03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Einar Jónsson:

Þetta er vandasamt og þýðingarmikið mál, enda er það svo, að því meira sem um það er fjallað, því vandfundnari verða færar leiðir. Eina og öllum er kunnugt, er það aðalefni þessa frv., að sjá landslýðnum fyrir nægri matbjörg og fela stjórninni framkvæmdir í því efni. Það hefir komið fram í umræðunum, að menn álita þetta mjög vandasamt og umsvifamikið verk, og er jeg því samþykkur. Mjer hefir því dottið í hug, hvort ekki myndi tiltækilegt, að skipa fleiri ráðstöfunarnefndir, heldur en þá nefnd eina, sem hjer er gjört ráð fyrir að stjórnin hafi sjer til ráðuneytis. Með öðrum orðum, að skipa ráðstöfunarnefndir í hverju hjeraði til að gefa stjórninni upplýsingar um það, sem hún hlýtur að þurfa að vita.

Jeg álít, að stjórnin og hennar nefnd, Velferðarnefndin, eigi að byrja starf sitt á því, að afla sjer vissu um að geta fengið nægilegan útlendan matarforða. En til þess að vita, hve mikið þarf að flytja inn, verður stjórnin að fá upplýsingar um, hve mikið þurfi á þann og þann verslunarstaðinn, miðað við viðskiftamenn þess sjerstaka kauptúna. Þegar nú vissa er fengin fyrir því, að næg útlend matvara sje fáanleg, eða fyrirliggjandi, þá er að hugsa um, hvort eða hve mikið. af innlendu vörunni þurfi að kyrsetja. Jeg fyrir mitt leyti er alla ekki mótfallinn því, að eitthvað lítið verði kyrsett af íslenskum afurðum, ef þess þykir þörf.

Jeg er samþykkur því, sem hv. þm. Ak. (M. K.) sagði í dag, að frv. myndi koma að meiri notum, ef 2. málsgr. 3. gr. yrði feld burtu. Það mætti hugsa sjer, að fólkið óskaði að lifa í vetur meira á útlendri vöru heldur en innlendri, vegna þess, hvað innlenda varan er í háu verði.

Það hefir ýmislegt og ekki smávægilegt borið á milli í umræðunum. Það er eins og aumir heyri það glymja fyrir eyrum sjer, að það þurfi að skapa lágt verð á vöruna, sem framleidd er í landinu, svo fátækir daglaunamenn og íbúar sjávarþorpa yfir höfuð beri af að kaupa sjer fæðu. Fyrir mínum eyrum er engin suða um það, en hitt liggur í augum uppi, að verðið hlýtur að lækka, ef útflutningur verður heptur takmarkalaust, svo að því get jeg ekki gengið.

Háttv. fram. meiri hl. (S. B.) sagði, að kjöt, sem flutt er út úr landinu, væri fyrirfram selt lægra verði, heldur en Reykvíkingum gæfist kostur á að kaupa það. Þessu verð jeg að mótmæla, sem algjörlega ósönnu og ósannanlegu. Jeg skal skýra frá því, að kjöt það, sem Sláturfjelag Suðurlanda sendi út síðastliðin ár, er selt á 70–75 kr. tunnan. Í tunnunni eru 220 pund, svo að þetta verður þá 32–34 aura hvert pund. En á sama tíma seldi fjelagið sama konar kjöt hjer í Reykjavík á 26–28 aura pundið. Það er 5–6 aurum minna fyrir hvert pund, heldur en fjelagið fjekk fyrir kjötið á erlenda markaðinum. Jeg skal enn fremur geta þess, að Sláturfjelagið græddi á kjötinu, sem það seldi út síðast liðið haust, 10,666 kr.

Jeg skal svo aftur víkja að þeim óviðeigandi ummælum, sem fallið hafa um, að það beri nauðsyn til að lækka verðið á framleiðslu sveitamannsins. Þetta getur naumast stafað af öðru en öfund Reykjavíkurbúa út af þeirri verðhækkun, sem afurðir landbóndans hafa hafa komist í nú um stundarsakir. En í fyrsta lagi er þess nú að gæta, að þessi verðhækkun getur varla haldist lengi, og í öðru lagi er mjer kunnugt um, að árið sem leið mistu sveitamenn fje sitt svo þúsundum skifti, og aftur í í ár á stöku stöðum í hundruðum. Það er því ekki mikil ástæða til að öfundast út af þessari verðhækkun, þar sem sannarleg vissa er fyrir því, að allflestir landbændur töpuðu af bústofni sínum síðastliðið ár fleiri þúsundum króna; heldur en þeir græða hundruð í ár á verðhækkun afurðanna, og ættu þessar slæmu meiningar manna í milli ekki að verða til þess, að lengja umræðurnar hjer í deildinni og vekja úlfúð.

Það var ýmislegt fleira í ummælum háttv. fram. meiri hl. (S. B.), sem jeg gæti hrakið, en kæri mig ekki um að vera að eltast við að svo stöddu. Það, sem er sjerstaklega aðgæsluvert í þessu máli, er að ganga ekki á rjett einstaklinganna, og þó að málið sje vandasamt og erfitt viðfangs, þá verður að gæta þess, að gjöra ekki neitt það, sem auðsjáanlega miðar til að gjöra viðkomendur óánægða, svo að þessi lög verði ekki kölluð þvingunarlög, eins og áður hefir komið fyrir með löggjöfina hjer á landi, t. d. horfellislögin sælu, aðflutningsbannið og fleiri lög, sem við hefir legið að vektu uppreisn í landinu.

Jeg vildi svo að lokum biðja nefndina að íhuga, hvort ekki myndi rjett og heppilegt að skipa nefnd í hverri sýslu, stjórninni til aðstoðar. Jeg vorkenni stjórninni að taka við þessu verki, sem bæði hlýtur að verða vandasamt og vanþakklátt.

Það voru að eins þessar fáu athugasemdir, sem jeg vildi gjört hafa, og býst jeg við, að jeg bæti þær ekki, þó jeg hjeldi lengri ræðu, og læt því þetta nægja.