03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Ráðherra:

Að eins örfáar athugasemdir út af ræðu háttv. 2. þm. Rang. (E. P.).

Hann virtist ekki geta fallist á þann skilning minn, að eignarnámsheimildin stæði í sambandi við útflutningsbannsheimildina. Jeg gæti skilið þenna hugsanagang háttv. þm. (E. P.), ef 2. og 3. málsgr. 3. gr. væru alveg feldar burtu. Þá væri öðru máli að gegna. En ef 3. gr. á að breyta samkvæmt tillögu minni hluta nefndarinnar á þgskj. 113, þá hverf jeg ekki frá því, að eftir almennum lögskýringarreglum, verður greinin ekki skýrð á aðra leið en þá, að ekki megi beita eignarnámsheimildinni, nema sama þörf kalli að, og ákveðið er að þurfi til útflutningsbannsins. Þetta er hvorttveggja svo líkt í eðli sínu, þó að bæði mjer og öðrum finnist eignarnámaheimildin erfiðari í framkvæmdinni og jafn vel lítt nothæf í flestum tilfellum.

Ýmislegt annað í ræðu háttv. 2. þm. Rang. (E. P.), var bygt á æði miklum misskilningi. Hann vildi halda því fram, að ef útflutningsbannaheimildin yrði notuð, þá mundu vörurnar að sjálfsögðu lækka í verði. (Eggert Pálsson: Það er áreiðanlegt). Ekki er það svo frá mínu sjónarmiði; jeg held miklu fremur hið gagnstæða. Sá hluti vörunnar, sem út verður fluttur, en það verður vitanlega langmesti hlutinn, hækkar í verði, því að kaupandinn á útlenda markaðinum lítur svo á, líkt og háttv. 2. þm. Rang. (E. P.), að vegna útflutningsbannsins verði útflutta varan minni en ella. Eftirspurnin eykst, og fyrir því hækkar vöruverðið en lækkar ekki. Þá er það hinn hluti vörunnar, sem eftir kynni að verða í landinu, að hann fari með gjafverði. Jeg held, að menn þurfi ekki að vera hræddir um það, þegar af þeirri ástæðu, að útflutningsbannsheimildin mundi aldrei verða notuð, frekar en nauðsyn krefði. Kyrsetta varan yrði alt af hverfandi í samanburði við útfluttu vöruna. (Eggert Pálsson: Í lögunum stendur, að útflutninginn megi hefta að öllu leyti). Já, en það er að eina sett vegna þess, að á ýmsum stöðum, getur svo fáu fje verið slátrað, að kjötið verði svo lítið, að alls sje neytt þar á staðnum. Það þarf varla að eyða orðum að því, að yfirleitt verður ekki nauðsynlegt að nota útflutningsbannsheimildina, nema að litlu leyti. Mismunandi mikið, auðvitað, á hinum ýmsu stöðum, eftir því hvað mikið berst að af vörunni.

Háttv. þingmaður (E. P.) hjelt svo áfram, og sagði, að útflutningsbannsheimildin gæti leitt til þess, að menn yrðu hræddir við að farga fje sínu, settu óvarlega á, og það yrði svo til þess, að menn feldu úr hor í vor. Þetta mun vera það, sem kallað er að »mála fjandann á vegginn«. Það getur náttúrlega komið fyrir, að menn felli úr hor — til þess eru því miður dæmi, — en það verður aldrei af þessari ástæðu.

En þá fyrst kastaði tólfunum, er hv. þm. (E. P.) leiddi þessar röksemdir frá kjötinu og yfir á fiskinn. Nú veit það hvert barnið, að það er og hlýtur að verða alveg hverfandi lítið, sem hjer er etið af fiski, í samanburði við það, sem út er flutt. Háttv. þingmanni (E. P.) þýðir ekki að hrista höfuðið yfir því. Þetta vita allir. Útflutningabann á saltfiski, til þess að landsmenn geti fengið hann sjer til viðurværis, gæti ekki haft hin minstu áhrif á saltfisksverðið erlendis. Svo lítið þyrfti að kyrsetja af fiskinum. (Eggert Pálsson: Það stendur ekki í lögunum, að það eigi að vera lítið). Jeg er ekki að karpa um þetta við þingmanninn. En hitt þykir mjer nokkuð hart, að láta væna mig eða aðra um það, að jeg notaði útflutningabannaheimildina meira en nauðsyn krefði, einungis til skaða fyrir landamenn. En jafnvel þótt haldið væri eftir miklu meiru af fiski en nauðsyn krefði, mundi samt sem áður ekkert muna um það. Jeg skil ekki, að náttv. 2. þm. Rangv. (E. P.) nje nokkrum öðrum, detti sú fásinna í hug, að nokkur stjórn eða bjargráðanefnd gjöri aðra eins vitleysu og þá, að leggja t. d. útflutningabann á allan saltfisk hjer frá Reykjavík.

Háttv. þingmaður (E. P.) talaði um, að ekki ætti að lögleiða útflutningabann fyrr en öll sund væru lokuð. Þessu hefir verið margsvarað, og sagt, að ofseint væri að byrgja brunninn, þegar barnið væri dottið ofan í hann, og þarf jeg því ekki að eyða orðum að því frekar.

Enn sagði háttv. þingmaður, að herþjóðirnar hefðu kúgað hlutlausu þjóðirnar, til þess að lögleiða útflutningabann. Það getur verið, að þetta sje ekki svo mikil fjarstæða í nokkrum tilfellum. En það er alls ekki almenn regla. Hann tók dæmi af Dönum, og þar gildir þessi regla alla ekki. Danir hafa lagt útflutningsbann á flesk, en þeim hefir alla ekki dottið í hug, að leggja útflutningsbann á alt flesk, sem framleitt er í landinu. En þó að Dönum hafi þótt skynsamlegt að gjöra þessar ráðstafanir, þá er síður en svo, að aðflutningar til þeirra sjeu teptir, eins og jeg býst við að háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) viti til fullnustu. Norðmenn hafa farið eins að.

Menn hafa talað um, að þá varði ekki um, hvernig þessu sje fyrir komið í öðrum hlutlausum löndum. Jeg verð að halda því fram, að við sjeum ekki ofgóðir, nje ofvitrir, til að læra af öðrum þjóðum í þessu efni. Jeg býst við, að það, sem talið er nauðsynlegt í þessu efni annarstaðar, geti ekki síður orðið nauðsynlegt hjer.