03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Matthías Ólafsson :

Af þeim, sem talað hafa með minni hluta nefndarinnar, hefir enginn komið fram með nokkurt verulegt ráð til bjargar. Ef ráðin hefðu ekki komið annarstaðar að, hygg jeg, að enginn úr þeim flokki hreyfði hönd nje fót til bjargar.

Hvað er það sem á að gjöra? Er ekki unt að halda nægilegum mat í landinu? Liggur ekki næst fyrir, að halda þeim mat, sem vjer höfum sjálfir?

Þótt vjer nú hefðum skip, þá erum vjer samt eigi trygðir, og þrátt fyrir hávær orð háttv. þm. V.-Sk. (S. E.), þá getur hann alls ekki bent á, hvar á að geyma forðann. Það er líka vert að athuga, hvað einn skipsfarmur er mikið. Hann er að eins 65 kíló á mann í Reykjavík. Og hvað nægja 65 kíló alls og alls af öllum vörum upp og ofan ? Menn segja, að hægt væri að geyma vörurnar út um land. En á landssjóður nokkur geymsluhús út um land, eða halda menn, að kaupmenn muni fúsir til að lána hús sín?

Nei, það er vissara að fastráða húsnæði áður en vörurnar koma. Mjer er kunnugt um, hvernig gekk með vörur landssjóðs í fyrra. Það var af hendingu, að nýsmíðað hús fekst undir þær, og og mundu þær hafa stórskemst, ef þær hefðu ekki verið geymdar þar að eins stuttan tíma, og mundu ekki hafa komist þar fyrir, ef ekki hefðu selst jafnóðum, sem þeim var skipað upp.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) talaði um, að aðrar þjóðir hefðu veitt undanþágu frá, útflutningslögum sínum. Þetta er rjett, og af þessu banni þeirra stafar verðið hjer, ella væri kjötið ekki svo dýrt hjer.

Hvernig þingið á að gjöra annað en það, sem aðrar þjóðir gjöra, sem sje að fela stjórninni framkvæmdir þessa máls, fæ jeg ekki skilið. Jeg sje ekki betur en að það sje grýla, að vera hræddur við útflutningsbann, enda er það tekið fram, að ekki sje ætlast til, að bannið verði nema á nokkrum hluta og á einstökum stöðum, þar sem nauðsynlegt þætti að banna.

Jeg mun greiða atkvæði með tillögum meiri hlutans, því jeg tel þær það eina, sem tiltækilegt er að gjöra í þessu máli, því það er það eina, sem kemur að nokkru gagni.

Jeg býst við því, að þeir menn, sem við kjósum í Velferðarnefndina, verði þeir bestu menn, sem við eigum völ á, og jeg sje því ekki ástæðu til að óttast, að þeir brúki ekki alla sanngirni, enda þarf þess mjög með í þessu máli. Jeg myndi beita allri varfærni, sem mögulegt væri, ef jeg væri í nefndinni, og sama býst jeg við af öðrum. Jeg skal svo ekki lengja umræðurnar meira, og læt nú útrætt um þetta mál.