03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Jóhann Eyjólfsson :

Mjer virðist sumir háttv. deildarmenn reyna að láta á sjer skiljast, að hjer sje enginn meiningarmunur á milli manna, heldur að

eins lítils háttar orðamunur, sem sundurþykkju veldur. Jeg held, að menn vilji ekki skilja, ef þeir skilja ekki, að hjer er meiningamunur í deildinni, og hann mikill. Með þessu segi jeg þó ekki, að frv. megi ekki breyta svo til 3. umr., að lítið beri á milli.

Það hefir verið sagt hjer, að ekki ætti að þröngva kosti manna með þessum lögum. Jeg get þó ekki sjeð annað, en að framleiðendur verði hart úti, ef þetta frumv. verður samþykt, í þeirri mynd, sem það liggur fyrir hjer í deildinni. Ef varan er sett föst, meðan á markaðstímanum stendur, hlýtur hún að falla í verði, og þá hljóta framleiðendurnir að bíða halla, nema ef það opinbera á að borga mismuninn. En þenna skaða, sem framleiðendur bíða af slíku útflutningsbanni, getur undir mörgum kringumstæðum orðið erfitt að meta rjettilega til verðs.

Mjer virðist kenna ósamræmis í ræðum hæstv. ráðherra í þessu máli. Þegar háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) stakk upp á öðrum bjargráðum en þeim, sem hjer er um að ræða, þá kvað hæstv. ráðh. ekkert fje vera fyrir hendi, til þess að birgja landið með vörum. Svo mikið hjelt hann að þá þyrfti til slíkra ráðstafana, að landssjóður hefði engin ráð til þess. En þegar verið er að friða framleiðendur, þá á þetta að vera svo ósköp lítið, sem kyrsetja þarf af vörum, að ekkert geti munað um það. Jeg skil ekki, að hjer sje samræmi á milli. Ef landssjóður hefir ekki ráð á að kaupa nægar vörur frá útlöndum, þá hefir hann ekki ráð á að kaupa nægilegt af íslenskri vöru. Eða eiga íslenskir framleiðendur ekki að fá neitt fyrir sína vöru? Eða þá svo sáralítið, að ekkert muni um það? Og þó eiga þeir ekki að verða fyrir neinum halla! Í öllu þessu finn jeg ekki gott samræmi. Eða eiga þeir ekki að fá borgunina fyrr en seint og síðar meir? Jeg get þó trúað því, að mörgum þeirra liggi ekki svo lítið á borguninni, og kæmi vel að fá hana strax í haustkauptíðinni.

Útflutningsbann verður maður að álíta einhverja mestu neyðarráðstöfun, sem hægt er að grípa til, því alt svo ilt og leiðinlegt, sem það er að leggja á útflutningsgjald eða dýrtíðarskatt í einhverri mynd, þá er þar þó í mínum augum ólíku saman að jafna.

Háttv. framsögum. meiri hl. (S. B ) sagði, að ef við litum með rósemd á málið, mundum við komast að annari niðurstöðu um það. Þetta sama getum við einnig sagt um hann og þá, sem honum fylgja að málum.