03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Ráðherra:

Jeg skal þá fyrst minnast á það, sem háttv. þm. Mýr. (J. E.) sagði. Honum fanst það ósamkvæmni hjá mjer, er jeg sagði, að landssjóður mætti ekki við því, að binda fje sitt í vörum, sem keyptar væru frá útlöndum. Því spyr hann, hvort landssjóður megi betur við því, að binda fje sitt í kjöti, sem hann kaupi af landsmönnum. Jeg skal reyna að sannfæra háttv. þm. um, að jeg hafi ekki sagt hjer neitt, sem ekki sje hvað öðru samkvæmt.

Landssjóður þarf ekki að binda neitt fje, þótt hann kaupi kjöt af landsmönnum, því það yrði þá jafnóðum selt til neytenda og þeir greiddu auðvitað andvirði þess við móttöku. Um hitt er alt öðru máli að gegna. Ef keyptur yrði skipsfarmur af korni frá útlöndum, þá yrði hann sennilega geymdur í 3–6 mánuði eða lengur. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg sje mótfallinn því, að keypt verði korn frá útlöndum, heldur einungis til þess, að sýna háttv. þm., að hjer þarf engin ósamkvæmni að eiga sjer stað.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) hefir víst að einhverju leyti misskilið mig. (Magnús Kristjánsson: Nei, alls ekki). Jæja, jeg hefi þá misskilið hann, því jeg hjelt að tillögur hans væru tilraun til samkomulags. Háttv. þm. var í efa um, hvort væri harðara, eignarnám eða útflutningsbann. Jeg get frætt hann á því, að það er ekki vafi á því, að eignarnámið er miklu harðara.

Þá hjelt háttv. þm. (M. Kg.) því fram, að bannið hlyti að ná til allra vörutegundanna, þegar það kæmi til framkvæmda. Þetta er ekki rjett, því það gæti vel komið fyrir, að bannaður yrði útflutningur á kjöti og fiski, en ekki ull og hrossum o. a. frv. Jeg sje heldur enga ástæðu til þess ótta, sem kom fram í ræðu háttv. þm. um að undanþágur frá banninu mundi ekki fást. Jeg býst varla við, að beiðnum um undanþágur yrði neitað. Enda hjálpar síminn nú svo mikið til þess, að koma slíkum umsóknum á framfæri.

Háttv. þm. (M. K.) talaði um það, að útflutningsbannið gæti haft illar afleiðingar fyrir kaupmenn, því þeir gætu þá ekkert sagt um það fyrirfram, hve mikið þeir gætu selt út úr landinu. Þetta er auðvitað rjett, að þeir gætu það ekki til fulls, en jeg sje ekki, að þeir væru neitt betur staddir, ef þeir mættu eiga það á hættu, að teknar yrðu hjá þeim eignarnámi á hverri stundu þær vörur, er þeir ætluðu að flytja út. Ekkert gætu þeir vitað um hve mikið yrði tekið af birgðum þeirra. Háttv. þm. talaði einnig um það, að hægra væri við að eiga, ef við vissum hve mikið þyrfti af hverri vörutegund. Þetta er auðvitað rjett hjá háttv. þm., en það er ekki svo gott að koma því svo fyrir, að við fáum að vita það, því að engar skýrslur eru nú til um það. Það gæti því auðveldlega farið svo, að við tækjum eitthvað of lítið eða of mikið.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) talaði um handahóf í sambandi við útflutningsbannið. Jeg vil spyrja háttv. þm. hvort hann geti ekki hugsað sjer handahóf í sambandi við eignarnámið. Sami háttv. þm. sagði, að útflutningsbannið í Danmörku væri meira í orði en á borði. Jeg veit ekki hvaðan honum kemur slík viska; jeg veit ekki annað en strangt eftirlit sje haft með því þar, að bannlögin sjeu ekki brotin. Og það veit jeg, að smyglun er þar hegnt mjög stranglega. Þá skal jeg geta þess, að jeg veit ekki til að það útflutningsbann, sem hefir verið hjer á kolum, hafi komið að nokkru óliði.

Jeg held nú að það sje ekki fleira, sem jeg þarf að taka fram, því háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) hefir svarað flestu því, er svara þyrfti.