02.08.1915
Neðri deild: 22. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

63. mál, Dalavegur

Pjetur Jónsson:

Jeg get ekki verið á sama máli og háttv. þm. Dal. (B. J.) um það, að þetta frumv. eigi að afgreiða umræðulaust og umhugsunarlaust. Mjer er kunnugt um, að hjeraðsbúar eru ekki einhuga um að stefnu þjóðvegarins verði breytt á þann hátt, sem frumvarpið fer fram á. Jeg vil því mæla með því, að nefnd verði sett í málið. Getur þá nefndin tekið við skilríkjum þeim, sem lúta að því, hvort hjeraðsbúar eru ánægðir með þessa ráðstöfun eða ekki. Einnig er sjálfsagt, að nefndin ráðgist um málið við verkfræðing landsins. Þetta þarf ekki að vera neitt banatilræði við málið. Jeg get ekki trúað, að það sje háskalegt, að það tefjist nokkur dægur, meðan hjeraðsbúar eru ekki sammála um, hvernig því skuli fyrir komið.