03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Sigurður Eggerz:

Það eru að eins nokkur orð. Það er ein spurning, sem jeg ætla að varpa fram :

Hve nær er meiningin að bjarga landinu? Hve nær er kominn tími til þess, að stjórnin gjöri þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar þykja, til þess að bjarga landinu ? Er þessi tími nú ? Eða kemur hann í haust? Búast menn við, að tilkynning komi um hættuna?

Hættan getur komið þegar minst vonar varir; hún getur komið á morgun, og verið getur, að hún komi aldei. Þess vegna eiga menn að vera viðbúnir og varpa ekki öllu upp á stjórnina, heldur á þingið sjálft að taka í taumana.

Það er full ástæða til þess, að nú þegar verði keyptir 2 skipsfarmar og geymdir þangað til í harðbakkann slær. Þar með á ekki að steypa kaupmönnum í nokkura hættu, heldur að eins tryggja það, að landið eigi þennan forða.

Jeg get ekki að því gjört, að oft hefir mjer í dag dottið í hug saga, eftir Gest Pálsson, að mig minnir, sem svo byrjar: »Eigum við að setja?« Mennirnir eru staddir niðri í fjöru og eru með ráðagjörðir um, hvort þeir eigi að setja bátinn eða ekki, þangað til sjór tekur bátinn. Það væri óskandi, að Alþingi væri ekki svo lengi að hugsa málið, að of seint yrði að gjöra nokkuð. Ef Alþingi finst ekki nú þegar tími til kominn að gjöra, eitthvað, þá getur það engan veginn kastað steini á stjórnina, þótt hún kynni að draga málið þangað til of seint er orðið. Ráðstafanirnar verður að gjöra sem fyrst, því að of seint er að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í.

Háttv. framsm. meiri hl. (S. B.) og hæstv. ráðherra hafa tekið það fram, að ekki væri hægt að fá húsrúm til að geyma í vörurnar. Hugsum oss, að oss væri kunnugt um, að 20. október yrði algjörð siglingateppa, en vjer gætum fengið nægan vöruforða 10. október. Ef stjórnin neitaði þessu, vegna húsleysis, þá er jeg hálfhræddur um, að ekki yrði sólskinsandlit á þjóðinni. Slíkt og því um líkt er að eins viðbára, sem ekkert hefir við að styðjast. Því að til hvers væri þá ella að gefa stjórninni heimild til vörukaupa?

Nei, vjer ættum að muna það, að hættan getur skollið á undir eins, og gjöra því ráðstafanir til að kaupa. Svo framanlega sem ráðstafanirnar eru gjörðar nú, þá geta þingmenn horfið rólegir til kjósenda sinna og landslýður getur verið rólegur.

Hæstv. ráðherra sagði, að örðugt væri fyrir þingið sem slíkt að vasast í þessu máli. Það er auðvitað ekki meiningin, að forsetar eða þingmenn gjöri pantanirnar, heldur hitt, að samþykkja t. d. þingsályktunartillögu, sem feli stjórninni þetta. Mjer finst sjálfsagt, að þingið varpi ekki allri ábyrgðinni á stjórnina; það ætti að hafa dug til að bera eitthvað af henni sjálft.