02.08.1915
Neðri deild: 22. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

63. mál, Dalavegur

Flutnm. (Bjarni Jónsson):

Ef menn vilja vjefengja það, að frumv. sje í samræmi við vilja hjeraðsbúa, vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp ummæli sýslunefndar Dalasýslu, sem prentuð eru sem fylgiskjal við nefndarálitið um málið í fyrra. Þau eru á þessa leið:

»Sýslunefndin skorar á Alþingi, að breyta svo vegalögunum, að þjóðvegurinn, sem nú liggur um Hjarðarholt, verði framvegis ákveðinn frá Breiðamel, sem er milli Saura og Sauðhúsa, um brúna á Laxá og Búðardal, og þaðan svo kallað Land fyrir neðan Ljárskóga að Fáskrúð«

Nú er aðgætandi, að hjer er það eitt deilumál, hvort brúin eigi að vera á efra eða neðra vaðinu yfir ána. eg hefi ekki ákveðið neitt um það í frv., því að jeg skoða það ekki lagamál, heldur eigi landsverkfræðingurinn og sýslunefndin að jafna þann ágreining.

Um hitt er aftur á móti enginn ágreiningur, enda hefir sýslunefndin samþykt það hvað eftir annað með öllum atkvæðum: gegn einu.

Allar upplýsingar, sem landsverkfræðingurinn getur gefið um þetta mál, eru í brjefi hans, dagsettu 18. júlí 1914, sem prentað er ásamt nefndarálitinu í fyrra á þgskj. 217, í skjalaparti þingtíðindanna bls. 324–325. Það þarf enga nefnd til þess að ná í þær upplýsingar. Vilji menn láta Dalabúa gjalda þess, að jeg hefi ekki sömu pólitíska skoðun og meiri hluti þingsins, þá er þeim að velkomið. En það vil jeg láta þá vita, að þeir vinna mjer ekki tjón með því, heldur sjálfum sjer, ef þeir ætla að senda mann á móti mjer til næstu kosninga.