03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Framsögum. minni hlutans (Þorleifur Jónsson):

Þetta mál, sem nú hefir verið hjer á dagskrá í fleiri daga, er nú orðið svo þrautrætt, að jeg hygg, að menn komist ekki inn á nýjar brautir í því hjeðan af, og málstaður okkar, minni hluta nefndarinnar, hefir verið varinn svo dyggilega af ýmsum háttv. þingmönnum, að jeg þykist ekki þurfa að fara mikið út í málið.

Háttv. andmælendur okkar, þeir sem ekki vilja gjöra sig ánægða með annað en útflutningabann, segja, að það sje of seint að heita útflutninga, ef siglingateppa yrði, t. d. í desember, því að þá sje t. d. kjötið farið út úr landinu. Jeg hefi nú ætíð búist við því, að bæði hæstv. stjórn og Velferðarnefnd muni hafa vakandi auga á öllu þessu dýrtíðarmáli, og einkum gengur minni hlutinn að því vísu, út af umræðum þeim, sem hjer hafa fram farið, og ótta þeim, sem hefir lýst sjer í blöðunum, að stjórn og Velferðarnefnd muni hafa mikinn áhuga á því, að gjöra svo ítarlegar ráðstafanir, sem unt er, til þess að tryggja landinu matarbirgðir fram á komandi sumar. Jeg hefi gengið að því vísu, að spurst yrði fyrir um það sem fyrst út um alt land, hve miklar matarbirgðir til sjeu, t. d. seint í ágúst, og mjer þótti vænt um að heyra, að hæstv. ráðherra gat þess, að þegar væri byrjað á þessu. Einnig hafði jeg búist við því, að stjórn og Velferðarnefnd myndu spyrjast fyrir um það, að hve miklu leyti kaupmenn myndu geta birgt sig upp með útlenda matvöru, því jeg er samdóma þeim háttv. þingmönnum, sem talað hafa um það, að nú er það hin mesta nauðsyn, að fá þegar í haust svo mikið af kornvöru, að það nægði handa öllum fram á næsta sumar. Það er ekkert vit í öðru. Ef ekki verður gott útlit fyrir, að kaupmenn treysti sjer til að liggja með svo miklar birgðir, þá ætti stjórnin að panta það, sem á vantar, upp á landssjóðs kostnað. En jeg þykist nú mega vænta þess, að þar sem ágætt verð er á innlendri vöru, og bændur ættu því að standa sig þolanlega hjá kaupmönnum, að þá hafi þeir aftur tækifæri í betra lagi, til þess að fá sjer miklar vörubirgðir frá útlöndum, ef siglingar heftust ekki. En ef kaupmenn brestur máttinn til að birgja landið, getur stjórnin pantað matvöru, og vænti jeg þess, að hún gjöri það, ef á þarf að halda. Heimildin til þess er í 2. gr. frv. á þgskj. 88, og um þetta var enginn ágreiningur heldur í nefndinni.

Þá er að minnast á innlendu matvöruna. Þar getur stjórnin líka spurst fyrir um það, hvort nokkur tregða muni verða á því, að menn fái hana keypta, og ef útlit er fyrir, að sláturfjelög eða fiskifjelög vilji ekki með góðu móti selja það, sem bæir og sjávarþorp þurfa eða vilja, þá sje jeg ekki annað en að stjórnin geti gripið til eignarnámsheimildarinnar í 3. gr., og að hún sje einmitt stíluð upp á þetta. Hún er alveg eina ljós og örugg leið að fara, eins og útflutningsbannið, en kemur ekki eins illa niður. Hún tekur ekki fyrir kverkarnar á eðlilegri verslun.

Það var alveg rjett hjá háttv. þm. Ak. (M. K.), að þessi heimild væri í sjálfu sjer alveg nóg til þess, að sjá landinu fyrir nægum matarforða, svo að þess vegna mættu hinar málsgreinarnar í rauninni falla burt. En hins vegar sje jeg ekki að það skaði neitt, þótt þær yrðu samþyktar með brtt. minni hlutans.

