugum, — jeg vil reyna að líta á það með heill alls landsins fyrir augum.

Það er öllum ljóst, að verðhækkun sú, sem vegna stríðsins hefir orðið á útlendu vörunni, nemur allmiklu. Þessi verðhækkun er vitanlega tap, sem landið í heild sinni hefir orðið fyrir. Hins vegar hefir verðhækkun á innlendu vörunni orðið til mikils hagnaðar fyrir landið. Og jeg hygg, að verðhækkunin á innlendu vörunum nemi margfalt meiru til hagnaðar fyrir landið, heldur en tap ið, sem hlýst af verðhækkun útlendu vörunnar.

Ef útflutningur þeirrar vöru, sem vjer græðum á, yrði teptur, er það sýnilegt, að sú ráðstöfun væri frá fjárhagslegu sjónarmiði óheppileg.

Það er því mín skoðun, að það væri mjög athugaverð ráðstöfun, að hefta útflutning á íslenskum matvörum, meðan annars er kostur. Jeg held því, að það sje hárrjett, sem minni hlutinn segir, að nauðsynlegt sje að setja þau takmörk fyrir heimildinni.

Þótt jeg mæli svo, þá dylst mjer það samt ekki, að bæjarmenn verða hjer á landi langharðast úti, vegna stríðsins, og það er því ekki nema eðlilegt, að þeir gangi með þungum hug gegn vetrinum, og það er ekki nema ofur eðlilegt, að þeir fylgi með áhuga öllu, sem þingið gjörir í þessu máli. En ef satt skal segja, þá býst jeg við, jafnvel þó útflutningur á kjöti yrði bannaður að nokkru leyti, að verð á kjötinu mundi reynast svo hátt, að þeir, sem fátæktin kreppir mest að, mundu ekki njóta mikils góðs af kjötbanninu, því þeir mundu ekki hafa ráð á að kaupa það. Þessar dýrtíðarráðstafanir, sem meiri hlutinn vill gjöra, yrðu því ekki til annars en að efnamennirnir gætu fremur fengið keypt kjöt, en þeir fátækari engu fremur en áður.

En um leið og horfið er frá því ráði, að hefta útflutning þeirra matvæla, sem landið græðir á, þá er sýnilegt, að hins vegar verður að gjöra eitthvað til að tryggja það, að nægur matarforði verði til í landinu. Og í því efni væri ekki úr vegi að fara að reynslu annara hlutlausra þjóða. En þær leggja mesta áherslu á að korntryggja sig. Nú á landið 600 þús. kr. í Ameríku, sem þangað voru fluttar í minni stjórnartíð, einmitt í því skyni, að til þeirra mætti grípa, þegar í vandræðin ræki. Mjer virðist rjett að kaupa kornvörur fyrir fje þetta sem fyrst. Þessa matvöru ætti því næst að geyma, þangað til harðnar í ári, og mætti þá selja hana að sínu leyti eins og kolin síðasta ár, með innkaupsverði til þeirra, sem erfiðastar eiga kringumstæðurnar.

Einhver kann að segja, að með ráðstöfunum eins og þessum, væri gengið á rjettkaupmannastjettarinnar. Þeir hjeldu því að minsta kosti sjálfir fram síðasta vetur, að landstjórnin hefði átt að afhenda þeim Ameríkuvörurnar til sölu síðasta ár. Í fjarveru minni í Kaupmannahöfn samþyktu þeir hálfgjörða

vantraustsyfirlýsingu á mig, fyrir að vörunum var úthlutað, eins og átti sjer stað. En jeg verð að taka það fram hjer á Alþingi, að jeg sje ekki, að kaupmannastjettin eigi nokkura heimtingu á því, að fá ágóða af þeim vörum, sem þeir geta ekki útvegað landinu sjálfir, og landssjóður verður því að kaupa, en svo stóðu sakir síðasta ár, enda vonlegt, að kaupmennirnir hafi ekki fje undir þessum sjerstöku kringumstæðum, til að útvega landinu nægilegan vöruforða. Því má og ekki heldur gleyma, að hjer er að ræða um vörur, sem á að geyma að mestu leyti til tryggingar, og svo er á hitt að líta, að engir hafa grætt eins á þessu ári og margir kaupmennirnir. Vjer stöndum nú á alvarlegum tímamótum. Á þinginu hvílir mikil ábyrgð í þessu máli. Vjer getum ekki varpað þessari ábyrgð á kaupmannastjettina eina, og ekki er það heldur verjandi, að láta sjer nægja með að gefa stjórninni heimildarlög. Vjer verðum að láta stjórnina heyra nú ákveðinn vilja vorn um, hvað vjer óskum að gjört sje nú strax. Ærið nóg verður það samt, sem vjer verðum að leggja í hendur stjórnarinnar í þessu máli. En því mega menn ekki gleyma, að stríðið verður ef til vill aldrei harðara en á næstkomanda vetri. Ef einhverjar stórþjóðirnar komast í dauðateygjurnar, þá verður engum hlíft.