06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Ráðherra:

Jeg skildi ekki vel það, sem háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) sagði um þetta mál við 2. umr., og ekki heldur það, er hann sagði nú. Þó skildist mjer, að hann vildi láta þingið fara að taka ákvörðun, og skipa fyrir um, hve mikið skuli keypt af kornvöru inn í landið af hálfu stjórnarinnar. Þetta er að minsta kosti alt annnað og meira en gjört var í fyrra; þá var stjórninni að eins gefin heimild til vörukaupa. En nú á þingið, eftir vilja háttv. þm. V.-Sk. (S. E.), að skora á stjórnina að kaupa svo og svo mikið af vöru inn í landið. Jeg get ómögulega sjeð ástæðu til þess, að menn fari að koma með slíkar tillögur nú, fremur en í fyrra. Þá þótti nægilegt að setja 5 manna nefnd til aðstoðar stjórninni, eins og gjört var með lögum 3. ágúst 1914. Jeg get ekki sjeð, að hættan sje meiri nú en í fyrra. Vöruflutningar hafa alt af verið stöðugir til landsins, og kann ske miklu minna útlit fyrir snöggar sveiflur niður eða upp á við á heimsmarkaðinum, sökum þess, að nú, þegar svo langt er liðið frá upphafi ófriðarins, þá er hræðslan farin að jafna sig og óróleikinn orðinn minni. Þetta má reyndar ekki skilja svo, er jeg hefi nú sagt, að mjer fyrir mitt leyti sje ekki sama um, þó að þingið gjöri einhverja ályktun um, hvernig ráðstafanir gjöra skuli. En jeg vil benda á, að hafi þingið sagt A, þá verður það líka að segja B, það er að segja, að útvega peninga þá, sem nauðsynlegir voru til slíkra ráðstafana.