03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Pjetur Jónsson:

Jeg hefi ekki tekið þátt í þessum umræðum, sem nú eru orðnar svo langar, og hafði ekki hugsað mjer að gjöra það, enda virðist mjer hjer vera þráttað út af litlu efni í sjálfu sjer. Það er ekki mikið, sem á milli ber.

Mjer virðist hugsunin hafa verið sú, hjá flestum háttv. þm., sem talað hafa og eitthvað stutt að þessu máli, að hjer sje um það að ræða, að veita stjórninni vald og möguleika til þess að bjarga, ef til stórvandræða skyldi horfa vegna matarskorts. Þetta hefir vakað fyrir báðum hlutum nefndarinnar.

Jeg býst ekki heldur við, að vilji manna um það, að hjálpast sem best að í þessu máli, sje neitt verulega sundurleitur. Það er aðallega aðferðin, sem menn greinir á um. Það er ákvæðið í 3. gr., sem valdið hefir mestum ágreiningi á milli meiri og minni hlutans, og eina og þrefið og stappið hefir gengið um þetta nú að undanförnu, þá er eins og alt af sje verið að auka bilið, í staðinn fyrir að draga það saman og minka það. Þegar jeg sá þetta frumvarp, þá gjörðist jeg meðflutningamaður að brtt. við 3. gr. um það, að setja sams- konar skorður og í fyrra til þess, að stjórnin noti bannið því að eins, að full nauðsyn sje til. Það er álit meiri hl., að bannið sje algjört, eða þannig, að stjórnin hafi óskoraða heimild, en mjer finst að eins, að meiri hlutinn ekki skýri með nægum rökum þetta álit sitt, eða það, hvernig hann vill að farið sje að. Jeg álít vitaskuld, að við hjer ættum að haga okkur í þessu efni sem líkast öðrum þjóðum. Og ekki vantreysti jeg stjórninni til, að gjöra sitt besta í þessu efni. En það var þó í fyrra, þegar sams konar frumv. var á ferð hjer, eftir mínum till., að heimild stjórnarinnar til að banna útflutning væri bundin við aðflutningsbann á matvörum. Það var þá ekkert haft á móti þessu, og jeg hjelt, satt að segja, að þetta myndi ekki valda svo miklum deilum nú. Þess vegna gjörðist jeg líka meðflutningsm. að brtt. í þessa átt. Þetta má ekki skilja svo, sem jeg vantreysti stjórnini. Jeg býst við, að hún fari vel með vald sitt, og gjöri því ekki að neinu kappsmáli, hvort samþykt verður brtt., samhljóða minni hluta nefndarinnar, eða það stendur, sem meiri hlutinn vill hafa. Jeg er á þeirri skoðun, að heimild sú, er stjórnin fær, til þess að framkvæma eignarnám á íslenskum vörum, sje nægileg, til þess að birgja landið að matvælum, engu síður en sú aðferð, sem meiri hl. ætlast til, að hún komi til leiðar með banninu. Jeg sá hvergi í nefndaráliti meiri hlutans neina skýringu á því, hvernig hann hugsaði sjer þetta í framkvæmd. Nú er aðalatriðið, að stjórnin geti eitthvað gjört, sem gagn er að, og mjer er ekki kappsmál um, hver aðferðin er höfð, bannið eða eignarnámið. Jeg mun þess vegna hvorki greiða atkvæði með nje móti tillögu þessari, sem jeg hefi gjörst meðflutningsmaður að, því að jeg álít nauðsynlegt að draga saman hugi okkar í þessu máli, svo sem unt er.

Jeg hafði hugsað mjer, að fara nokkrum orðum um það, á hvern hátt myndi heppilegast að birgja landið að matvælum, en nú eru svo fáir viðstaddir, að jeg sleppi því. Sumir hafa talið það hreinustu fjarstæðu, að setja niður verð á íslenskum vörum, svo að þær yrðu kaupandi fyrir fátæklinga. Jeg vil ekki, og álít ekki neinn hafa umboð til, að flytja þenna hugsunarhátt hjer á þingi fyrir hönd bændastjettarinnar. Jeg get vel felt mig við það, að einhvers konar kvöð eða skattur sje lagður á þann gróða, sem framleiðendur nú hafa af völdum stríðsins, nokkurs konar stríðsskattur, og að þeir verði látnir njóta góðs af þessu, sem líða mest við þessa óskaplegu styrjöld. Jeg hefi íhugað, að ef t. d. tekinn væri 1/10 partur af öllu kjöti í landinu, og haldið eftir, og verðlaganefnd setti svo verðið á því kjöti niður um 20%, þá væri þetta þó ekki nema 2% skattur á öllu kjötinu, og það eru sannarlega engin ósköp, þegar litið er á, hvað kjöt hefir stigið í verði síðasta ár. Sama máli er að gegna um fisk. En þetta væri nægilegt til þess, að tryggja landinu nægar vörur, með hæfilegu verði.

Jeg segi reyndar ekki, að frumvarpið sje fullkomið, eina og það er, t. d. með tilliti til eignarnáms, en því má breyta til batnaðar. Jeg hygg, að þó jeg segði, að framleiðendur alment myndu sætta sig við, að einhver kvöð, lík þessu, yrði lögð á þá, þá myndi jeg hafa fult svo mikið til míns máls og hinir, er móti slíku mæla. En sú hugsun, sem mjer finst koma fram hjá meiri hluta nefndarinnar, að bann skuli sett á, og svo leyft að flytja nokkuð út af vörunni, í þeirri von, að verðið á því, sem eftir sje, þrýstist svo niður af sjálfu sjer, finst mjer ekki rjett. Ef sú tilhögunin á ekki að koma misjafnt niður á framleiðendum, þá verður hún alt eins fyrirhafnarsöm og lögnámsaðferðin, eins og jeg hafi bent á að mætti haga henni.