Jeg sje ekki annað en að öllu sje vel borgið, ef undinn er bráður bugur að því, sem gjöra þarf, og stjórn og Velferðarnefnd eru vel vakandi. Munurinn hjá okkur og háttv. meiri hluta er sá, að við viljum ekki fyrr en í síðustu lög fara að raska eðlilegum viðskiftum í landinu, en tryggingin er alveg jafngóð í okkar tillögu, eins og jeg hefi áður sagt. Hins vegar býst jeg ekki við því, að oft þurfi að grípa til þessara úrræða, því að jeg hygg, að flestir framleiðendur muni eins vel vilja selja innlendum sem útlendum vörur sínar. Og þar sem þær eru í háu verði nú sem stendur, þá munu menn síður sækjast eftir henni, t. d. kjöti, en kaupa fremur þær matartegundir, sem þeir geta fengið ódýrari, beeði innlendar og útlendar, af innlendu vörunum t. d. slátur og ódýrari fiskitegundirnar.

Sumir háttv. þingmenn hafa látið í ljós ótta við það, að ef brtt. á þgskj. 113 nái fram að ganga, þá muni ekki verða hægt að grípa í taumana fyrr en voðinn sje dottinn á. Jeg held ná, að mönnum þurfi ekki að verða skotaskuld úr því, að gjöra við þessu. Það mætti koma með brtt. til 3. umr., þess efnis, að stjórnin gæti grípið strax í taumana; ef það sæist, að flutningateppa væri í aðsigi. Það er alls ekki tilgangur minni hlutans, að setja stjórninni svo stólinn fyrir dyrnar, að ekkert sje hægt að gjöra fyrr en algjört siglingabann er skollið á, og því myndi hann ekkert hafa á móti brtt. í þá átt.

Þá ætla jeg, meðan jeg man, að leyfa mjer fyrir hönd minni hlutans að taka aftur 3. brtt. okkar við 5. gr. Úr því að þetta er komið inn í greinina, sem aldrei þurfti þar að vera, þá er það ef til vill varhugavert, að setja stjórninni svo stólinn fyrir dyrnar, sem gjört væri með þessari brtt. Það gæti þá litið svo út, eins og stjórnin mætti ekki verja neinu fje til þessara mála, en það leiðir af sjálfu sjer, að hún verður að hafa fje til framkvæmda málsins. Það hefir verið talað um, að það sje af tortrygni við stjórnina, að minni hlutinn hefir ekki getað fylgst með, en það er alveg gripið úr lausu lofti. Minni hlutinn vantreystir alls ekki hæstv. stjórn, þótt hann hins vegar vilji ekki ganga að því, að hefta tölu vert eðlilega rás viðskiftanna. Og auk þess er þess að gæta, að þótt stjórnin hefði besta vilja á því, að fara varlega í þessu máli, þá hljóta ætið ýms öfl að verka á hana í mótsetta átt, og þau bæði sterk og frá mörgum hliðum, svo að hún hlýtur að verða í allmiklum vanda stödd. Það er sem sje áreiðanlega vilji sumra manna, að knýja fram útflutningsbannið, til þess einmitt, að innlenda varan geti fallið í verði. Þó að háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) sje nú farinn að draga úr því, þá var það áreiðanlega tilgangurinn upphaflega, enda fanst mjer svar hans til háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) benda í þá átt, að hann sje ekki alveg fallinn frá þessu. Hann gat þess sem sje, að við útflutningsbann hlyti að skapast innlent markaðsverð, og að það yrði lægra en útlenda markaðaverðið, og þetta: skýrir það, að enn er ekki brotinn á bak aftur sá uggur, sem minni hlutinn hafði um það, að það væri meiningin, að fella innlendu vöruna að nokkru leyti í verði.

Nei, jeg tek það fram enn og aftur: Það er ekki því líkt, að minni hlutinn hafi á móti því, að ráðstafanir sjeu gjörðar, til þess að sjá landinu fyrir mat. Við viljum að eins fara dálítið aðra leið til þess en háttv. meiri hluti, og við vonum, að sú leið verði alveg eins hagkvæm og hin.

Jeg held svo að það sje ekki vert, að jeg haldi lengri ræðu að sinni. Jeg býst þá við að taka til máls seinna, ef jeg hefi gleymt einhverju.